Sjálfsmark Eiríks

Eiríkur Bergmann Einarsson segir frá því í grein í 24 stundum í dag að hann verið færður af völsurum á vinstri kantinn, 6 ára gamall og þar hefur hann staðið síðan. 

Ég man ekki hvaða stöðu ég lék þarna á Hlíðarenda um miðjan áttunda áratuginn, annað hvort var ég varnar- eða varamaður enda svo heppinn að vera ekki örfættur.

Það sem vefst fyrir Eiríki er að sumir íslenskir hægri menn "haldi með" repúblikönum í pólitíkinni vestra. Pólitíkin í Bandaríkjunum segir Eiríkur, sé svo langt til hægri að allir flokkar á íslandi  myndi lenda lengst til vinstri á ás bandarískra stjórnmála. Það má vera rétt að hluta því stjórnmál snúast um viðfangsefni samfélagsins og mótast því af samfélaginu, sögu þess og þróun.

En ef stuðningur íslenskra hægri manna við bandaríska hægri menn er óskiljanlegur er þá ekki aðdáun íslenskra vinstri manna á amerískum vinstri mönnum jafn furðuleg? Báðir frambjóðendur demókrata sem eftir standa (Mike Gravel telst ekki með) styðja byssueign og dauðarefsingar? Samt fagna vinstri menn af áfergju góðu gengi þeirra. Furðulegt!

Málið er ekki eins einfalt og Eiríkur vill láta. Stjórnmálin hér vestra eru margþættari en heima. Á meðan stjórnmál á Íslandi snúast fyrst og fremst um efnahagsmál og hlutverk hins opinbera, þá eru fleiri hliðar á stjórnmálum hér. Þannig eru báðir stóru flokkarnir samansafn hópa sem myndu aldrei eiga samleið á sviði íslenska stjórnmála.  Repúblikanaflokkurinn er þannig í mjög grófum dráttum samansettur úr 3 meginhreyfingum. Það eru kristilegir íhaldsmenn, varnamálahaukar og efnahagsfrjálshyggjumenn.  Það er urgur í mörgum innan repúblikanaflokksins yfir sigri McCain því það er litið á hann sem varnarmálahauk en hann tilheyri ekki hinum hópunum. Cheney er haukur og Bush kristilegur. Reagan sameinaði alla þrjá armana.

Demókratar eru líka samansafn mjög ólíkra hópa, þar innan eru verkalýðshreyfingar mjög sterkar, menntamenn, svartir, gyðingar og spænskumælandi annarstaðar frá en Kúbu (þeim finnst enn að JFK hafi svikið sig í Svínaflóa og Elián González málið í tíð Clintons bætti ekki úr skák). Það er í raun miklu meiri hugmyndafræðileg kaos í demókrataflokknum en hjá repúblikönum. Þannig eru "latinos" og mjög margir svartir demókrata mjög íhaldssamir í siðferðismálum, þessir hópar eru mjög trúaðir og finnst mörgum hugmyndir um giftingar samkynhneigðra skelfilegar. Það var í þessa hópa sem Bush hjó árið 2004. (McCain mun reyna að höggva í sömu hópa núna í haust eftir því hver verður frambjóðandi demókrata, ef það verður Hillary þá reynir hann að ná í atkvæði svartra og ef það verður Obama þá reynir McCain að ná í atkvæði "Latínós" sem er hópur sem hann er sterkur hjá.

Nóg um þennan útúrdúr.

Hvað á stuðningsmaður Samfylkingarinnar sameiginlegt með frambjóðanda sem vill að kennurum verði borguð laun eftir árangri nemanda sinna, er á móti giftingum samkynhneigðra, vill leyfa byssueign og auka niðurgreiðslur í landbúnaði? Skiptir það öllu að hún heitir Hillary Clinton?

Breytist málið þegar sagt er að frambjóðandinn styður auknar reglugerðir í umhverfismálum, er á móti skattalækkunum almennt og vill auka skattheimtu á sem mest hafa milli handana, vill stórauka greiðslur til heilbrigðiskerfisins.

Hér þar sem ég bý var kosið s.l. haust í fylkiskosningum, valið stóð milli demókrata sem er í söfnuði sem hatast við homma og lesbíur og naut stuðnings samtaka byssueiganda. Hinu megin var repúblikani sem studdi réttindi samkynhneigðra og hún vildi takmarka byssueign. Demókratinn vann því Bush er svo óvinsæll. 

Ég get sagt að staðfesta McCain í að skera burt óþarfa opinber útgjöld höfðar mjög til mín. Huckabee er hinsvegar algjörlega andstæður öllum mínum skoðunum.

Skoðanir margra demókrata í málum er snúa að persónufrelsi höfða líka sterkt til mín og Obama hefur sett fram áhugaverðar hugmyndir í skattamálum en Hillary er ríkisútþenslu sósíalisti af gamla skólanum.

Ég er bara svo heppinn að þurfa ekki að taka ákvörðun rétt eins og Eiríkur. En Eiki var ekki að skrifa um Bandaríkin hann var fyrst og fremst að skrifa um íslensk stjórnmál.  Þar skoraði hann sjálfsmark beint af vinstri kantinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þekking Eiríks á amerískum stjórnmálum er sjálfsagt ekki upp á marga fiska og spurningamerki verður að setja við fótboltasöguna sem hann bjó til samlíkingar, því örfættir eru nú yfirleitt alls ekki settir á vinstri kantinn, enda takmarkar það skotsviðið - ja nema hann eigi að skora í eigið mark.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 11:45

2 Smámynd: Magnús Jónsson

Friðjón: er það virkilega að gerast þarna í USA að sonur fyrrverandi forseta sé að hætta og kelling fyrrverandi forseta sé að verða forseti, eða er það virkilega inní dæminu að 71 ára ellilífeyrisþegi verði forseti USA? eru íbúar USA ekki 300-milljónir sirka, eru virkilega ekki aðrir sem koma til greina sem forseta efni en Obama, Hillary og Macain, er þetta allt sem er í boði í guðs eigin landi, landi frelsis og einkaframtaksins? eða er þetta eithverskonar brandari, mér finnst þetta alla vegana alveg með eindæmum, er enginn umræða um þetta í USA.?

Magnús Jónsson, 9.2.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband