Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ekki hótun...

Össur aðstoðarforstjóriÉg rakst á sjónvarpsþátt áðan hér í USA hvers sögusvið var “trailerpark” og fólkið sem býr þar.

Það skal viðurkennast að það fór ekki mikið fyrir mannlegri reisn.
Ein eiginkonan, barin eins og harðfiskur en fyrirgaf allt. “Hann er góður maður”, “Ég ögraði honum” “Hann ætlaði ekki að lemja mig”

Svo las ég útskýringar Össurar á símtalinu við kollega sinn Verhagen.

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort sé í meiri sjálfsblekkingu.


Pass er sögn

Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir viðbrögðum við hjásetu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Sannarlega hefði ég valið að hún hefði kosið gegn tillögu ríkisstjórnarinnar en hún færði rök fyrir afstöðu sinni og hefur rétt á henni. Hjáseta á þingi er ekki afstöðuleysi. Hér má til dæmis sjá hjásetur Péturs H. Blöndal, Ingibjargar Sólrúnar og  Steingríms Joð, svo þrír “skoðanalausir” þingmenn séu nefndir.

Varaformaðurinn studdi tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og var því í engu í andstöðu við samþykktir landsfundar.

Það sem mér finnst umhugsunarvert er ákveðið óþol sumra Sjálfstæðismanna gagnvart afstöðu varaformannsins og sem sjá má í bloggum og athugasemdum á netinu.

Mínir ágætu flokksfélagar ættu að fara mjög varlega að gera afstöðu gagnvart ESB að prófsteini í “Sjálfstæðismennsku” Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða mónótónískur eins máls flokkur, einhverskonar spegilmynd Samfylkingarinnar.

Vítin eru ótalmörg til að varast. Hér í Virginíu-ríki er stutt síðan Repúblikanar réðu öllu sem máli skiptir og menn þar innan dyra tóku upp á því að skilgreina hvað væri “raunverulegur” Repúblikani. Skemmst er frá því að segja að demókratar eiga nú báða öldungadeildarþingmenn ríkisins, helming þingmanna ríkisins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, meirihluta í öldungadeild ríkisþingsins, eru í sókn í hinni þingdeild ríkisþingsins og vantar lítið upp á að ná meirihluta og demókrati hefur vermt ríkisstjórastólinn frá árinu 2000. Samt þráast Repúblikanar við og segja að hinn eða þessi séu ekki “raunverulegir” repúblikanar því þeir styðja rétt kvenna til fóstureyðinga.

Repúblikanar hér í Virginínu hafa dæmt sig til áhrifaleysis á altari rétttrúnaðar. Það væri afleitt ef sjálfstæðismenn legðu á sömu braut.

Það var styrkur Davíðs Oddssonar sem formanns að hann gætti að ólíkum hagsmunum í  Sjálfstæðisflokknum. Mér er t.d. mjög minnisstætt atvik á landsfundi fyrir nokkrum árum þegar við sem þá vorum í Sus vorum við það að ná í lið með okkur, meirihlutar salarins í atkvæðagreiðslu um landbúnaðarmál. Davíð stóð þá upp og talaði gegn hugmyndum okkar frjálshyggjumanna og þar við sat. Orð þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins vógu nokkuð mikið þyngra í rökræðunni en okkar ungliðanna. Hann vissi að flokkurinn er meira en einsmálsflokkur og ef hann á að dafna og halda áfram að vera hreyfiafl íslenskra stjórnmála, þarf hann að rúma ólík sjónarmið. Bæði frjálshyggjumanna og miðsæknari  hægrimanna.

Ég hvika hvergi í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB. En varaformaður Sjálfstæðisflokksins var kosinn með yfirburðum á landsfundi fyrir tæpum 4 mánuðum. Það hefur ekkert gerst sem gefur tilefni til að breyta því.

Bridge-spilarar vita að pass er sögn sem getur haft strategíska merkingu.
Sjálfstæðismenn ættu að einbeita sér að andstæðingum flokksins og þeim voða sem þeir stefna þjóðinni í með Iceslave-lausn Svavars Gestssonar.

-----------

Eftir langt hlé er ég að skoða það að virkja aftur moggablogið. Það mistókst augljóslega að halda úti tveimur bloggum.  Nákvæmlega hvernig ég geri það ætla ég að finna út úr á næstunni.

mbk


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband