Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fullreynt

Það er löngu ljóst að hér er og verður ekki mikið blogað.

Hér hef ég verið í rúm 3 ár => fridjon.eyjan.is


Maður ársins?

Fyrir 2 árum var Svandís Svavarsdóttir valin maður ársins á Rás 2, eftir skipulagðar hringingar Vinstri Grænna. Svandís marði 4 atkvæða sigur á Freyju Haraldsdóttur.

Nú er hafinn einhver söngur um að ósannindamaðurinn Steingrímur Joð Sigfússon eigi skilið að vera maður ársins, hvílík della!

Hvað hafa íslenskir stjórnmálamenn gert til að verðskulda slíkan titil?

Eftir Kastljós gærkvöldsins er hins vegar ekki vafi í mínum huga að það er einn maður á skilið að vera valinn maður ársins: Guðmundur Sesar Magnússon.

Það er bara hægt að vona að þeir á flokksskrifstofu Vinstri Grænna skammist sín nægjanlega til að endurtaka ekki leikinn frá því fyrir 2 árum.


Kynjuð hringtorg

Hún var merkileg yfirlýsingin frá umhverfisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag:

“Það er okkar vissa að við verðum að samþætta kynjajafnrétti í allt okkar starf, ætli okkur að takast að bregðast við loftslagsbreytingum”

Með allri þeirri virðingu sem ég get kreist fram fyrir umhverfisráðherra þá er þessi setning samt galin.

Það er mjög hughreystandi að vita að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru með forgangsröðina á hreinu.

Næsta skref hlýtur að vera umræða um kynjuð hringtorg


Minnisleki Jónasar

Hún er ekki merkileg bókin hans Jónasar Kristjánssonar ef minni hans er með þessum hætti:

“Við Magnús Óskarsson gáfum Birgi Ísleifi Gunnarssyni borgarstjóra ráð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1982. Vildum, að Birgir yrði grænn borgarstjóri. Legði græna trefla um borgina, til dæmis milli Elliðaárdals og Laugardals. Slíkt var þá ekki enn komið í tízku. Hittum Birgi, sem virtist vera alveg mállaus og skoðanalaus. Ég hef aldrei hitt pólitíkus, sem kom eins aulalega fyrir og Birgir. Það var eins og hann væri í öðrum heimi og heyrði ekki orð manna í umhverfinu. Mér kom ekki á óvart, að hann féll í kosningunum. Hann fór ekki eftir neinu, sem við Magnús ráðlögðum honum.
(Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)”

Það er ekki von að Birgir hafi ekki farið eftir neinu sem þeir Jónas og Magnús ráðlögðu honum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1982, hann var ekki í framboði, það var annar maður.

Miðað við lýsinguna þá heldur maður helst að Jónas hafi verið að tala við brjóstmyndina af borgarstjóranum fyrrverandi.


Verkefnalisti ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin sendi frá sér fréttatilkynningu um að einungis 6 málum væri ólokið á 100 daga lista ríkisstjórnarinnar. Það er ekki rétt eins og kemur fram í óháðu mati.

Það er þó eitt sem ég staldra við í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sem enginn fjölmiðill hefur fjallað um.

Á verkefnalistanum er þrítugasta atriðið:

Lokið við efnahagsreikninga nýju bankanna og þeir endurfjármagnaðir.

Ríkisstjónin telur þessi máli lokið, en segir svo í lok tilkynningar sinnar þegar sagt er frá einu máli sem hún viðurkennir að er ólokið:

Stöður bankastjóra ríkisbankanna auglýstar lausar til umsóknar (aðeins verður um eina stöðu að ræða, ef að líkum lætur og hún auglýst um leið og endurfjármögnun Landsbanka er í höfn).[feitletrun mín]

Í tilkynningu ríkistjórnarinnar segir að sex atriðum sé ólokið og þau talin upp. Mál númer 30 er ekki eitt þeirra.

Það lítur út fyrir að ríkistjórnin sé í besta falli að senda frá sér villandi upplýsingar, í versta falli að ljúga eina ferðina enn.

 

En getur það verið? Fjölmiðlar myndu alltaf kanna sannleiksgildi fréttatilkynninga stjórnarinnar.

Er það ekki?


Hver er skaðinn af lekanum?

Hver er raunverulegur skaði af lekanum?

Það eina sem Steingrímur nefnir í viðtali við stuðningsmann sinn, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, á mbl.is er að þeir hefðu viljað stjórna umræðunni! Það er erfitt að sjá hvernig “trúnaðarskjalið” sem lak í gærkvöld skaðar hagsmuni Íslands meira en yfirlýsingar ráðamanna um að við verðum að borga fyrir Icesave. Þegar hlustað er á Steingrím er gott að hafa eftirfarandi í huga:

Steingrímur Joð sagði þingi og þjóð ósatt þegar hann sagði á miðvikudegi að engin sátt í Icesave væri í sjónmáli, næsta föstudag var skrifað undir.

Hvað hafa mörg skjöl komið fram alveg óvart, eftir að öll skjöl Icesave-málsins hafa átt að vera fram komin?

Þessi stormur í fingurbjörg er allur hugarsmíð fréttastofu Rúv sem gengur hart fram við að verja ríkisstjórnina.

Þeim hefur tekist að snúa umræðunni frá fáránlegum fyrirvörum yfir í eitthvað allt annað!

Smjörklípa, hvað?

Loksins erum við sannarlega með RÍKIS-fréttir.


Ekki hótun...

Össur aðstoðarforstjóriÉg rakst á sjónvarpsþátt áðan hér í USA hvers sögusvið var “trailerpark” og fólkið sem býr þar.

Það skal viðurkennast að það fór ekki mikið fyrir mannlegri reisn.
Ein eiginkonan, barin eins og harðfiskur en fyrirgaf allt. “Hann er góður maður”, “Ég ögraði honum” “Hann ætlaði ekki að lemja mig”

Svo las ég útskýringar Össurar á símtalinu við kollega sinn Verhagen.

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort sé í meiri sjálfsblekkingu.


Pass er sögn

Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir viðbrögðum við hjásetu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Sannarlega hefði ég valið að hún hefði kosið gegn tillögu ríkisstjórnarinnar en hún færði rök fyrir afstöðu sinni og hefur rétt á henni. Hjáseta á þingi er ekki afstöðuleysi. Hér má til dæmis sjá hjásetur Péturs H. Blöndal, Ingibjargar Sólrúnar og  Steingríms Joð, svo þrír “skoðanalausir” þingmenn séu nefndir.

Varaformaðurinn studdi tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og var því í engu í andstöðu við samþykktir landsfundar.

Það sem mér finnst umhugsunarvert er ákveðið óþol sumra Sjálfstæðismanna gagnvart afstöðu varaformannsins og sem sjá má í bloggum og athugasemdum á netinu.

Mínir ágætu flokksfélagar ættu að fara mjög varlega að gera afstöðu gagnvart ESB að prófsteini í “Sjálfstæðismennsku” Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða mónótónískur eins máls flokkur, einhverskonar spegilmynd Samfylkingarinnar.

Vítin eru ótalmörg til að varast. Hér í Virginíu-ríki er stutt síðan Repúblikanar réðu öllu sem máli skiptir og menn þar innan dyra tóku upp á því að skilgreina hvað væri “raunverulegur” Repúblikani. Skemmst er frá því að segja að demókratar eiga nú báða öldungadeildarþingmenn ríkisins, helming þingmanna ríkisins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, meirihluta í öldungadeild ríkisþingsins, eru í sókn í hinni þingdeild ríkisþingsins og vantar lítið upp á að ná meirihluta og demókrati hefur vermt ríkisstjórastólinn frá árinu 2000. Samt þráast Repúblikanar við og segja að hinn eða þessi séu ekki “raunverulegir” repúblikanar því þeir styðja rétt kvenna til fóstureyðinga.

Repúblikanar hér í Virginínu hafa dæmt sig til áhrifaleysis á altari rétttrúnaðar. Það væri afleitt ef sjálfstæðismenn legðu á sömu braut.

Það var styrkur Davíðs Oddssonar sem formanns að hann gætti að ólíkum hagsmunum í  Sjálfstæðisflokknum. Mér er t.d. mjög minnisstætt atvik á landsfundi fyrir nokkrum árum þegar við sem þá vorum í Sus vorum við það að ná í lið með okkur, meirihlutar salarins í atkvæðagreiðslu um landbúnaðarmál. Davíð stóð þá upp og talaði gegn hugmyndum okkar frjálshyggjumanna og þar við sat. Orð þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins vógu nokkuð mikið þyngra í rökræðunni en okkar ungliðanna. Hann vissi að flokkurinn er meira en einsmálsflokkur og ef hann á að dafna og halda áfram að vera hreyfiafl íslenskra stjórnmála, þarf hann að rúma ólík sjónarmið. Bæði frjálshyggjumanna og miðsæknari  hægrimanna.

Ég hvika hvergi í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB. En varaformaður Sjálfstæðisflokksins var kosinn með yfirburðum á landsfundi fyrir tæpum 4 mánuðum. Það hefur ekkert gerst sem gefur tilefni til að breyta því.

Bridge-spilarar vita að pass er sögn sem getur haft strategíska merkingu.
Sjálfstæðismenn ættu að einbeita sér að andstæðingum flokksins og þeim voða sem þeir stefna þjóðinni í með Iceslave-lausn Svavars Gestssonar.

-----------

Eftir langt hlé er ég að skoða það að virkja aftur moggablogið. Það mistókst augljóslega að halda úti tveimur bloggum.  Nákvæmlega hvernig ég geri það ætla ég að finna út úr á næstunni.

mbk


Af hverju er Rúv svona lélegt?

ég er búinn að vera að reyna að fylgjast með útvarpinu í gegnum podcast eða hlaðvarp eins og rúv er að reyna að kalla fyrirbærið líka.

Rúv segist bjóða upp á daglegar uppfærslur af þáttum eins og hádegisfréttum, morgunvaktinni og Speglinum. Fréttirnar detta nú alltaf inn að lokum, morgunvaktinni er mjög vel viðhaldið en Spegillinn er í tómu rugli. Síðasti þátturinn sem er á vefnum er frá 30. október.

Af örðum þáttum má nefna þátt eins og Vikulokin sem var síðast uppfærður 26. september.

 

Að auki virðist efnið detta inn með tilviljanakenndum hætt, ég skil ekki verklagið að baki.

Með podcasti ætti allt efni rúv bæði útvarp og sjónvarp, að vera til og eins langt og heimildir ná.

Þessi stofnun er soldið eftirá.


Wassup Obama?

Þeir mega eiga það stuðningsmenn Obama að þeir setja saman mun betri stuðningsmyndbönd.

Hér er eitt sem er leikur að kunnulegri Budweiser auglýsingu

Hér er orginal Budweiser auglýsingin.

Rúm ein og hálf milljón manna hafa séð þetta myndband á Youtube á þremur dögum.

Góð hugmynd á netinu hefur meiri áhrif en dýrar sjónvarpsauglýsingar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband