Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Vinstri grænn á villigötum

Baldvin RauðiBaldvin rauði bæjarfulltrúi vinstrigrænna á Akureyri á grein í Fréttablaðinu í dag. Við lestur hennar rifjast upp af hverju vinstri grænir eru ekki stjórntækir. Greinin er svo uppfull af samsæriskenningum, dylgjum og dellu að leitun er að viðlíka, það er helst að greinar Ástþórs Magnússonar líkist þessum vaðli.

Baldvin er máske mætasti maður, þekki hann ekki neitt en þruglið sem rekið er inn um lúguna hjá mér í boði Baugs er ótrúlegt.

Þrjár setningar eru kjarninn í greininni.

Almenningur á Íslandi er látinn borga hundruð milljóna í kostnað af sýndarréttarhöldunum, sem fram fara í skjóli æðstu ráðamanna sjálfstæðisflokksins, og hvað með skattana sem Baugur hefði þurft að greiða af hagnaði þeim sem hefði hlotist af viðskiptum þeim sem átti að gera sama dag og ráðist var inn í það fyrirtæki, hefði Baugur keypt Arcadia og selt með 300 milljóna hagnaði, eins og mr. Green gerði?

 Já, þetta er ein setning, það engu líkara en þeim rauða sé mikið niðri fyrir. Framhaldið kórónar þó málið.

Þá skatta, kannski nærri 40 milljarðar þá, vantar í ríkiskassann og maðurinn sem er ábyrgur fyrir þeim gjörningi hefur ráðið sjálfan sig í Seðlabankann, og er þar með sína samvisku, ætli margir af starfsmönnum Baugs, þori að tala óhikað í síma?

Ef ég skil þetta rétt þá telur bæjarfulltrúinn að 300 milljóna hagnaður skili 40 milljörðum í skatta og Davíð Oddsson skuldi þá? Hann nefnir ekki hvaða mynt hann er að nota í útreikningana en ég held að hann sé að nota peninga úr Íslenska efnahagsspilinu. Hvað símtöl starfsmanna Baugs koma þessum skattaútreikningum við, skil ég ekki en næsta setning á kannski að skýra það.

Njósnadeild Sjálfstæðisflokksins gæti verið á næstu grösum.

Hvaða njósnadeild er það? Er það sú sem Guðni Th. Jóhannesson 200px-Hammer_and_sickle.svgfrábiður sér að hafa búið til og vísar á Stöð 2 um fæðingu þess fyrirbæris? Er Baldvin ekki bara að gera það sem gömlu herrarnir hans í Kreml tíðkuðu, að ljúga nógu oft og lengi og þá verður lygin hluti af sögunni? 


Áfall fyrir ritstjórn Moggans

ÖrvæntingFyrst tapaði Halla formannslag KSÍ, svo eru vinstri sinnaðir kanar að missa sig yfir "Barry" Obama og nú lítur út fyrir að Segolene Royal verði ekki forseti Frakklands!

Ungar konur á ritstjórn Moggans sem fyrir nokkrum vikum fylgdust spenntar með kosningabaráttu bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi hljóta vera á barmi taugaáfalls. Eitthvað þarf að taka til bragðs.

Það er þó engin ástæða til að örvænta þær geta þó alltaf lagst á sveif með ungu konunni sem er nýhætt í Frjálslynda flokknum og reynt að tryggja henni þingsæti með einhverjum hætti.


mbl.is Sarkozy verður næsti forseti Frakklands samkvæmt skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott silfur

Bjarni harðarson sannaði í dag í silfrinu að það er til skynsamt fólk í Framsóknarflokknum. Það var gaman að fylgjast með honumkljást við Egil og 3 101 sósíalista sem, eins og Bjarni benti á um daginn, líta á landsbyggðina á Íslandi sem einn stóran þjóðgarð. 

Best fannst mér staðhæfing Guðrúnar Pétursdóttur um að svo kyrrðina á hálendinu sem væri svo mikil að heyra mætti í bíl hundruði kílómetra í burtu! Svo menn átti sig á dellunni í henni þá ef maður er staddur á Kjalvegi mitt á milli Hofsjökuls og Langjökuls þá eru 114 km í beinni loftlínu til Sauðárkróks! bigearÞannig að þegar Guðrún er á fjöllum þá heyrir hún starfsmenn íbúðalánasjóðs leggja af stað til vinnu. Kannski ætti að skíra hana Heimdall svona fyrst hún heyrir grasið gróa.  Þetta sýnir í hnotskurn delluna sem veður uppi í umræðum um umhverfismál.

Bragi bóksali var líka stórskemmtilegur 


Minning

Hlynur var ekki náinn vinur minn, hann var í þessum óræða hóp fólks sem eru góðir vinir vina, góðir kunningjar, félagar. Hlynur var einn besti vinur eins besta vinar míns. Okkar samgangur var  því nokkur og ég get sagt að ég þekkti hann vel. 

Sl. fimmtudagskvöld vorum við Liz í mat hjá Steini og Völu þegar síminn hringir. Ég er feginn að við vorum þarna með þeim á þessari stundu. Þarna þar sem við vorum að segja vonda brandara eina stundina og svo sekúndum síðar var allt breytt.

Ég hafði ofboðslega gaman af Hlyn, í partýum laumaðist ég oft með honum út að reykja og þar réttilega skammaði hann mig fyrir hve forpokaður forsjárhyggjuflokkur Sjallinn er, varnir mínar voru eingöngu þær að benda á eitthvað annað, þannig skyldibölið er bætt . Hann var kaldhæðinn efahyggjumaður og með mjög ríka kímnigáfu. Þess vegna líkaði mér svo vel við hann,hann var svona "No-bullshit" náungi. Við deildum áhuga á gögnum og trúnni á gagnavinnslu, þar náðum við saman, gátum spekúlerað lengi. Ég vann svo í fyrra með honum að smá verkefni þar sem ég kynntist greind hans og hæfileikum enn betur. Nú erfallvalteiki lífsins manni enn ljósari en áður, við Hlynur ræddum um áframhald verkefnisins en þóttumst hafa nægan tíma.

Það elskuðu hann margir, það syrgja hann enn fleiri. Ég er glaður að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að hafa kynnst honum. 

   


Treblinka - Lubyanka - Hverjum er ekki sama?

Eitthvað klikkar mogginn herfilega í myndatexta með fréttinni 

Treblinka, höfuðstöðvar fyrrum leyniþjónustu Sovétríkjanna, KGB. Íslendingar njósnuðu um sovésku njósnarana hér á landi. mbl.is

Treblinka voru útrýmingabúðir í Nasista í Póllandi á stríðsárunum meira hér.

hið rétta er að Lubyanka voru höfuðstöðvar KGB og Cheka og nú er öryggislögregla Rússlands með höfuðstöðvar sínar þar. sem sýnir kannski að minna hefur breyst en margur heldur.

 

Það þarf kannski að senda suma moggastarfsmenn á google námskeið. 


mbl.is Starfsmönnum KGB veitt eftirför upp á fjöll á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álög?

Þessi frétt Fréttablaðsins er áhugaverð  Álög á félagi formanns KSÍ?
þar segir:

Formaður KSÍ hefur nefnilega ekki afhent Íslandsmeistaratitilinn til síns félags í 39 ár eða síðan að Björgvin Schram afhenti KR-ingum Íslandsmeistarabikarinn á sínu síðasta starfsári 1968.

Ef Geir vinnur (eins og Fréttablaðið vill meina) þá vonum við að álögin haldi og hann starfi lengi sem formaður KSÍ. Kannski er annar þrjátíu ára þurrkur í vesturbænum framundan? 

Ég er þungt haldinn af Schadenfreude þegar kemur að Vesturbæjarliðinu. 


vísnahornið

Bloginu hefur borist eftirfarandi vísa frá Arnljóti Bjarka Bergssyni

Hún er fyrirtaks föstudagsmeti. 

Hvar er fátæktin?
Hvar er lífið sem ég þekki?
Oh, oh örbirgðin,
—hvar er dauði sopinn úr skel?
Hvar er fátæktin?
Hvar eru allar mínar sannanir?
Oh, oh örbirgðin,
hvar er dauði sopinn úr skel?
Hvar er fátæktin?

 

Góða helgi. 


Fátæktin, já fátæktin

einhverjum fannst ég helst til orðhvatur á mánudaginn þegar ég skrifaði um fátækt Stefáns Ólafssonar. Einn lesandi sagði mig í fílabeinsturni, annar kvartaði yfiir ókurteisi og sá þriðji vildi bara skrifa um tannhirðu!

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég geri athugasemdir við umfjöllun um þetta efni. 

Það ekki að ég viti ekki að til er fátækt fólk á Íslandi, fílabeinsturninn er ekki hærri en svo að ég á vini sem hafa gengið í gegnum ótrúlegar hremmingar. En trúir því einhver að meiri ríkisafskipti, meiri skattpíning og minni hagvöxtur muni verða til þess að bæta hag þeirra sem eru með sann fátækir?

Það sem erfiðast við að búa á þessu landi er hátt matarverð, hátt bensínverð, hátt verð á einföldum gleðigjöfum eins og borðvíni og bjór, föt eru dýr. Það er dýrt í bíó, það er dýrt að borða annarsstaðar en heima hjá sér og þar er líka dýrt að borða. Ég kvarta yfir háum flugfargjöldum til USA það er vegna þess að konan mín er bandarísk og þ.a.l. dætur okkar, þær eiga afa og ömmu, frænda og frænkur vestra. Fyrir mig er farið til Bandaríkjanna hluti af nauðsynjaútgjöldum heimiilisins.

Það sem ég set út á er umfjöllun um fátækt, hún er í æsifréttastíl og gerir meira úr en efni standa til. Í umfjölluninni um fatæk börn fyrr í vetur var þrástagast á því að 5000 börn væru fátæk. ef við samþykkjum gallaðar forsendur skýrslunar þá nefdni ég þrjá punkta sem kæmu ekki fram:

  • Það kemur skýrt fram í skýrslunni [skýrslu forsætisráðherra um fátækt] að talan 4.634 er líklega ofáætlun. Þegar tillit hefur verið tekið til námslána lækkar talan í 4.400 og meðlagsgreiðslur lækka hlutfallið enn frekar.
  • 75% þeirra sem töldust fátækir árið 2000 eru það ekki lengur fjórum árum seinna. Það bendir til þess að ætluð fátækt sé mjög tímabundin. Í raun mætti ætla að það séu þessi 25% sem eftir sitja sem við þurfum að hafa áhyggjur af það eru ca. 1000 börn.
  • Börn Jóns Ólafssonar hér um árið mældust bláfátæk þegar hann var með uppgefnar tekjur upp á ca. 70 þús. á mánuði. Þar sem miðað er við upplýsingar frá skattinum þá eru þeir sem hundsa hann taldir til fátæklinga.

 

AÐ lokum einn mesti forræðishyggjukrati landsins Árni Guðmundsson fyrrv. æskulýðs- og tómstundafulltrúi í Hafnafirði (þessi sem slóst við Mínus og hamaðist gegn meintum áfengisauglýsingum)  segir það "magnað að skattleysismörk hér á landi séu ekki verðtryggð".  Já það er magnað, en ef hann Árni fylgdist með fréttum og því sem gerist á þingi þá vissi hann að lög um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum tóku gildi í lok desember og í 6. gr stendur "Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Fjárhæð persónuafsláttar skal birta með auglýsingu fjármálaráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs." Semsagt skattleysismörk eru verðtryggð.

Við þurfum líklega að bíða eftir því að Stefán Ólafsson tali um það svo kratarnir trúi því.

 

PS

Fara þessir 92 sem vildu fara í framboð hjá Framtíðarlandinu ekki bara í framboð með Ómari, Jim Beam og Margréti Sverris? Er einhver tilbúinn að ljóstra upp hverjir voru helstu hvatamenn framboðs?


Enn um "skatta og gjöld"

Vinur minn einn sem búsettur er í USA sendi mér þessar upplýsingar um fargjald sitt til Íslands síðasta haust. 

 AIR FARE          : USD      298.00
 TAX               : USD        5.00YC         14.50US         62.58XT
 TOTAL             : USD      380.08

 

rúmar 5500 kr. í "skatta og gjöld". Heildarfargjald upp á rúmar 26.500 kr.

Það má vera að þetta hefi verið eitthvað frábært "lucky fares"  tilboð en hvað bauðst þeim sem voru að hefja för sína hér á landi á sama tíma hér?

Það sem Icelandair virðist ekki skilja eða vera sama um er að fólki er misboðið þegar það sér það svona svart á hvítu að því er boðið upp á allt önnur verð fyrir nánast sömu þjónustu. Okkur er núna boðið upp á 35 þús króna fargjald og svo 13.600 í"skatta og gjöld" ofan á það. Samtals 48 þús.

 



 


Hvar er fátæktin? Hvar ertu lífið sem ég þrái?

solafssongæti Stefán "prófessor Samfylkingarinnar" Ólafsson sungið hárri raust þessa daga, fátæktin og misskiptingin sem hann hefur leitað að logandi ljósi finnst ekki. Það fór nefnilega þannig að þegar skoðað er nánar ástandið á Íslandi þá kemur í ljós að gífuryrðin um fátækt voru orðin tóm. Varaforsetinn Birgir fjallaði  á vef sínum fyrir helgi um niðurstöður nýrrar skýrslu Hagstofu Íslands um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003-2004. 

Þegar skoðað er hlutfall heimila fyrir neðan lágtekjumörk (at risk of poverty - miðað við skilgreiningu lífskjararannsóknar ESB) kemur í ljós að aðeins í Svíþjóð er hlutfallið lægra. Í Slóveníu og Tékklandi er hlutfallið hið sama og hér á landi en í öllum hinum Evrópulöndunum er hlutfall þeirra heimila sem býr við fátækt hærra.

Í Slóveníu ogTékklandi er líkast til ekki "velferðarþjóðfélag" sem stenst væntingar Stefáns og vina hans í umræðustjórnmálaflokknum. Þannig að við erum í öðru sæti þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við, minni misskipting hér en í Danmörku, Noregi og Finnland!

Þetta eru auðvitað sláandi og skelfilegar niðurstöður fyrir fátæktarklerkana en góðar fréttir fyrir alla aðra.

En er einhver fjöðmiðill búinn að biðja æðsta prest fátæktarumræðunnar um skýringu á misræminu á milli raunveruleikans eins og hann birtist í niðurstöðum Hagstofunnar og hans eigin orða?  Ég hef ekki séð það, en þangað til getum við beint þessum orðum til Stefáns Ólafssonar: 

Enginn verður óbarinn biskup -eða hvað?
Ertu eitthvað aumur, amar eitthvað að?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband