Föstudagur, 27. apríl 2007
Velkomin Lucia Celeste Molina Sierra
Lucia er eins og hún segir sjálf frá á Flickr prófílnum sínum, sæt stelpa. Við hljótum að gleðjast yfir því að hún bætist í flóru Íslendinga. Þeir sem þetta lesa mega ekki kenna henni um málið. Hún hefur enga sök unnið, það næg refsing hvort sem er að eignast Jónínu fyrir tengdamömmu.
Því trúir þó ekki nokkur maður að Jónína hafi ekki hamast í fólki til að fá ríkisborgararétt fyrir Luciu.
Og við hverja þurfti hún að tala? Hverjir voru þessir þrír sem fóru yfir umsóknirnar? Það voru Bjarni Ben. Guðrún Ögmunds og Guðjón Ólafur.
Gunna Ögmunds er svo aum fyrir öllum útlendingum að hún hefur ekki einu sinni þurft símtal.
Guðjón Ólafur er framsóknarmaður í Rvk. og því ekki líklegur til að vera með eitthvað múður.
Bjarni er pragmatískur fram úr hófi og kurteis og því hefur hann látið undan þegar hann var með Jónínu brjálaða á hælunum á sér. Það er svo sem skiljanlegt að hann bregðist þannig við, hún hefur heimtað allt og hótað hinu.
En hver lak þessu máli? Þar er einn líklegastur og það er Guðjón Ólafur. Hann er líkleg búinn að reikna dæmið þannig að eftir kosningar þá verði Jón ekki lengi formaður. Þá standa eftir forystumenn í Rvk hann og JB, þetta mál veikir Jónínu verulega. Guðjón veit sem er að hann fer ekki inn á þing í kosningunum og því er honum sama þótt framsókn tapi einhverjum prósentustigum í viðbót. Guðjón hefur stóra drauma og mikinn metnað, það er ekki nóg að vera bara umsjónarmaður leikskrár Vals og varaþingmaður. Það er líka löng hefð fyrir undirferli í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Guðmundur G. Þórarinsson þótti ekki vandur að meðölum þegar hann ýtti Haraldi Ólafssyni prófessor út. Guðmundur fékk svo að kenna á Finni Ingólfssyni og líkti þá vinnubrögðum Finns við bófaflokk í Chicago eins og frægt er.
Að lokum þá var umfjöllun Helga Seljan um veitingu ríkisborgararéttar í fréttinni til fyrirmyndar. Með því betra sem maður hefur séð þegar fjallað er um flókin ferli skrifræðisins.
![]() |
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Traustur vinur
er maður sem skrifar svona:
Ég á slatta af vinum sem eru í samböndum frá því í menntaskóla. Þegar ég fylgist með þessu fólki finnst mér eins og það sé lifandi dautt. Ekkert af þeim samböndum sem ég þekki til eru sérstaklega ástríðufull og stundum finnst mér eins og þetta lið hati hvort annað í raun og veru.
Mikið er ég feginn að ég þekki manninn ekki.
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Lemdu tíkina mína
Getur einhver frómur útskýrt fyrir mér afhverju Samfylkingin í suðurkjördæmi vill lemja tíkina sína? Hver er tíkin? Eftir að hafa búið til halllrislegustu kosningaauglýsingu vorsins ákváðu strákarnir í "sigurlistanum", þeir Bjöggi, Lúlli og Robbi að senda okkur skilaboð með auglýsingu sem leikur lagið "Smack My Bitch Up" Hver er tíkin sem á að lemja, Ingibjörg Sólrún, Guðný Hrund eða einhver önnur?
Vefurinn www.sigurlistinn.is er sagður á vegum ungra jafnaðarmanna, en ég velti því fyrir mér af hverju "ungir" jafnaðarmenn gera auglýsingu um Davíð Oddson með 10 ára gömlu popplagi. Mér finnst það liklegra að þegar kom að því að velja eitthvað "edgy" lag sem ögraði þá voru það karlar undir fertugt sem stóðu í hugmyndavinnunni.
Væri ekki kómískt ef Björgvinn Gé yrði ráðherra jafnréttismála vegna þessarar auglýsingar?
Hver vill kjósa flokk sem talar bara um mann sem hætti pólitík fyrir tæpum 2 árum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Kosningaauglýsingar
Eru skemmtileg fyrirbæri, þegar vel tekst til þá eru þær snilld, en þegar illa gengur þá eru þær hrikalega pínlegar, svo pínlegar að þær verða skemmtilegar á að horfa.
Auglýsing Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi er dæmi um hið síðarnefnda.
Í fyrsta lagi þá spyr maður sig hvað menn eru að meina með snókernum, með fullri virðingu fyrir íþróttinni, þá er þetta sport sem maður tengir frekar við reykingar, bjórdrykkju og iðjuleysi. Allt saman mjög virðingaverð áhugamál, en maður býst einhvern veginn ekki við að frambjóðendur hreyki sér af þeim.
Kannski eru þetta dulin skilaboð til okkar frjálshyggjumanna, kjósið okkur við ætlum bara að spila pool og sleppa því að setja lög!
Í örðu lagi þá sést ekki framan í fólkið, lýsingin er þannig, öll áherslan er á græna dúkinn.
Í þriðja lagi þá sökka þau í sportinu það hittir enginn neitt, sérstaklega ekki maðurinn með röddina.
Þessi hér finnst mér ein besta íslenska kosningaauglýsingin:
Svona á að gera þetta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Karnabær kemur ekki aftur
Það er merkilegt að sitja hér vestur í Vostúni og lesa um Eldsvoðann, það snýr einhvern veginn allt öfugt þegar maður horfir heim. Í skipulagi Reykjavíkur er Kópavogsbúinn Jón Snæhólm pottur og panna, en hvar er Hanna?
Til stendur að eyða tæplega 500 milljónum af almannafé í að kaupa lóðir, byggingarétt og byggingar, til hvers? Hvað á að koma inn í endurbyggðu húsin? Hvaða rekstur er sæmandi? Ekki verður það dansklúbbur, sjoppa og skyndibitastaður, borgin er ekki að eyða öllu þessu fé til þess. Hvað á að koma inn í húsin, fyrst var húsið í Austurstræti 22 íbúðarhús, svo einhvern tíma síðar fangelsi og svo prestaskóli. Kannski mætti gefa BDSM klúbbnum efri hæðina þar sem fangelsið var, þá væri farið nokkuð nálægt upprunalegu horfi.
Við hvað á svo borgarstjórinn þegar hann segist vilja koma götumyndinni í sem upprunalegast horf? Á að rífa upp hellurnar? Kannski vill hann bara fá húsin í það horf sem hann man? Mitt upprunalega horf er Karnabær þar sem Pravda var og svo allskonar rekstur í Lækjargötu, það var bókabúð syðst á götuhæðinni, þar voru alltaf götuskilti sem auglýstu Ný dönsk blöð og einhvern tíma heyrði ég skiltið hafi gefið hljómsveitinni nafnið.
Nú skal ekki misskilja mig sem ákafan talsmann þess að rífa allt gamalt (ég tengist Austurstræti 22 þeim böndum að hafa átt þar mörg ógleymanleg blakkát fyrir 12 árum eða svo og þykir vænt um húsið) en þessi fortíðardýrkun sem hefur leitt okkur í þá vitleysu að byggja Disney hús við elstu götu bæjarins, falsaða sögu. Hér vestra tröllríður þessi hugsun heilu borgunum. Öll hús skulu byggt í uppdiktuðum nýlendustíl, ég minnist þess að hafa heyrt sögu arkitekts sem er þekktur og vinsæll, hann stóð í málaferlum við bæjaryfirvöld um að fá að byggja hús úr 20. öldinni, enga fimleika eða vitleysisgang, bara stílhrein formfagurt hús.
Ef húsin eru ónýt þá eru þau ónýt og fráleitt fyrir borgarstjóra (sem tók víst ekki við góðu búi fyrir ári) að nota 500 milljónir í nostalgíu.
Ég vona bara að einhver hnippi í Villa og segi honum að þótt hann byggi húsið þá kemur Karnabær ekki aftur og jafnvel þótt hann endurbyggi alla borgina í sem næst upprunalegu horfi þá koma gömlu dagarnir ekki aftur.