Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mannauðsstjórnunarsérfræðingur á spítala

Doctor Clown Loksins fundum við út úr því hvað Karitas ætlar að verða þegar hún verður stór. Í dag eru framadagar á leikskólanum og því mættu börnin uppáklædd í samræmi við þann starfsferill sem þau hafa valið sér. Þarna voru mættar 5 eða 6 ballerínur (foreldrarnir eru örugglega ekki búnir að útskýra að ferillinn felur í sér blóðstorkna fætur og liðagigt) og álíka hópur af slökkviliðsmönnum (láglaunastarf). Karitas var einstök, sem og hún er. Kennararnir voru ekki alveg vissir um hvað þeim ætti að finnast, en flestar voru mér sammála um að Karitas er snillingur.

Karitas kallar sig reyndar Doctor Clown, en það sjá það allir að hún er klædd sem mannauðsstjórnunarsérfræðingur.

Helena sagði fyrstu orðin sín í dag, það var ekki mamma eða pabbi, heldur hennar útgáfa af Ó-Ó. Þannig er hún, gjörólík systur sinni.

UPPFÆRT.

Á það hefur verið bent að hún er klædd í alþjóðlegan einkennisbúning stjórnmálamanna. Ég hef bara ekki viljað horfast í augu við það, ég óska dóttur minni betri örlaga en það. 


Mig langar til að hafa fjóra fætur...

...sagði Karitas í morgun þegar hún gat ekki valið á milli skópara. Hvað er málið með konur og skó? Er þessi árátta meðfædd?

Karitas er stundum silly


Sjóræningi, ballerína, Grísalingur - hvað ætlar þú að verða vina...

SjóræningjarÞað er heilmikil vinna að vera tæplega 4 ára Ameríkani þótt bara að hálfu sé.

Undanfarna daga hefur Karitas þurft að ganga í ýmis hlutverk. Á mánudag var hún sjóræningi, svo var balletttími á þriðjudag og í dag var náttfatadagur sem allir tóku mjög alvarlega eins og myndir bera með sér.

Aðalhöfuðverkur vikunnar er þó sá að á föstudag eiga börnin í leikskólanum að koma í búningi þess starfs sem þriggja og fjögra ára börnin ætla sér að eyða ævinni við að starfa. Mér finnst hugmyndin geggjuð. Við höfum aldrei rætt um það við Karitas hvað hana langar til að verða þegar hún verður stór, pabbi hennar er ekki einu sinni búinn að ákveða það og það styttist í fertugsafmælið hans!Ballerína

Reyndar sagði Karitas að hún vildi fara sem trúður, þegar ég var að reyna að útskýra konseptið fyrir henni. Hún á einmitt trúðabúning.  Mig langar til að senda hana í litlum jakkafötum og láta hann segja að hún sé lögfræðingur og ætli að verða slíkur til að hjálpa pabba með lögfræðikostnaðinn! Athugum hvort ekki hringi einhverjum bjöllum við það. Eða kannski senda hana í forljótri Hawaii-skyrtu og láta hana segja að hún ætli að verða bloggnörd og besserwisser.

Einhverjar uppástungur?Súperman og Gríslalingur


Akademískt frelsi fyrir bí í Bretlandi?

30. maí sl. samþykktu fulltrúar á þingi stéttarfélags háskólakennara í Bretlandi ályktun um að beina því til allar aðildarfélaga að sniðganga Ísraelska háskóla og fræðimenn þaðan. Þessi ályktun er aðeins á skjön við það sem kallað er akademískt frelsi og gagnrýna hugsun og er í raun að snúast í höndum þeirra sem lögðu þetta til. Breskir háskólar eru að verða sér að athlægi.

Fræðimenn um allan heim hafa brugðist ókvæða við og hafin er undirskriftasöfnun á vegum samtaka fræðimanna fyrir frið í Mið-austurlöndum(SMPE).

Meira á eyjunni....

 


Sumarið er tíminn...

eitthvað finnst blaðamanni Vísis vera mikið lögregluríki í borginni Minneapolis. Prince hent á dyr og því best að kalla borgina bara Minneapolice!

prins

Það er gott að vita að sumarstarfsmennina ber niður á fleiri stöðum en hjá mbl.is

 


Breytingar, breytingar

Í kjölfar eyjubloggs er stefnan að taka upp léttara hjal hér á moggabloginu og nota eyjubloggið fyrir súrt pólitískt nöldur.  Þetta er gert að áeggjan ættingja sem vilja að ég skrifi um það sem máli skiptir, nefnilega dætur mínar og lífið í USA en láti af æstum pólitískum áróðri. Ég ætla að reyna að finna öllu sinn stað.

 Af dætrum

IMAGE_059Það er að frétta af þeim systrum að Helena er að taka tennur sem aldrei fyrr, hún tyggur allt sem að kjafti kemur.

Karitas er byrjuð í sumarleikskóla þar sem hún skemmtir sér mjög vel, í dag er sjóræningjaþema þannig að hún mætir í skólann með lepp fyrir auganu og klút um hausinn. Mynd síðar.

Undanfarna daga hafa foreldrar Liz og systir verið í heimsókn hjá okkur, sem skýrir bloggleysið að hluta. Það hefur verið mjög þægilegt að hafa þrjá fullorðna sem slást um að fá að veita stelpunum athygli. Á meðan slökkvum við á okkar foreldraskyldum.  Það gengur auðvitað mjög vel þar til eitthvað kemur upp á, þá er fríið búið.

 Við skreppum stundum inn í borgina við feðginin og kíkjum á eitthvað markvert sem okkur dettur í hug að skoða. Þannig ferðum fækkar þó þegar hitastigið hækkar. Hér er að lokum ein mynd úr einni slíkri ferð.

smithsonian20028


Libby ekki náðaður!

Hámenntaðir bloggarar hingað og þangað gera sig seka um að hafa það sem betur hljómar þegar kemur að því að fjalla um forseta Bandaríkjanna.

Menn skrifa að "Scooter" Libby hafi verið náðaður og það sé mikið stílbrot fyrir Bush að gera slíkt. Málið er að hann náðaði Libby alls ekki, hann breytti dómnum. Mogginn náði að hafa þetta rétt, sem er nokkuð afrek yfir sumarmánuðina.

Skilorðsbundinn tveggja ára fangelsisdómur og ca. 16 milljón króna sekt er ekki náðun.

En það er víst skemmtilegra að hafa það sem betur hljómar.

Obama slær öll met

Obama-Surf Fyrstu tölur úr peningasöfnun annars ársfjórðungs eru byrjaðar að berast. Svo virðist sem Barack Obama muni slá öll met og hafi safnað 32,5 milljónum dala í kosningasjóði sína. Þar safnar hann meir en 10 milljónum dala meira en Hillary. Það er einnig einstakt að tæplega 260 þúsund manns hafa gefið til peninga til kosningabaráttu Obama. Það er ótrúlegur styrkur að fá svona marga til að gefa pening þetta snemma, því Obama mun geta leitað aftur til meirihluta þessara styrktarmanna og þegar kemur að því að finna sjálfboðaliða til að vinna í kosningunum og mæta á hvatningarsamkomur þá verður auðvitað leitað til þessa hóps.

Aðrir frambjóðendur standa Obama langt að baki í söfnun en hér eru áætlanir sem komið hafa út undanfarna daga:

Meira á eyjunni >>>

Jón Ásgeir sekur en sýknaður!

Dómurinn telur að atferlið, þ.e. það sem Jón og Baugur gerðu, brjóti gegn 104. gr. hlutafélgalaganna en sú grein vísar eingöngu til aðgerða sem hlutafélag má og má ekki því sé ekki hægt á grundvelli laga að dæma einstakling (Jón Ásgeir) fyrir brotið. Ákæruvaldið taldi Jón brotlegan því eins og allir vita þá ræður Jón þessu, svo vitnað sé óbeint í aðstoðarmann samgönguráðherra.

Eru lögin þá svona illa samin? Þessi ákvæði koma inn í hlutafélagalögin að mér skilst 1994 sem hluti af EES samræmingu, getur verið að þarna hafi verið kastað til höndunum?

Þegar maður skoðar lögin, núverandi, upprunaleg og umsagnir með greinunum þá lítur það þannig fyrir amatör eins og mér að þarna sé vísað til formanns stjórnar, en það segir það ekki berum orðum.

Ákæruvaldið hlýtur að áfrýja þessum hluta til Hæstaréttar til að skýra málið frekar.




Sjá líka eyjuna...


mbl.is Jón Ásgeir sýknaður en Tryggvi og Jón Gerald sakfelldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkileg minningargrein

Miðopna moggans í gær var merkileg, minningargrein föður Susie Rutar, stúlkunnar sem lést á Landspítalanum í síðustu viku fól í sér harða gagnrýni á Vog og það kerfi sem Þórarinn Tyrfingsson er búinn að byggja upp þar.

Í greininni segir hann:

Meðferð á Íslandi var fyrirbæri sem væntanlega átti ekki marga sína líka. Þar ægði þá öllum saman, ungum og öldnum, körlum og konum. Þar var t.d. tilvalinn staður fyrir menn til að hvíla sig á neyslu um skamma hríð, slá tvær flugur í einu höggi; hvíla sig og finna stúlku í framhaldið þegar út væri komið. Þá höfðu menn símasamband og þurftu því ekkert sérstaklega að einbeita sér að meðferðinni og gátu jafnvel látið færa sér sitt lítið af hverju, enda lærði Susie að sprauta sig í sinni fyrri meðferð og kynntist morfíni í þeirri síðari.

Ég hef séð hvernig krakkar sökkva alltaf dýpra og dýpra og finna alltaf verri og verri félagsskap, tengslanetið er þétt og stundum líkara dómínó kubbum sem hver fellir annan koll af kolli. Kannski er ekki hægt að ræða neitt fyrr en einvaldurinn hefur látið af völdum, vonandi er það ekki svo.

Aðstandendur Susie Rutar eiga samúð mína alla. Það er skelfilegt að fylgjast með einhverjum sem manni þykir vænt um fara þessa leið, en grein föðurs Susie Rutar var um meira en leið hennar að fíkniefnum. 

Meira á eyjunni

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband