Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forgarður vítis

Ég hef kynnst forgarði helvítis og hann er amerísk ríkisstofnun.

Í morgun var fyrsti sumarleikskóladagur Karitas eldri dóttur minnar og þegar ég var búinn að skila henni af mér, brunaði ég í burtu frá skólanum sönglandi "Ég er frjáls...", Helena, sú yngri var nær draumalandinu en vöku í aftursætinu. Ég held að allir foreldrar átti sig á tilfinningu minni, ég átti tíma fyrir mig.

Ég ætlaði að nota fyrsta morguninn í það að skjótast á eina ríkisskrifstofu og skila inn umsókn minni um kennitölu, (social security no.) svo ætlaði ég að taka því rólega á meðan sú yngri svæfi.

Þegar ég kom á staðinn enn í söngskapi var búið að vera opið í hálftíma og um 40 manns biðu eftir afgreiðslu í einhverri þeirra þriggja lúga sem þarna voru. Brosið fraus og ég fór að raula "Dánarfregnir og jarðafarir". Ég fékk númerið 10, í afgreiðslu var 97 og B242, D430 og M125, sem fór eftir því hvert erindið væri, allt mjög gegnsætt og skiljanlegt, eða þannig.

Þá hófst biðin, eftir tæpa klukkustund var komið að númeri 99, þegar allt í einu var kallað á númer 18 og svo 17 og svo 32. Ég fylltist örvæntingu, allir sem voru að bíða með B, D, og M númer þegar ég kom, voru farnir. Lítið barn byrjaði að gráta og eftir um 5 mínútur var þeim kippt fram fyrir röðina. Ég hugsaði um að klípa Helenu, sem var vöknuð og skildi ekkert í því hvar hún var stödd á átta mánaða afmælisdaginn sinn, þannig kæmist ég kannski framfyrir eins og múslimaparið með litla barnið. Þá var verið að afgreiða númer 7 þannig að ég ákvað frekar að bíða.

Eftir rúmlega tveggja klukkustunda bið var númer 10 svo kallað og ég fékk að skila inn umsókninni. Þegar kennitalan er komin eftir um 2 vikur þarf ég svo að heimsækja þá ríkisstofnun sem versta orðsporið hefur á sér, DMV eða Umferðastofu. Til að tryggja bílinn okkar þurfum við bæði að hafa amerísk ökuskírteini, til að fá ökuskírteini þarf kennitölu.

Konan mín, Liz þurfti að njóta þjónustu DMV í mars til að skipta yfir í amerískt skírteini, svo við gætum leigt sendiferðabíl þegar búslóðin okkar kom. Það tók 4 klukkustundir en á þeim tíma skráði hún sig, tók skriflegt og verklegt bílpróf. Ég bíð spenntur eftir þeim kafla, ég ætla að taka með mér þykka bók.

----------
Þessi færsla birtist bæði á moggabloggi og eyjunni .

Hvar er álverið?

Mér barst nokkuð skemmtileg ábending í gærkvöldi. Á baksíðu DV í gær var fullyrti aðstoðarritstjóri blaðsins og verðlaunablaðamaðurinn, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, að Alcan mundi tilkynna samdægurs að það ætli að flytja álverið til Þorlákshafnar.

Þetta var dúndurskúbb hjá sda en hvers vegna náði það ekki inn á forsíðu? Treystir ritstjóri DV ekki aðstoðarritstjóranum?


Það gæti þó aldrei verið vegna þess að engin tilkynning hefur komið og forstjóri Alcan sagt 1) að fyrirtæki ætli ekki að flytja starfsemina frá Straumsvík og 2) engar ákvarðanir hafi verið teknar um nýtt álver fyrirtækisins annars staðar.

Fullyrðing aðstoðarritstjórans er því hreint út sagt röng.

Er ekki kominn tími til að menn sjái sda fyrir það sem hún er?


Skattlausir dagar komu snemma í ár


Mig langar til að bæta aðeins við umfjöllun Vefþjóðviljans um skýrslu Andríkis frá því í gær.

Skýrslan staðfestir að íslenskur almenningur vinnur allt allt alltof lengi fyrir hið opinbera. Á meðan skattlausi dagurinn kom 21. júni til Íslendinga kom hann þann 30. apríl til okkar hér vestra.

Þrátt fyrir að gríðarlegir fjármunir fari í bitlinga, landbúnaðarniðurgreiðslur og stríðsrekstur tekur ríkið þetta mikið minna til sín.

Mér varð litið á kassastrimilinn frá verslunarferð frá síðustu helgi, þetta var meiriháttar verslunarferð.

Karfan kostaði 310$ ofan á þá upphæð kom svo skatturinn 13$. Tæplega 20 þús. kr. fór til innkaupa og rúmar 800 kr til ríkisins. Mikið er það hressandi.

Það er kominn tími til að lækka skatta á Íslandi enn frekar.


Ég er skotin í Obama

Eitt af vinsælasta myndband kosningabaráttunnar hér vestra er komið fram. Myndbandið sýnir unga klæðalitla fyrirsætu "syngja" lagið I Got a Crush...On Obama. Lagið er ekki merkilegt en það hefur verið horft á myndbandið rúmlega 1500 þúsund sinnum (ein og hálf milljón áhorf) á örfáum dögum. Myndabandið var sett á vefinn 13. júní.

Myndbandið var gert til að auglýsa nýjan grínvef sem heitir barelypolitical.com og er ekki á vegum Obama en það er klárt mál að kosningastjórn Obama syrgir myndbandið ekkert.

Gallinn við Obama er hinsvegar að enn veit maður lítið sem ekkert hvað hann stendur fyrir, nema það að villta vinstrið í demókrataflokknum elskar hann. Ef maður á að þekkja menn af vinum og stuðningsmönnum þá líst mér ekki vel á Barry.
En hann á sæta stuðningsmenn og það hlýtur að telja eitthvað.




Hvar er Michael Moore?

að hrökkva eða stökkva?Hér til hliðar má sjá mynd af konu upp á þaki byggingar, konan er með krabbamein og hótar að fremja sjálfsmorð vegna þess að hún hafur ekki efni á heilbrigðisþjónustu.
Þvert gegn því sem flestir myndu halda er myndin ekki frá bandarískri borg heldur frá kínverska alþýðulýðveldinu! Eins og glöggir sjá og þekkja fána kommúnistaríkisins.

Mun Moore láta málið til sín taka? Eða græðir hann meira á að spinna sögur um Bandaríkin?



"Ég kannast víst ekki við þennan S-hóp."

Eitt besta skemmtiefni sem mér hefur borist um langa hríð er handritið að viðtali Þóru Arnórsdóttur við Þórólf Gíslason. Maður veltir því fyrir sér við lesturinn hvort búi Þórólfur á Íslandi?
S-hópurinn? Er það einhver poppgrúppa?

--------------
Sjálfskipað ráð deilir út fé

Tuttugu og fjögurra manna fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga ákvað hvaða hópur skyldi fá greidda tugmilljarða króna við slit félagsins. Ráðið hefur kosið sig sjálft síðan sambandið leið undir lok.

Samvinnutryggingar gt-gagnkvæmt tryggingafélag voru stofnaðar árið 1946. Þær sameinuðust svo brunabótafélaginu í VÍS árið 1989. Eftir lifði samt eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar sem hefur verið umsvifamikið í fjárfestingum síðustu ár. Þeir sem tryggðu hjá Samvinnutryggingum árin 1987 til 1988 og héldu áfram að tryggja hjá VÍS fram til 1. júní 2006 eiga nú að fá sinn hluta greiddan í hlutabréfum í Gift, dótturfélagi Samvinnutrygginga ehf. En hvers vegna á bara þessi hópur rétt á greiðslu en ekki þeir sem áttu í viðskiptum við Samvinnutryggingar fyrr eða fluttu sig yfir til annars tryggingafélags eftir stofnun VÍS.

Þórólfur Gíslason, stjórnarformaður Samvinnutrygginga ehf.: Ja, þetta er nú bara, fer eftir samþykktum félagsins og félagið hefur alltaf starfað eftir sínum samþykktum.

Þóra Arnórsdóttir: En, er þetta dálítið, já, hvað á maður að segja, svona tilviljanakennt val að velja nákvæmlega þennan hóp?

Þórólfur Gíslason: Hvað áttu við, fyrirgefðu?

Þóra: Það er að segja nákvæmlega þennan hóp sem að tryggði þarna 87, 88 og svo fram til 2006 hjá VÍS?

Þórólfur Gíslason: Nei, það er ekki sko, vegna þess að tryggingastarfsemin, sko, hún er þannig að þetta er ákveðin skil sem verða þarna og þá er þetta gagnkvæma tryggingafélag ekki lengur með tryggingastarfsemi, sko, beina. En þetta eru bara samþykktirnar og þær eru svona að ég vona að, að þetta sé það sem að, að hérna, menn geti verið bara mjög ánægðir með þegar upp verður staðið.

Það er 24 manna fulltrúaráð sem gerir þessar samþykktir og það hefur líka kosið stjórn sem ákveður fjárfestingastefnu, styrkveitingar og fleira.

Þóra: Hvaðan kemur þeirra umboð eftir að SÍS líður undir lok?

Þórólfur Gíslason: Ja, það kemur, þeirra umboð kemur frá fulltrúarráðinu að sjálfsögðu, sem hefur verið starfandi allan tímann. Fulltrúarráðið hefur verið kosið, það er þannig að það er kosið til 4 ára í senn og síðan hefur það sem sagt verið endurnýjað árlega, einn fjórði af fulltrúarráðinu.

Þóra: Bíddu, en hver kýs?

Þórólfur Gíslason: Ja, aðalfundur sambandsins kaus meðan hann var og hét, síðan hefur, hefur sko, hefur fulltrúaráðið tilnefnt eftir það, þar sem að það hefur endurnýjað sig.

Tugþúsundir manna eiga skilyrtan eignarrétt í félaginu, þótt fæstir hafi kannski vitað af því.

Þóra: Hefði ekki verið eðlilegt þá einmitt þá að boða þá á fundi einmitt til þess að kjósa fulltrúaráð og fleira.

Þórólfur Gíslason: Ja, það liggur raunverulega, þetta fer bara eftir samþykktum félagsins, nákvæmlega og eins og ég hef margsagt að þeir hafi ekki lagt fram neina fjármuni og þetta er algjörlega skilyrt að þeirra eignaréttur verður ekki virkur nema félaginu verði slitið.

S-hópurinn sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma hefur löngum verið nefndur í sömu andrá og Samvinnutryggingar ehf. Þórólfur kannast ekki við þann hóp.

Þórólfur Gíslason: Ég kannast víst ekki við þennan S-hóp. Hann er nú svona tilbúinn, þó að svona í umræðunni hafi verið reynt að gera þetta tortryggilegt hjá sumum þá er þetta allt saman á misskilningi byggt. Samvinnutryggingar lánuðu engum fé til að kaupa hlutabréf í Búnaðarbankanum. Þeir fengu bara eins og aðrir, á þeim tíma sem stóð að þessum kaupum, keyptu ákveðin hlut í bankanum sem hefur ávaxtað sig ágætlega en það, það er margt annað sem hefur ávaxtað sig mjög vel.

Tími: 03:10
Fréttamaður: Þóra Arnórsdóttir


Fálkaorðan og molbúar

Það var áhugavert að skoða færslurnar sem tengdar voru við fréttina um veitingu fálkaorðunnar. Sumar voru ágætar, fögnuðu glaðlega með orðuhafa. Svo voru aðrir sem skilja ekki tilganginn með þessu fyrirbæri og hjá öðrum sést í Molbúann.

Jenný Önnu Baldursdóttir, sem er femínisti og vinstri græn finnst þetta ÞAÐ HALÆRISLEGASTA Í VEGTYLLUBRANSANUM...

Hafsteinn Viðar Ægisson sem heldur með fótboltaliði segir:
Enn og aftur úthlutar forseti vor skammarverðlaunum á 17. júní eins og tíðkast hefur og enn og aftur eru opinberir starfsmenn í meirihluta að því er virðist fyrir að hafa mætt í vinnuna.

Bitrasti bloggarinn sagði mig eitt sinn, eyðileggja allt með smámunasemi og tittlingaskít. Ég verð að standa undir því hóli og benda á að þetta bara ekki rétt hjá United blogaranum Hafsteini, þrjú af tíu eru opinberir starfsmenn.


Valur Ægisson sem er örugglega ekki femínisti spyr og svarar
Fyrir hvað er þetta lið að fá viðurkenningu? Flestir ekki neitt.

En hann veit það ekki. Verkfræðingurinn ungi veit ekki neitt um þetta fólk en telur sig samt þess umkominn að fella dóm um það og starfsævi þeirra.


Kjarninn í tuðinu birtist svo í orðum Bjargar Kristjönu Sigurðardóttir sem er lestrarhestur, fréttafíkill og jafnréttissinni. hún spyr: 
Ég þekki ekki mikil deili á því fólki fékk orður í dag. En ég spyr mig, af hverju á einhver hótelstjóri eða jarðfræðingur þessa orðu frekar skilið en annað fólk sem gegnir samskonar störfum?

Uhh, vegna þess að fólki fannst þau skara framúr og benti orðunefnd á það.


Það er ákaflega viðeigandi að veita fólki sem hefur skarað framúr eða lagt mikið á sig í þágu annarra, viðurkenningu.

Forsetaembættið og orðunefnd mætti hinsvegar búa til stutt yfirlit um hvern og einn svona til að draga fram hvaða fólk er þarna á ferð og upplýsa unga verkfræðinga um snillinga eins og Sverri Hermannsson.


 

Kuldakast í Ameríku

frábærir flamingóarVegna óvænt kuldakast (18°C), voru íslensku feðginin í essinu sínu í gær. Við gátum verið í siðuðum fötum og skóm og farið inn í borgina án þess að leysast upp í þjóðlegum svitapolli. Enn hefur enginn kennt Bush, Ísrael eða saksóknaranum í Baugsmálinu um þessi veðurbrigði en haldi þessi blíða áfram verður sökudólgurinn fundinn.


Í DC er frábær dýragarður með örugglega öllum helstu dýrategundum sem finnast á jörðinni. Tveggja klukkustunda skoðunarferð náði eingungis yfir lítið hluta af því sem boðið er upp á.

Þó sáum við það allra allra mikilvægasta, pandabirni og flamingóa. Frumburðurinn er heilluð af öllu bleiku og eftirlætisbókin hennar um þessar mundir er Panda málar þannig að við náðum að gera tvennu í ferðinni. Í raun varð hún þrenna því hún elskar borgina, þegar minnst er á að fara inn í DC þá hoppar hún og klappar og hrópar Já, borgin, vei, vei!

Undarlegt barn, ekki til sveitarómantík í henni. Traffík, mannmergð og knæpur eru hennar ær og kýr.



Er þetta grín?

Amex er að keyra auglýsingu hér vestra sem er dálítið fyndin, óviljandi að ég held, og þó.

Þetta er klassísk kreditkorta auglýsing með fólki á eyðslufyllerí, en lagið sem leikið er undir er "Gimmie some money" með Spinal Tap (The Thamesmen).

Að nota Spinal Tap lag í "Corporate" auglýsingu er mjög fyndið.

Annaðhvort er sá sem gerði auglýsinguna snillingur eða fáviti, það er ekkert svigrúm þar á milli.


Hvaða stjórn á svo að viðurkenna?

Undanfarin misseri hafa ýmsir krafist þess að stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas og Fatah verði viðurkennd. Núna berast þessar hreyfingar á banaspjótum og einhverjir vilja kenna Ísrael um blóðbaðið!

Staðreyndin er að við horfum upp á tvær hreyfingar ofbeldismanna berjast um yfirráð yfir völdum, landi, fólki og síðast en ekki síst aðgangi að fjármagni.


Mogginn segir okkur frá því að Fatah handtaki Hamas-liða og AP segir frá því að Hamas sé að sigra og stundi opinberar aftökur á Fatah liðum.

Farið hefur fé betra. Vonandi klára þeir hvorn annann og úr öskustónni rísi fólk sem hafni ofbeldinu.

Ef Hamas sigrar og gengur til bols og höfuðs á Fatah, vilja menn þá enn viðurkenna stjórnina?
Vinstri menn dá svo sem jafn slæma og verri morðingja.


mbl.is Tugir Hamas-liða handteknir á Vesturbakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband