Pass er sögn

Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir viðbrögðum við hjásetu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Sannarlega hefði ég valið að hún hefði kosið gegn tillögu ríkisstjórnarinnar en hún færði rök fyrir afstöðu sinni og hefur rétt á henni. Hjáseta á þingi er ekki afstöðuleysi. Hér má til dæmis sjá hjásetur Péturs H. Blöndal, Ingibjargar Sólrúnar og  Steingríms Joð, svo þrír “skoðanalausir” þingmenn séu nefndir.

Varaformaðurinn studdi tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og var því í engu í andstöðu við samþykktir landsfundar.

Það sem mér finnst umhugsunarvert er ákveðið óþol sumra Sjálfstæðismanna gagnvart afstöðu varaformannsins og sem sjá má í bloggum og athugasemdum á netinu.

Mínir ágætu flokksfélagar ættu að fara mjög varlega að gera afstöðu gagnvart ESB að prófsteini í “Sjálfstæðismennsku” Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða mónótónískur eins máls flokkur, einhverskonar spegilmynd Samfylkingarinnar.

Vítin eru ótalmörg til að varast. Hér í Virginíu-ríki er stutt síðan Repúblikanar réðu öllu sem máli skiptir og menn þar innan dyra tóku upp á því að skilgreina hvað væri “raunverulegur” Repúblikani. Skemmst er frá því að segja að demókratar eiga nú báða öldungadeildarþingmenn ríkisins, helming þingmanna ríkisins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, meirihluta í öldungadeild ríkisþingsins, eru í sókn í hinni þingdeild ríkisþingsins og vantar lítið upp á að ná meirihluta og demókrati hefur vermt ríkisstjórastólinn frá árinu 2000. Samt þráast Repúblikanar við og segja að hinn eða þessi séu ekki “raunverulegir” repúblikanar því þeir styðja rétt kvenna til fóstureyðinga.

Repúblikanar hér í Virginínu hafa dæmt sig til áhrifaleysis á altari rétttrúnaðar. Það væri afleitt ef sjálfstæðismenn legðu á sömu braut.

Það var styrkur Davíðs Oddssonar sem formanns að hann gætti að ólíkum hagsmunum í  Sjálfstæðisflokknum. Mér er t.d. mjög minnisstætt atvik á landsfundi fyrir nokkrum árum þegar við sem þá vorum í Sus vorum við það að ná í lið með okkur, meirihlutar salarins í atkvæðagreiðslu um landbúnaðarmál. Davíð stóð þá upp og talaði gegn hugmyndum okkar frjálshyggjumanna og þar við sat. Orð þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins vógu nokkuð mikið þyngra í rökræðunni en okkar ungliðanna. Hann vissi að flokkurinn er meira en einsmálsflokkur og ef hann á að dafna og halda áfram að vera hreyfiafl íslenskra stjórnmála, þarf hann að rúma ólík sjónarmið. Bæði frjálshyggjumanna og miðsæknari  hægrimanna.

Ég hvika hvergi í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB. En varaformaður Sjálfstæðisflokksins var kosinn með yfirburðum á landsfundi fyrir tæpum 4 mánuðum. Það hefur ekkert gerst sem gefur tilefni til að breyta því.

Bridge-spilarar vita að pass er sögn sem getur haft strategíska merkingu.
Sjálfstæðismenn ættu að einbeita sér að andstæðingum flokksins og þeim voða sem þeir stefna þjóðinni í með Iceslave-lausn Svavars Gestssonar.

-----------

Eftir langt hlé er ég að skoða það að virkja aftur moggablogið. Það mistókst augljóslega að halda úti tveimur bloggum.  Nákvæmlega hvernig ég geri það ætla ég að finna út úr á næstunni.

mbk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Forysta Sjálfstæðisflokksins er væntanlega kosin á landsfundi til þess að framfylgja stefnu flokksins sem ákveðin er af sama landsfundi. Það væri t.d. slæmt ef formaður flokksins gengi gegn yfirlýstri stefnu hans og sama hlýtur að gilda um varaformanninn.

Hjörtur J. Guðmundsson, 20.7.2009 kl. 15:46

2 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

Rétt Hjörtur

En ég sé ekki hvernig Evrópursamþykkt landsfundarins skuldbatt þingmenn til að vera á móti ESB, sama hvað.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild.

Ég man ekki betur en það hafi verið gerð málamiðlun sem fólst í tvöföldu atkvæðagreiðslunni.

Sú lausn var felld á þingi, hvað eiga þingmenn þá að gera?

Ekki halda að ég vilji inn í ESB því fer fjarri, en gætum sannmælis þegar við erum að fjalla um málið. 

Það er mikið betri kostur framundan sé öflugt starf þverpólitískar NEI-hreyfingar en að Sjálfstæðisflokkurinn verði ruddur. 

Friðjón R. Friðjónsson, 20.7.2009 kl. 15:56

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ég veit vel að þú ert ekki hallur undir Evrópusambandið félagi :)

Landsfundarályktunin í Evrópumálum gefur heldur enga heimild til þess að beita sér fyrir því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið eða styðja það að öðru leyti. Það er lykilatriði í þessu sambandi, samþykki landsfundar liggur ekki fyrir. Upphafleg drög að ályktun landsfundarins í Evrópumálum kváðu á um slíka heimild en henni var hent út í meðförum fundarins.

Hins vegar var kveðið á um að þjóðaratkvæði um umsókn í ályktuninni sem kröfu landsfundarins ef málið yrði sett á dagskrá, þá af öðrum (það stendur "skoðun" á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins en því var breytt í "krafa" í lokameðförum fundarins). Fyrst sú leið hlaut ekki brautargengi var ekki annað hægt en að hafna því að málið færi lengra, þ.e. ef horft var til ályktunarinnar.

En ég er auðvitað alveg sammála því að baráttan hlýtur aðallega að fara fram á milli andstæðra þverpólitískra hreyfinga eðli málsins samkvæmt. Það sem mörgum sjálfstæðismönnum hins vegar svíður væntanlega er að varaformaður flokksins skyldi ekki treysta sér til þess að framfylgja stefnu flokksins, sér í lagi í svo stóru máli. Skyldur varaformanns í þeim efnum hljóta að vera ríkari en venjulegs þingmanns.

Þess utan er vitaskuld enginn að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn verði ruddur eða að hann verði eins og repúblikanarnir í henni Virginíu, en það er líka óþarfi að hann verði einhver Framsóknarflokkur.

Hjörtur J. Guðmundsson, 20.7.2009 kl. 19:50

4 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

Ágæti Hjörtur

Það sem ég er að benda á er að það hafa sumir bloggarar og einhver athugasemdaljón heimtað afsögn Þorgerðar vegna hjásetunnar. Sumir vegna meints afstöðuleysis aðrir vegna meints Evrópudaðurs.

Hvorugt er málefnalegt. Hjáseta getur verið afstaða rétt eins og afstöðuleysi og öllum voru fullljósar skoðanir ÞKG í evrópumálum í prófkjörinu í SV-kjördæmi um miðjan mars sl. og á landsfundi vikum síðar. hún blekkti engan til að kjósa sig.

Ályktun landsfundar er bara það sem hún er. Hvernig menn komust að þeirri niðurstöðu get ég ekki ímyndað mér að hafi einhverskonar lögskýringu.

Eftir að þingið felldi tillögu Sjálfstæðismanna þá bar henni engin ríkari skylda til að kjósa gegn tillögunni um umsókn frekar en samviska hennar bauð.

Friðjón R. Friðjónsson, 20.7.2009 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband