Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ótrúlegt myndband af morði

Á youtube er nú hægt að sjá myndband af morðinu á Yitzhak Rabin fyrir tæpum 12 árum síðan. Þar kemur fram að með nýrri tækni er hægt að greina atburðarásina. Fyrst sést Shimon Peres heilsa mannfjöldanum og ganga að bíl sínum, þá kemur Rabin, morðingi hans kom aftan að honum og skaut í bakið.

Varúð, á myndbandinu sést morð.

Það er svo endalaust hægt að spyrja sig hvað hefði farið öðruvísi ef Rabin hefði lifað.

Ég held til dæmis að það hefði verið erfiðara fyrir Arafat og PLO rjúfa friðinn og slíta Olsóarsamkomulaginu.

 

 


Fjölskyldumál

Í ljósi síðustu frétta er ekki annað hægt en að skella inn lagi hér til hliðar.

Það er sama hvað gengur á sumt breytist ekki.

'Blood's thicker than mud'
It's a family affair, it's a family affair

 


Guðlaugur Þór á hrós skilið

Það hefur kannski ekki farið neitt leynt að sá sem þetta skrifar hefur orðið fyrir vonbrigðum á undanförnum árum með stjórnmálamanninn Guðlaug Þór Þórðarson. Mér hefur fundist hann hafa yfirgefið yfirlýstar hugsjónir sínar helst til auðveldlega, sérstaklega þegar kom að því að leika sér með almannafé í OR. Að því sögðu verð ég að hrósa heilbrigðisráðherra fyrir að standa við hugsjónir sínar og hugmyndir og lýsa yfir stuðningi við frumvarp Sigurðar Kára og félaga um að leyfa sölu á víni og bjór í matvöruverslunum.

Það er reynar einstaklega sorglegt að maður þurfi að hrósa stjórnmálamanni sérstaklega fyrir að standa við skoðanir sínar, það á að vera sjálfsagt mál og ætti ekki að þurfa sértaklega að minnast á það.

Að sama skapi eru það ömurleg skilaboð sem sumir bloggarar og blaðamenn senda stjórnmálamönnum þegar þeir gagnrýna heilbrigðisráðherra fyrir að standa við skoðanir sínar. Guðlaugur hefur farið vel af stað sem heilbrigðisráðherra. Það var gott hjá honum að reka Alfreð, sú aðgerð hafi ekkert með fall meirihlutans að gera, það er bara meinfýsni Alfreðs sem skín í gegn í þeim orðum hans. Hann er lítill kall sem skipti ekki máli.

Guðlaugur hefur líka staðið sig vel í mannaráðningum, val hans á aðstoðarmanni sýndi gott pólitískt nef og ráðning á Þórólfi Þórlindssyni sem forstjóra lýðheilsustofnunar var vel til fundin, þar er á ferð öfgalaus og hæfileikaríkur maður. Eins var skipun hans á Pétri Blöndal til formennsku nefndar til að skera upp í heilbrigðiskerfinu góð. Þess er óskandi að hann haldi áfram á þessari braut.

Heilbrigðisráðuneytið er eitt erfiðasta ráðuneytið að fara með og nokkrir stjórnmálamenn hafa farið flatt á að sitja í þeim stól. Helsta leiðin til friðar hefur verið sú að fara í einu og öllu eftir því sem undirmenn ráðherrans vilja. Með frammistöðu sinni hingað til sýnir Guðlaugur að hann veldur ráðherrastólnum og jafnvel betur en sumir ráðherrar sem lengur hafa setið.

Ef heilbrigðisráðherra stoppar vitleysisspítalabygginguna í Vatnsmýrinni þá fyrirgef ég honum Orkuveitusukkið og kýs hann.


SÁÁ og vínið

Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi að SÁÁ fari rétt með niðurstöður þessarar sænsku rannsóknar sem þeir vísa í, þegar þeir klúðra nafni rannsakandans. 

Á heimasíðu SÁÁ er vísað í sænsk-ameríska rannsókn sem þegar búið er að snúa henni upp á Ísland á að færa sönnur á því að ef lagafrumvarp Sigurðar Kára nær fram að ganga,þá tapi 50 fleiri íslendingar lífi en annars á ári hverju. 

Mig fýsti að lesa eitthvað um þessa rannsókn Harorlds Hunter sem SÁÁ vísar til  og mér gekk satt að segja bölvanlega að finna eitthvað eftir Harold Hunter um áfengisvarnir. Harold Hunter var víst skeitari sem lést langt fyrir aldur fram og í líki hans fannst mikið magn kókaíns. Honum gafst því skiljanlega lítill tími til ritstarfa.

Það er magnað af SÁÁ að slengja fram svona fullyrðingu, væna flutningsmenn frumvarpsins um að viljandi ætla að stuðla að dauða fólks en geta svo ekki farið rétt með grunnatriði eins og nafn höfundar skýrslunnar sem vísað er til.  Þar til SÁÁ kemur fram með málefnalegt innlegg í umræðuna þá verður ekki mark á þeim takandi. Til dæmis gætu þau byrjað á því að birta allt viðeigandi efni úr skýrslu Harolds Holder sem þau eru líklega að vísa til. en þótt SÁÁ gerði það þá eru samtökin búin að sýna það að þau geta varla talist faglegur aðili í umræðunni og því verður erfitt að taka mark á framlagi þeirra.

 

 

 


Er ekki kominn tími til að líta á athafnir forstjóranna?

Er ekki kominn tími til að beina sjónum aftur að athöfnum forstjóranna. Þessir sem vildu bæta sem mest í REI áður en þeir fengju kaupréttarsamninga. Guðmundur átti fyrst að fá 100 milljón kr. kauprétt  og Hjörleifur 30 milljónir, var það ekki? Ef marka má spár Dags og BInga þá yrði hlutur Guðmundar 500 miljónir og Hjörleifs 150 milljónir króna! Og menn tala eins og þeir eigi ekki hagsmuna að gæta og allt sem frá þeim kemur er bara fagleg og hlutlaus upplýsingamiðlun!

Athafnir þessara manna, Hjörleifs, Bjarna Ármanns og Guðmundar þarf að skoða ofan í kjölinn. Óhað minni eða minnisleysi fyrrverandi borgarstjóra. Ég held að Rannsóknarréttur Svandísar Svavarsdóttur verði álíka sannleikselskandi og aðrir rannsóknarréttir sem skoðanabræður hennar hafa stýrt.  Hér þurfa blaðamenn að færa sönnur á tilvist "fjórða valdsins".

---------------- 

Andrés Magnússon er búinn að setja saman myndband sem sýnir fram lygar Björns Inga í meirihlutaslitamálinu.

Tímalínan er í stuttu máli þessi.

10.25 VÞV og Björn Ingi tala saman í síma og staðfesta fund sem þeir ætla að eiga 35 mín. síðar.  

10.30 Minnihlutinn talar við BInga og þau hittast og funda til kl. 14.

14.00 Bingi fer og hittir  VÞV og skýrir honum frá slitunum. Sá fundur stendur í tæpa klukkustund.

16.30 Blaðamannafundur þar sem skýrt er frá meirihlutasamstarfinu.

Spurningin er: Hvenær hafði Björn Ingi Hrafnsson tíma til að tala við fjölda vina og félaga um þessa ákvörðun? Hann fer beint af fundinun með fyrrv. minnihluta til þáv. borgarstjóra. Hér er myndbandið: 



Til varnar Villa...

er fyrirsögn á góðri grein Andrésar Magnússonar á eyjunni þar sem hann bendir á nokkur atriði sem hafa ætti í huga við síðustu fréttir.

í fyrsta lagi  þá sannar minnisblað Bjarna Ármannssonar, Hauks Leóssonar og Hjörleifs Kvaran ekkert um það að Villi hafi vitað af eðli samningsins. Sjötti töluliður í minnisblaðinu hljóðar svo:

Orkuveitan og REI geri samning sín á milli sem tryggi aðgang að þekkingu og starfsfólki OR. Jafnframt heimil notkun vörumerkisins og að OR beini öllum verkefnum utan Íslands til REI. Samingur um slíkt sé til 20 ára. 

Einkaréttur (les. yfirtaka) REI á öllu því sem nú er Orkuveitunnar er alls ekki ljós í þessum orðum. 

Í öðru lagi ættu menn að hugsa nú aðeins hverjir hagsmunir manna eru. Villi er búinn að missa stólinn og á ekki afturkvæmt. Hjörleifur og Bjarni eiga hinsvegar fjárhagslegra hagsmuna að gæta, þeir voru staðnir að verki að  úthluta sjálfum sér tugmilljónir af sjóðum almennings.

Eins og Andrés bendir réttilega á ættu menn að hafa hugfast hverjir hafa mestu að tapa úr því sem komið er. Það er ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

 


Það þarf að leggja niður Jarðhitaskóla SÞ

Það gengur ekki að menn séu að skiptast á upplýsingum gratís! Svo er verið að kenna fólki frá öðrum löndum að nýta jarðavarma. Það er skýrt brot á þjónustusamning REI og OR! 

Hvernig eigum við að græða 500 milljarða ef einhverjir vísindamenn eru ekki að spila með og skiptast bara á upplýsingum?  Þessi skóli er bara óþjóðhollur.

 

 

Það er síðan eitthvað ljóðrænt við það að borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar skuli getin í gufu og heitu lofti. 


Ég er ekki Þorsteinn...

DéVaff föstudagsins birti merkilega (með ó fyrir framan) fréttaskýringu um atburði síðustu dag. Þar sem ég er nefndur á nafn í þessari fabúleringu Trausta Hafsteinssonar finn ég mig knúinn til að leiðrétta nokkur lykilatriði í greininni er varða mig.

  1. Ég er ekki fyrrverandi aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar. Sá heitir Þorsteinn Davíðsson. Það er reyndar vísbending um skelfilegan vanþekkingu á efninu að klikka á svona grundvallaratriði. Starf mitt í ráðuneytinu var ekki pólitísks eðlis heldur að mestu tæknilegs.
  2. TH segir frá skrifum mínum hér og segir svo “flestir viðmælenda telja ljóst að þau skrif séu runnin undan rifjum ráðherra”. Flestir viðmælenda - plís þetta er svo gömul leið til að breiða yfir ótraustar heimildir að það er broslegt að hún skuli notuð hér. Hafi Trausti haft heimildarmann hljóta þeir að hafa hist á vínbar og viðmælandinn að vanda ekki verið allsgáður.
  3. Höfundur textans skrifar einnig að ég fullyrði að Björn Ingi hafi hótað slitum á meirihlutasamstarfinu og vilji að meirihlutinn taki upp samstarf við VG. Hvað í ósköpunum skiptir máli hvað einhver maður út í Ameríku vill og vill ekki? Ég dró þá ályktun af ræðu Björns Inga að hann væri að hóta slitum, ég bloggaði það á meðan fundinum stóð:
    Bingi eyðir nokkuð miklum tíma í að gagnrýna Sjalla.
    Er Björn Ingi að fara að slíta samstarfinu?
    Um kvöldið dró ég svo saman ályktanir mínar af atburðum dagsins í blogginu “Villi lifir - bálreiðir borgarfulltrúar“, þar sagði:
    Bingi er að þreifa fyrir sér með að taka upp samstarf við minnihlutann eða amk að hóta því.Þessa ályktun byggði ég á eingöngu á ræðu Björns Inga og viðtölum við hann og aðra borgarfulltrúa á Rúv og Stöð2. Það er allt og sumt. Kannski hefði ég átt að skrifa ÉG HELD AÐ fyrir framan hverja setningu. En þar sem ég er að skrifa fyrir Íslendinga datt mér ekki í hug að ég þyrfti að setja leiðbeingar eða svona amerískan “disclamer” við hverja færslu. (Þær ályktanir sem dregnar verða af þessum orðum eru á ábyrgð þess sem dregur þær. Nema annað komi skýrt fram eru þessi orð skoðanir síðuhaldara.)Síðan í lok bloggsins sagði ég:
    Best væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að slíta samstarfinu, Villi hætti og tekið yrði upp samstarf við VG.
    Svandís Svavarsdóttir er heiðarleg og viðræðuhæf á meðan Bingi og Dagur hafa bara annan af fyrrnefndum kostum og ekki þann sama.

    Þetta mín skoðun og ályktun af framgöngu fólks í fjölmiðlum þessa daga. (Nema kommentið um Dag, hann hef ég þekkt í rúm 15 ár og froðusnakkið og dellan er alls ekki ný tilhneiging hjá drengnum.) Ég hef skipt um skoðun á Svandísi, ég var búinn að gleyma því að hún er dóttir föður síns og það er engu treystandi sem þaðan kemur.

Til lesenda DV vil ég beina því að mikilvægi mitt í atburðarás undanfarinna daga er hér stórlega ofmetið. Hér sit ég í henni Ameríku, fjórum stundum á eftir Íslandi og höfundurinn textans álítur mig einhvern örlagavald! Hann ætti að snúa sér að leikgerð og vísindaskáldskap, þar liggja hæfileikar hans.

Ég skal upplýsa það hér að frá því að ég yfirgaf landið og dómsmálaráðuneytið hef ég einu sinni skipst á orðum við Björn Bjarnason. Það var þegar ég skrapp heim með litlum fyrirvara í lok ágúst, ég kíkti við í ráðuneytinu til að kasta kveðju á fyrrverandi kollega og hitti þá ráðherra fyrir tilviljun. Samskipti okkar stóðu í ca. 30 sekúndur og verður best lýst sem kurteisishjal. Það eru öll samskipti okkar í hartnær 8 mánuði með tölvupóst, síma, bréfum og bréfdúfum.

Að síðustu þykir mér það leitt ef einhverjir hafi lesið þessa síðu á röngum forsendum. Til að lesa skoðanir Björns Bjarnasonar er best að fara á heimasíðu hans www.bjorn.is. Hann hefur hingað til þótt fullfær um að koma skoðunum sínum á framfæri, ég minnist þess meira að segja að einn fjölmiðlamaður hafi hætt að lesa síðuna vegna meintrar óvægni ráðherra. Það er ekki stíll dómsmálaráðherra að koma aftan að mönnum eða vega úr launsátri. Ég hefði haldið að hvaða blaðamaður með lágmarksreynslu ætti að vera búinn að gera sér það ljóst.

Ég segi þetta hér, ekki af því að ég vilji ekki vera spyrtur við dómsmálaráðherra, heldur af því að ég vil ekki að hann hafi óþægindi af því að einhverjir telji mín orð frá honum komin.

Mín orð eru mín og satt að segja er þetta orðið soldið þreytt og lummó.


Útspil Björns Inga er leikur í væntanlegum formannslag í framsókn.

Í dag tókst Binga að ná forystu í væntanlegum slag um formennsku í Framsókn.

Grasrótin í Framsókn var ósátt við meirihlutann í borginni og í raun framgöngu Binga. Þessi leikur sker hann úr snörunni og gefur honum frumkvæði í slagnum við Guðna.

Það verður að segjast að Björn Ingi er að stimpla sig inn sem ósvífnasti og um leið með snjallari stjórnmálamönnum landsins, minnir dálítið á starfandi forseta.

 


Meirihlutinn fallinn!!!

Meirihlutinn er fallinn!

Við þetta koma upp nokkrar áhugaverðar spurningar? Hver er staða F-listans? Stefán Pálsson ofurbloggari benti í gær á veika stöðu F-listans í borgarstjórn. Ólafur F. Magnússon er í leyfi vegna veikinda, Margrét Sverrisdóttir sem er varaformaður Íslandshreyfingarinnar og hætt í Frjálslyndaflokknum er varaborgarfulltrúi hans og titlar sig reyndar borgarfulltrúa. Guðrún Ásmundsdóttir er varamaður hennar og ekki heldur í Frjálslynda flokknum, ef ég man rétt.

Nýr meirihluti yrði mjög veikur og það verður tvísýnt hvort hann haldi lengur en sá sem setið hefur. Nema VG ætli að kyngja öllu því sem spillBingi býður upp á! Hvað eru margir kosningastjórar sem þurfa dúsur?

Þessi staða væri auðvitað ekki uppi ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði sinnt eðlilegri upplýsingaskyldu til flokksfélaga sinna, ef hann hefði ekki krafist þess að fara sínu fram í einu og öllu. Eins og vinur minn einn sagði: Hann heimtaði að vera aðal, núna er hann aðal… lúserinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband