Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Finnum fordóma Sóleyjar

Sóley Tómasdóttir, fordómaspúandi femínistinn náði í fyrradag að opinbera sig enn einu sinni.

Með nokkrum setningum tókst henni að varpa ljósi á eigin fordóma og vanþekkingu á alþjóðamálum. I bloggi sem hún nefnir "Áhrif rótanna" segir hún:

Eða er hægt að segja að Obama sé hryðjuverkamaður vegna tengsla sinna við Kenýa? -Af því hann hefur farið í föt sem hugsanlega svipar til klæðnaðar Osama bin Laden? -Sem kemur frá Afganistan muniði?

Djöfull er Kaninn klikkaður!

Lokasetning hennar opinberar fordóma hennar til þjóðarinnar sem er að gera sig líklega til að kjósa þennan hálf kenýska mann sem forseta. Við því er bara hægt að segja: Djöfull er Sóley klikkuð!


Um skipan dómara

Spegillinn í dag kemst að merkilegri niðurstöðu í umfjöllun sinni um skipan dómara. Þar var kynnt ítrekað að vandinn við skipan dómara er ekki aðferðin heldur ráðherrann. Að orðið hafi trúnaðarbrestur milli ráðherra og lögmannastéttarinnar vegna umdeildra skipanna dómsmálaráðherra.

Daginn fyrir kosningarnar í fyrra skrifaði ég pistil um umdeildar embættisveitingar dómsmálaráðherra. Þar kom fram að embættisveitingar dómsmálaráðherra hafa alls ekki verið umdeildar, utan einnar.

Málið er að lögmannastéttina svíður að fá ekki að ráða. Svo einfalt er það, í raun kom Hrafn Bragason  upp um sig með athugasemdum sínum. Hann sagði ef ráðherra færi alltaf að vilja hæstaréttar væri ekkert vandamál. 

Ef við fáum að ráða þá verðum við ánægð annars förum við í fýlu.

Það mætti halda að Hrafn sé genginn í barndóm, þegar maður hlustar á þessi leikskólarök.

Svo rímar það ekki alveg að gagnrýna að sjálfstæðismenn hafi skipað alla dómara og því séu pólitísk áhrif þeirra svo mikil, en um leið benda á þessa sömu óánægðu dómara sem fagaðila sem verði að hlusta á.  Annaðhvort er þetta óalandi pólitískt skipað lið eða fagaðilar og réttmætar skipanir. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.


Rógsherferð hlutdrægra einstaklinga

Jóhannes Jónsson  birti í Morgunblaðinu í dag grein þar sem hann leggur enn einu sinni af stað í stríð við fulltrúa almennings sem láta ekki að stjórn hans. Nú er það bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi sem vill ekki bukta sig og beygja fyrir mikilmenninu.

Greinin er reyndar ekki merkileg nema fyrir eitt, í umfjöllun um að íbúar Seltjarnarness hafi hafnað landfyllingu er að finna setninguna:

"Þá er ekki loku fyrir það skotið að rógsherferð hlutdrægra einstaklinga – sem ráðist var í fyrir umræddar kosningar "

Hmm, hvar hef ég séð rógsherferð rétt fyrir kosningar...  Minnir þetta ekki aðeins á grjótkast úr glerhúsi.

 

 Lykillinn að málinu liggur hins vegar í þessari setningu:

Bæjaryfirvöld buðu Högum á sínum tíma að kaupa á markaðsverði land undir verslun fyrir Bónus á Hrólfsskálamel. Eins og Íslendingar vita eru verslanir Bónuss þannig reknar að álagningu og allri umgjörð er haldið í algjöru lágmarki og augljóst að verslunin myndi aldrei standa undir slíkri  fjárfestingu á þeim eftirsótta og dýra stað.

Kvörtun Jóhannesar er semsagt sú að þeim bauðst að kaupa land á verði sem aðrir hefðu borgað en það þóknast honum ekki.

Hvers vegna eiga Seltirningar að niðurgreiða fyrir hann landið? Er það ekki fjandi mikil tilætlunarsemi?

Er þetta í raun ekki dæmigert fyrir Jóa í Bónus, honum finnst það eðlilegt að aðrir beri kostnað af hans viðskiptum og hagnaði


Framtíðin er frá Japan

Fjölskyldan fór inn til DC sl. sunnudag til að líta á Japanssýningu í Kennedy Center. sýningin var skemmtileg og þar voru róbotar frá Honda og Toyota til sýnis. Vélmenni Honda, Asimo var magnað þar sem það hljóp, labbaði upp og niður tröppur og lék allskyns listir.

Ég varð fyrir n.k. hugljómun þar sem ég hélt á Karitas svo hún gæti séð. Hún starði í andagt á vélmennið, ég horfði á hana. Hvernig verður heimur hennar eftir 33 ár? Hún er þegar orðin nokkuð tölvulæs og horfir á vélmenni athafna sig 4 ára. Þegar ég var 4 ára þekktust einkatölvur ekki, Rúv var í svarthvítu og beinar útsendingar voru færri skynsamar ákvarðanir fyrrverandi borgarstjóra. 

Eftir þessi 33 ár þegar ég verð orðið löggilt gamalmenni og Karitas komin á minn aldur, munu vélmenni sækja lyfin mín og passa að ég gleymi ekki að taka þau? Mun ég þurfa að forrita það til að blanda fyrir mig almennilegan Martini? Mun einhver ábyrgur fjölskyldumeðlimur geta yfirskrifað mínar skipanir til að bjarga lifrinni?

Miðað við þróun í tölvum og tækjum síðustu ár, er ekkert ólíklegt að rafknúnir aðstoðarmenn hjálpi fólki í náinni framtíð. Magnað. 

 

Karitas eignas vin. Fleiri myndir hér.

 

 

Þetta er svo hann Asimo

 


Enn skjóta þeir hér í Ameríku

Það er erfitt að lesa um morðin í NIU í gær. Fyrir mörgum árum var ég skiptinemi í næsta bæ og sótti mikið til DeKalb. Fjölskyldufaðirinn vann á fjármálaskrifstofu skólans, ég átti kærustu sem var í DeKalb High og síðar fóru tveir að bestu vinum mínum í NIU. Ég man ekki eftir Cole Hall en við vorum alltaf að þvælast þarna á Campus því þar voru tónleikar og partý sem allt var auðvitað spennandi fyrir high school krakka.

 

Vegna þessa árs sem ég var þarna les ég Chicago blöðin stundum og held með öllum Chicago íþróttaliðunum.  Ég hef enn samband við fólk á svæðinu, engin þeirra var nálægt árásinni.

Þetta er svæði sem ég þekki vel, ég get ekki lýst hvað mér finnst þetta furðulegt. DeKalb er friðsamur rólegur bær, lítið um glæpi, eiginlega sveitalegur. 


Samsæriskenningar íhaldz

Bjarni Kjartansson sem kallar sig miðbæjaríhald og fer mikinn hér í athugasemdum hér á moggabloginu hefur sett fram áhugaverða samsæriskenningu.

Nú skal taka það fram að Miðbæjaríhaldið er enginn venjulegur sjálfstæðismaður, hann hefur uppáskrift frá Bjarna Benediktssyni (fyrrv. forsætisráðherra og form. flokksins) um pólitískan þroska. Hann hefur sopið marga póltíska fjöruna og þekkir flokkinn og sögu hans vel.

Í athugasemdum við skrif Óla Björns Kárasonar um blaðamannafundinn heldur Bjarni því fram að starfsmenn sjálfstæðisflokksins hafi viljandi klúðrað blaðamannafundinum.

Athugasemd Miðbæjaríhaldsins byrjar svona:

Óli, það getur einfaldlega EKKI verið, að menn hafi verið svona illa undirbúnir hvað varðar umgjörð fundarins.

Svo heldur hann áfram:

Hver er sá snjalli maður, sem boðar blaðamannafund um kl 13, þegar fundur borgarfulltrúa hefst kl 12,30 um alvarlega stöðu og hvernig beri að snúa við pr-inu, sem er algerlega við ALkul um þessar mundir?

Nei  okkar menn KUNNA ÞETTA ALLT MIKLU BETUR en einhverjir ákváðu að GERA EKKI BETUR.

Eins og allir vita þá er það fyrst og fremst 3 aðilar sem eiga að bera ábyrgð á fundum sem þessum. Þau eru:

  • Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins
  • Kristín Hrefna Halldórsdóttir framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokksins
  • Jón "Ég hætti aldrei að vera aðstoðarmaður Vilhjálms" Kristinn Snæhólm.

Ég veit ekki hvort eitthvert eitt þeirra á að hafa svikið Vilhjálm eða þau öll.  Ég trúi kenningu Bjarna tæplega, en áður en ég yfirgaf landið minnist ég þess ekki að hafa orðið vitni að því að Bjarna hafi vantað á samkomu sjálfstæðismanna í Reykjavík.

 


Nú er nóg komið...

Tak, men nej tak.Farsinn í borginni er fyrir löngu kominn út fyrir allan þjófabálk. Blaðamannafundurinn í Valhöll var óskiljanlegur skrípaleikur. Einhver þarf að segja Vilhjálmi að það er ekki nóg að sitja undir málverkinu af Bjarna Benediktssyni til að vera leiðtogi og borgarstjóri. Einhver þarf að segja starfsmönnum Sjálfstæðisflokksins að þessi framkoma við fjölmiðlana er í besta falli viðvaningsleg og í versta falli skemmandi fyrir orðspor og málstað flokksins.

Svo er komið nóg af hringingum ofan úr Vegmúla í Reyni Traustason. Fyrst lak þaðan nafn Guðfinnu Bjarnadóttur sem borgarstjóraefni eins og Hjörtur Guðmundsson hefur sýnt fram á. Nú hef ég ekkert út á Guðfinnu að setja, en henni og Sjálfstæðisflokknum yrði enginn greiði gerður með því að kalla inn umboðslausan borgarstjóra. Það var ástæða og tilgangur með prófkjöri, við völdum lista. Hanna Birna var ekki bara í öðru sæti heldur fékk hún langflest atkvæði allra, hún fékk fleiri atkvæði en Vilhjálmur og Gísli í heildina og hún fékk tvöfalt fleiri atkvæði í annað sætið en Júlíus Vífill. 85% kjósenda í prófkjörinu greiddu Hönnu atkvæði og tæplega 6 af tíu settu hana í annað sætið. Að ganga framhjá henni væri að ganga framhjá vilja sjálfstæðismanna.

Nýjasta sendingin sem svo lekur ofan úr úr ráðuneyti heilbrigðis er dæmalaus árás á varaformann flokksins á DV.is. Ég er algjörlega hættur að skilja hvað þetta fólk er að hugsa.

Einn af mörgum kostum varaformannsins er sá að hún hefur verið hafin yfir þessa svokölluðu arma, hún sótti stuðning yfir allan flokkinn, um allt land. Ef þessir armar mótast á afstöðu manna til slagsins um 2. sætið í Reykjavík haustið 2006, þá var það þó þannig að í hennar nánasta stuðningshóp var fólk sem síðar studdi Guðlaug og fólk sem studdi Björn. Þorgerður er ekki hluti af þeim átökum.  Að draga hana svo inn í pólitískt harakiri fyrrverandi borgarstjóra er smekklaust og óþolandi.

Það er eins og menn hafi áttað sig á því að holan sem þeir voru að grafa var orðin of djúp til að þeir kæmust uppúr henni. Því reyna þeir að draga aðra niður í hana til sín. 

Er það markmið þessa fólks að skemma flokkinn? Trúir það því að þau geti sabóterað flokkinn mánuðum eða árum saman og látið svo eins og ekkert sé?

Hvaðan gott kemur og hvaðan vont kemur, er geymt en ekki gleymt...


Sjálfsmark Eiríks

Eiríkur Bergmann Einarsson segir frá því í grein í 24 stundum í dag að hann verið færður af völsurum á vinstri kantinn, 6 ára gamall og þar hefur hann staðið síðan. 

Ég man ekki hvaða stöðu ég lék þarna á Hlíðarenda um miðjan áttunda áratuginn, annað hvort var ég varnar- eða varamaður enda svo heppinn að vera ekki örfættur.

Það sem vefst fyrir Eiríki er að sumir íslenskir hægri menn "haldi með" repúblikönum í pólitíkinni vestra. Pólitíkin í Bandaríkjunum segir Eiríkur, sé svo langt til hægri að allir flokkar á íslandi  myndi lenda lengst til vinstri á ás bandarískra stjórnmála. Það má vera rétt að hluta því stjórnmál snúast um viðfangsefni samfélagsins og mótast því af samfélaginu, sögu þess og þróun.

En ef stuðningur íslenskra hægri manna við bandaríska hægri menn er óskiljanlegur er þá ekki aðdáun íslenskra vinstri manna á amerískum vinstri mönnum jafn furðuleg? Báðir frambjóðendur demókrata sem eftir standa (Mike Gravel telst ekki með) styðja byssueign og dauðarefsingar? Samt fagna vinstri menn af áfergju góðu gengi þeirra. Furðulegt!

Málið er ekki eins einfalt og Eiríkur vill láta. Stjórnmálin hér vestra eru margþættari en heima. Á meðan stjórnmál á Íslandi snúast fyrst og fremst um efnahagsmál og hlutverk hins opinbera, þá eru fleiri hliðar á stjórnmálum hér. Þannig eru báðir stóru flokkarnir samansafn hópa sem myndu aldrei eiga samleið á sviði íslenska stjórnmála.  Repúblikanaflokkurinn er þannig í mjög grófum dráttum samansettur úr 3 meginhreyfingum. Það eru kristilegir íhaldsmenn, varnamálahaukar og efnahagsfrjálshyggjumenn.  Það er urgur í mörgum innan repúblikanaflokksins yfir sigri McCain því það er litið á hann sem varnarmálahauk en hann tilheyri ekki hinum hópunum. Cheney er haukur og Bush kristilegur. Reagan sameinaði alla þrjá armana.

Demókratar eru líka samansafn mjög ólíkra hópa, þar innan eru verkalýðshreyfingar mjög sterkar, menntamenn, svartir, gyðingar og spænskumælandi annarstaðar frá en Kúbu (þeim finnst enn að JFK hafi svikið sig í Svínaflóa og Elián González málið í tíð Clintons bætti ekki úr skák). Það er í raun miklu meiri hugmyndafræðileg kaos í demókrataflokknum en hjá repúblikönum. Þannig eru "latinos" og mjög margir svartir demókrata mjög íhaldssamir í siðferðismálum, þessir hópar eru mjög trúaðir og finnst mörgum hugmyndir um giftingar samkynhneigðra skelfilegar. Það var í þessa hópa sem Bush hjó árið 2004. (McCain mun reyna að höggva í sömu hópa núna í haust eftir því hver verður frambjóðandi demókrata, ef það verður Hillary þá reynir hann að ná í atkvæði svartra og ef það verður Obama þá reynir McCain að ná í atkvæði "Latínós" sem er hópur sem hann er sterkur hjá.

Nóg um þennan útúrdúr.

Hvað á stuðningsmaður Samfylkingarinnar sameiginlegt með frambjóðanda sem vill að kennurum verði borguð laun eftir árangri nemanda sinna, er á móti giftingum samkynhneigðra, vill leyfa byssueign og auka niðurgreiðslur í landbúnaði? Skiptir það öllu að hún heitir Hillary Clinton?

Breytist málið þegar sagt er að frambjóðandinn styður auknar reglugerðir í umhverfismálum, er á móti skattalækkunum almennt og vill auka skattheimtu á sem mest hafa milli handana, vill stórauka greiðslur til heilbrigðiskerfisins.

Hér þar sem ég bý var kosið s.l. haust í fylkiskosningum, valið stóð milli demókrata sem er í söfnuði sem hatast við homma og lesbíur og naut stuðnings samtaka byssueiganda. Hinu megin var repúblikani sem studdi réttindi samkynhneigðra og hún vildi takmarka byssueign. Demókratinn vann því Bush er svo óvinsæll. 

Ég get sagt að staðfesta McCain í að skera burt óþarfa opinber útgjöld höfðar mjög til mín. Huckabee er hinsvegar algjörlega andstæður öllum mínum skoðunum.

Skoðanir margra demókrata í málum er snúa að persónufrelsi höfða líka sterkt til mín og Obama hefur sett fram áhugaverðar hugmyndir í skattamálum en Hillary er ríkisútþenslu sósíalisti af gamla skólanum.

Ég er bara svo heppinn að þurfa ekki að taka ákvörðun rétt eins og Eiríkur. En Eiki var ekki að skrifa um Bandaríkin hann var fyrst og fremst að skrifa um íslensk stjórnmál.  Þar skoraði hann sjálfsmark beint af vinstri kantinum.


Obama mun hafa það... líklega

Ég settist niður í gærkvöldi, rýndi í stöðuna núna hjá demókrötum og hvað er framundan. Í dag þá er Barack Obama í mjög góðri stöðu. Hann hefur meira fjármagn og hann á góðan möguleika á að sigra amk 8 af þeim 10 slögum sem eftir eru í febrúar. Það eru 450 fulltrúar sem kosið er um í febrúar og það ætti að duga Obama til að vinna upp 77 fulltrúa forskot Hillary og komast framúr henni áður en kosið er í Texas.

Allt um það á eyjublogginu 


Kvennagetraun - Svar

Spurt er hvað eiga þessar konur sameiginlegt?

  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
  • Sigríður Lillý Baldursdóttir
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir

Uppfært--- 

Ég vil meitla spurninguna aðeins.

Hvar liggja þræðir þessara kvenna? Svarið er tvíþætt og annar þátturinn í svarinu er persóna. 

Svarið er í athugasemdum 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband