Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Velkomin Lucia Celeste Molina Sierra

luciaLucia er eins og hún segir sjálf frá á Flickr prófílnum sínum, sæt stelpa. Við hljótum að gleðjast yfir því að hún bætist í flóru Íslendinga. Þeir sem þetta lesa mega ekki kenna henni um málið. Hún hefur enga sök unnið, það næg refsing hvort sem er að eignast Jónínu fyrir tengdamömmu.

Því trúir þó ekki nokkur maður að Jónína hafi ekki hamast í fólki til að fá ríkisborgararétt fyrir Luciu.

Og við hverja þurfti hún að tala? Hverjir voru þessir þrír sem fóru yfir umsóknirnar? Það voru Bjarni Ben. Guðrún Ögmunds og Guðjón Ólafur.

Gunna Ögmunds er svo aum fyrir öllum útlendingum að hún hefur ekki einu sinni þurft símtal.

Guðjón Ólafur er framsóknarmaður í Rvk. og því ekki líklegur til að vera með eitthvað múður.

Bjarni er pragmatískur fram úr hófi og kurteis og því hefur hann látið undan þegar hann var með Jónínu brjálaða á hælunum á sér. Það er svo sem skiljanlegt að hann bregðist þannig við, hún hefur heimtað allt og hótað hinu.

En hver lak þessu máli? Þar er einn líklegastur og það er Guðjón Ólafur. Hann er líkleg búinn að reikna dæmið þannig að eftir kosningar þá verði Jón ekki lengi formaður. Þá standa eftir forystumenn í Rvk hann og JB, þetta mál veikir Jónínu verulega. Guðjón veit sem er að hann fer ekki inn á þing í kosningunum og því er honum sama þótt framsókn tapi einhverjum prósentustigum í viðbót. Guðjón hefur stóra drauma og mikinn metnað, það er ekki nóg að vera bara umsjónarmaður leikskrár Vals og varaþingmaður. Það er líka löng hefð fyrir undirferli í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Guðmundur G. Þórarinsson þótti ekki vandur að meðölum þegar hann ýtti Haraldi Ólafssyni prófessor út. Guðmundur fékk svo að kenna á Finni Ingólfssyni og líkti þá vinnubrögðum Finns við bófaflokk í Chicago eins og frægt er.

Að lokum þá var umfjöllun Helga Seljan um veitingu ríkisborgararéttar í fréttinni til fyrirmyndar. Með því betra sem maður hefur séð þegar fjallað er um flókin ferli skrifræðisins.


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustur vinur

er maður sem skrifar svona: 

Ég á slatta af vinum sem eru í samböndum frá því í menntaskóla. Þegar ég fylgist með þessu fólki finnst mér eins og það sé lifandi dautt. Ekkert af þeim samböndum sem ég þekki til eru sérstaklega ástríðufull og stundum finnst mér eins og þetta lið hati hvort annað í raun og veru.

 Mikið er ég feginn að ég þekki manninn ekki.


Lemdu tíkina mína

sigurlistGetur einhver frómur útskýrt fyrir mér afhverju Samfylkingin í suðurkjördæmi vill lemja tíkina sína? Hver er tíkin? Eftir að hafa búið til halllrislegustu kosningaauglýsingu vorsins ákváðu strákarnir í "sigurlistanum", þeir Bjöggi, Lúlli og Robbi að senda okkur skilaboð með auglýsingu sem leikur lagið "Smack My Bitch Up" Hver er tíkin sem á að lemja, Ingibjörg Sólrún, Guðný Hrund eða einhver önnur? 

Vefurinn www.sigurlistinn.is er sagður á vegum ungra jafnaðarmanna, en ég velti því fyrir mér af hverju "ungir" jafnaðarmenn gera auglýsingu um Davíð Oddson með 10 ára gömlu popplagi. Mér finnst það liklegra að þegar kom að því að velja eitthvað "edgy" lag sem ögraði þá voru það karlar undir fertugt sem stóðu í hugmyndavinnunni.

Væri ekki kómískt ef Björgvinn Gé yrði ráðherra jafnréttismála vegna þessarar auglýsingar? 

Hver vill kjósa flokk sem talar bara um mann sem hætti pólitík fyrir tæpum 2 árum? 


Kosningaauglýsingar

Eru skemmtileg fyrirbæri, þegar vel tekst til þá eru þær snilld, en þegar illa gengur þá eru þær hrikalega pínlegar, svo pínlegar að þær verða skemmtilegar á að horfa.

Auglýsing Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi er dæmi um hið síðarnefnda.

Í fyrsta lagi þá spyr maður sig hvað menn eru að meina með snókernum, með fullri virðingu fyrir íþróttinni, þá er þetta sport sem maður tengir frekar við reykingar, bjórdrykkju og iðjuleysi. Allt saman mjög virðingaverð áhugamál, en maður býst einhvern veginn ekki við að frambjóðendur hreyki sér af þeim.

Kannski eru þetta dulin skilaboð til okkar frjálshyggjumanna, kjósið okkur við ætlum bara að spila pool og sleppa því að setja lög! 

Í örðu lagi þá sést ekki framan í fólkið, lýsingin er þannig, öll áherslan er á græna dúkinn.

Í þriðja lagi þá sökka þau í sportinu það hittir enginn neitt, sérstaklega ekki maðurinn með röddina.  

Þessi hér finnst mér ein besta íslenska kosningaauglýsingin:

 

Svona á að gera þetta.

 

 


Karnabær kemur ekki aftur

Það er merkilegt að sitja hér vestur í Vostúni og lesa um Eldsvoðann, það snýr einhvern veginn allt öfugt þegar maður horfir heim. Í skipulagi Reykjavíkur er Kópavogsbúinn Jón Snæhólm pottur og panna, en hvar er Hanna? 

Til stendur að eyða tæplega 500 milljónum af almannafé í að kaupa lóðir, byggingarétt og byggingar, til hvers? Hvað á að koma inn í endurbyggðu húsin? Hvaða rekstur er sæmandi? Ekki verður það dansklúbbur, sjoppa og skyndibitastaður, borgin er ekki að eyða öllu þessu fé til þess. Hvað á að koma inn í húsin, fyrst var húsið í Austurstræti 22 íbúðarhús, svo einhvern tíma síðar fangelsi og svo prestaskóli. Kannski mætti gefa BDSM klúbbnum efri hæðina þar sem fangelsið var, þá væri farið nokkuð „nálægt upprunalegu horfi“.

Við hvað á svo borgarstjórinn þegar hann segist  vilja koma götumyndinni í sem upprunalegast horf? Á að rífa upp hellurnar?  Kannski vill hann bara fá húsin í það horf sem hann man? Mitt „upprunalega horf“ er Karnabær þar sem Pravda var og svo allskonar rekstur í Lækjargötu, það var bókabúð syðst á götuhæðinni, þar voru alltaf götuskilti sem auglýstu Ný dönsk blöð og einhvern tíma heyrði ég skiltið hafi gefið hljómsveitinni nafnið. 

austurstræti ys og lætiNú skal ekki misskilja mig sem ákafan talsmann þess að rífa allt gamalt (ég tengist Austurstræti 22 þeim böndum að hafa átt þar mörg ógleymanleg blakkát fyrir 12 árum eða svo og þykir vænt um húsið) en þessi fortíðardýrkun sem hefur leitt okkur í þá vitleysu að byggja Disney hús við elstu götu bæjarins, falsaða sögu. Hér vestra tröllríður þessi hugsun heilu borgunum. Öll hús skulu byggt í uppdiktuðum nýlendustíl, ég minnist þess að hafa heyrt sögu arkitekts sem er þekktur og vinsæll, hann stóð í málaferlum við bæjaryfirvöld um að fá að byggja hús úr 20. öldinni, enga fimleika eða vitleysisgang, bara stílhrein formfagurt hús. 

Ef húsin eru ónýt þá eru þau ónýt og fráleitt fyrir borgarstjóra (sem tók víst ekki við góðu búi fyrir ári) að nota 500 milljónir í nostalgíu.

Ég vona bara að einhver hnippi í Villa og segi honum að þótt hann byggi húsið þá kemur Karnabær ekki aftur og jafnvel þótt hann endurbyggi alla borgina í sem næst upprunalegu horfi þá koma gömlu dagarnir ekki aftur.

 


Skelfilega heimsk umfjöllun

Ég er búinn að lesa 20 heimsk blog útfrá fréttum af þessum hræðilega atburði sem flest öll ganga út á að kenna Bush um þetta á einhvern hátt eða þá að þetta sé maklegt fyrir þjóðfélag eins og er hér vestanhafs. Þetta er auðvitað ekkert annað en sjúk heimska. Eina vitiborna sem ég hef enn lesið er frá Ágústi Hirti. Fyrir þá sem eru sannfærðir um að Bush beri ábyrgð á þessu má benda á að það var í forsetatíð Clinton sem langflest fjöldamorð af þessu tagi hafa verið framin í sögu bandaríkjanna. Forsetinn kemur þessu bara ekkert við.

Hvað varðar hugmyndir manna um bandaríkjamenn almennt þá benda nýjustu fréttir til þess að morðinginn sé kínverskur nemandi sem kom til Bandaríkjanna í ágúst sl. Morðinginn kaus því ekki Bush, né var alinn upp í þessu byssuglaða þjóðfélagi. Ég vona að þetta þjóðfélag sé ekki svo smitandi að 6 mánuðir hér fari svona með menn.

Hafi þetta verið þessi skiptinemi sem menn halda nú þá hafa lögin lítið vægi, því hann gat ekki keypt byssur löglega. 

Nágrannar mínir í NRA halda því auðvitað fram að ef skólinn hefði ekki bannað byssur á háskólasvæðinu þá hefðu nemendurnir getað varið sig. það er ekki óvænt skoðun úr þeim herbúðum þótt klikkuð sé.

Blacksburg er gullfallegur bær, einn fallegasti háskólabær sem ég hef heimsótt. Við vorum þar fyrir 2 árum við brúðkaup vina okkar sem bjuggu þar þá. Þetta var skelfilegur dagur.


mbl.is Fjöldamorðinginn sagður hafa verið kínverskur námsmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru fjölmiðlarnir?

Þegar maður rennir yfir drög að ályktun um menningarmál sem liggja fyrir landsfundi þá er það eftirtektarvert að ekki er að finna stafkrók um stefnu Sjálfstæðisflokksins um fjölmiðla!

Fyrir 18 mánuðum sagði Sjálfstæðisflokkurinn þetta:
Fjölmiðlar
Að undanförnu hefur nauðsyn rammalöggjafar um starfsemi fjölmiðla orðið æ augljósari. Þessi veigamikli og viðkvæmi þáttur lýðræðislegrar umræðu þarf að njóta óskoraðs trausts almennings. Koma þarf í veg fyrir samþjöppun og einokun á fjölmiðlamarkaði svo stórir aðilar á markaði fái ekki neytt aflsmunar til þess að hafa áhrif á fréttaflutning og skoðanamyndun í landinu. Skorður á eignarhaldi fjölmiðla kunna að vera nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum að tryggja heilbrigða samkeppni og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það er kjarni sjálfstæðisstefnunnar að vinna gegn einokun og hringamyndun. Landsfundur skorar á Alþingi að setja lög sem tryggja sjálfstæði íslenskra fjölmiðla með hagsmuni samfélagsins af heiðarlegri og vandaðri fjölmiðlun að leiðarljósi.

Núna er algjör þögn, hví? Erum við hætt við?

Líkfylgd á hraðbrautinni

Klukkan hálftíu í morgun settist ég upp í Budget trukkinn sem geymdi búslóðina okkar í iðrum sér og ræsti hann, útvarpið sló fyrstu tónanna í einu amerískasta popplagi níunda áratugarins "Hurt So Good" með John Cougar Mellencamp. Það var bara eitt að gera, draga gömlu, snjáðu, Ray-Ban sólgleraugun uppúr vasanum, setja þau á sig og keyra af stað. Sól skein í heiði og Mellencamp hljómaði enn í útvarpinu þegar ég kom út á þjóðveginn, mér leið eins og ég væri loksins mættur, kominn til Ameríku.

Ferðinn frá Richmond til Oakton var tíðindalaus að mestu, Interstate 95, fljótið sem liggur niður eftir nánast allri austurströnd Bandaríkjanna, skilaði okkur á réttan stað. Þó gerðist það rétt áður en ég kom að Fredricksburg á miðri leiðinni að umferðin sem annars gekk mjög greitt, hægði örlítið á sér, fór úr 120 km/klst niðrí ca. 100. Eftir smá stund bar mig að bíl sem keyrði á miðakreininni með hazard ljósin blikkandi og fyrir framan hann annar eins o.s.frv.  Mér var algjörlega fyrirmunað að skilja hvað þetta fólk var að gera að keyra svona í prósessíu á hraðbrautinni. Það var ekki fyrr en ég ók fram á fremsta bílinn sem ég skildi hvernig í öllu lá, því þar fór líkbíll á rúmlega 100 km hraða.

Ég er svo gamaldags, mér fannst hraðinn ekki sérstaklega virðulegur eða viðeigandi, nema kannski að í kistunni hafi legið einhver NASCAR drengur, en þá hefði líklega verið keyrt í hringi.

Af hverju Barack Obama verður næsti forseti Bandaríkjanna

Obama-Surf1. hluti - Obama vinnur útnefningu demókrataflokksins.-

Fyrir nokkrum dögum komu út niðurstöður fyrsta ársfjórðungs í fjársöfnunum keppinautanna um útnefningu stóru flokkana til forsetaembættisins. Í bandarískum stjórnmálum er þessi keppni besta vísbendingin um það hver muni hljóta útnefningu, það er af tveimur ástæðum í fyrsta lagi þá getur sá sem býr yfir stærri sjóðum gert meira, ekki bara auglýst heldur ráðið fleira fólk o.s.frv. Síðari ástæðan er veigameiri, peningasöfnunin endurspeglar líka trú fólks á viðkomandi frambjóðanda, hér vestan hafs stendur almenningur nefnilega að mestu undir stjórnmálabaráttu frambjóðenda, á Íslandi gerir hann það líka bara óspurður með skattpeningum.
 
Það er alls ekki að peningar svona snemma þýði öruggan sigur. Metið á fyrsta ársfjórðungi átti Phil Gramm árið 1996 þegar hann safnaði 8,7 milljónum dollara og allir þekkja forsetatíð hans eða þannig. En oftar en ekki þá er þetta vísbending um það sem koma skal, í öðru sæti yfir er  George W. Bush árið 2000 þegar hann safnaði um 7 milljónum dollara á fyrsta ársfjórðungi.

Núna fór söfnunin þannig: (ath. þetta er bara það sem safnaðist í janúar, febrúar og mars, samkvæmt framboðunum, tölurnar verða staðfestar 15. apríl)

Hillary Clinton 26 milljónir dollara (þar af 20 sem nota má í prófkjörin en að auki átti hún 10 milljónir dollara afgangs frá síðustu kosningabaráttu þannig að hún er með 36 milljónir nú þegar til brúks ef hún kemst alla leið.)
Barack Obama 25 milljónir dollara (tæpar 24 milljónir til nota í prófkjör).
John Edwards 14 milljónir dollara.
Bill Richardson 6 milljónir.
Chris Dodd 4 milljónir.
Joe Biden 3 milljónir.

Repúblikanar stóðu sig sínu ver, staðan hjá þeim var svona:

Mitt Romney 23 milljónir dollara.
Rudy Guiliani 15 milljónir.
John McCain 12,5 milljónir.

Reyndar söfnuður allir frambjóðendur demókrata 30 milljónum dollara meira en frambjóðendur repúblíkana, sem ætti að vinna aðeins á goðsögninni um að repúblíkanar búi yfir miklu meira fjármagni en alþýðufólkið í demókrataflokknum.

Í stuttu máli þá vann óreyndur ungur blökkumaður peningakapphlaupið á fyrsta ársfjórðungi. Andstæðingar hans í Demókrataflokknum voru aðallega tveir frambjóðendur sem báðir búa yfir gríðarlegri reynslu í fjársöfnunum. Hillary Clinton og maður hennar hafa byggt upp um tveggja áratuga skeið mikið tengslanet sem nýtist í fjársöfnum og John Edwards hefur líka mikið orðsporð fyrir dug í fjársöfnunum.

Reyndar safnaði Hillary loforðum fyrir meira fé en nokkur annar en fimmtung þess má hún ekki nota fyrr en eftir prófkjörin, það er eyrnamerkt til nota í almennu kosningunum. Samkvæmt lögum í Bandaríkjunum má hver einstaklingur gefa 2300 dollara eða um 150 þúsund kr. til hvers frambjóðenda til nota í prófkjörum og svo aftur í 2300 dollara til nota í almennum kosningum, hver einstaklingur má því gefa um 300 þús. kr. til hvers frambjóðanda. Hver króna er uppi á borðinu og hægt að fletta því upp á netinu hvað hver gefur. (sjá m.a. opensecrets.org)

Þótt Hillary hafi safnað hærri heildarfjárhæð en Obama þá safnaði hann hærri fjárhæð en hún til nota í prófkjörunum.  Hennar strategía var líka sú að safna svo miklu að það átti að slá aðra útaf laginu, það tókst ekki. Þá voru það helmingi færri sem gáfu til hennar eða um 50 þúsund manns en Obama fékk  styrki frá um 100 þúsund manns og 90% af þeim gáfu 100 dollara eða minna þannig að hann á möguleika að leita til þeirra aftur á meðan margir þeirra sem gáfu Hillary gáfu hæstu leyfilegu fjárhæð. Allt þetta hefur slegið lið Hillary útaf laginu og hafa ýmsir stuðningsmenn hennar verið að draga úr mikilvægi þessara talna. Aðalaurapúki Clinton hjónanna Terry McAuliffe hefur meira að segja sagt að það séu atkvæðin en ekki peningarnir sem skipta máli og Hillary njóti stuðnings fleiri. Það er algjörlega ný stefna af hans hálfu.


Þegar þetta er tekið saman þ.e. miklu betri frammistaða Obama en nokkur bjóst við, hve miklu fleiri gáfu Obama fé en Hillary stemmningin virðist vera með honum núna þá er hann kominn á siglingu sem erfitt gæti verið fyrir Hillary að stöðva.

Það er enn langt til fyrsta prófkjörs, rétt tæpt ár og mikið á eftir að gerast en Hillary tókst ekki að gera það sem Bush tókst árið 2000, að verða nánast óskoraður sigurvegari mjög snemma. Obama er óreyndur í stóra sviðsljósinu og á eflaust eftir að gera mistök, spurningin er bara verða þau svo stór að þau kosti hann útnefninguna?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband