Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Carpe diem

Hann var að fara út með ruslið og hélt svo áfram að labba.

Áttaði sig svo á því að honum var mál að pissa og leit ekki glaðan dag eftir það.



Kuldakast í Ameríku

frábærir flamingóarVegna óvænt kuldakast (18°C), voru íslensku feðginin í essinu sínu í gær. Við gátum verið í siðuðum fötum og skóm og farið inn í borgina án þess að leysast upp í þjóðlegum svitapolli. Enn hefur enginn kennt Bush, Ísrael eða saksóknaranum í Baugsmálinu um þessi veðurbrigði en haldi þessi blíða áfram verður sökudólgurinn fundinn.


Í DC er frábær dýragarður með örugglega öllum helstu dýrategundum sem finnast á jörðinni. Tveggja klukkustunda skoðunarferð náði eingungis yfir lítið hluta af því sem boðið er upp á.

Þó sáum við það allra allra mikilvægasta, pandabirni og flamingóa. Frumburðurinn er heilluð af öllu bleiku og eftirlætisbókin hennar um þessar mundir er Panda málar þannig að við náðum að gera tvennu í ferðinni. Í raun varð hún þrenna því hún elskar borgina, þegar minnst er á að fara inn í DC þá hoppar hún og klappar og hrópar Já, borgin, vei, vei!

Undarlegt barn, ekki til sveitarómantík í henni. Traffík, mannmergð og knæpur eru hennar ær og kýr.



Er þetta grín?

Amex er að keyra auglýsingu hér vestra sem er dálítið fyndin, óviljandi að ég held, og þó.

Þetta er klassísk kreditkorta auglýsing með fólki á eyðslufyllerí, en lagið sem leikið er undir er "Gimmie some money" með Spinal Tap (The Thamesmen).

Að nota Spinal Tap lag í "Corporate" auglýsingu er mjög fyndið.

Annaðhvort er sá sem gerði auglýsinguna snillingur eða fáviti, það er ekkert svigrúm þar á milli.


Hvaða stjórn á svo að viðurkenna?

Undanfarin misseri hafa ýmsir krafist þess að stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas og Fatah verði viðurkennd. Núna berast þessar hreyfingar á banaspjótum og einhverjir vilja kenna Ísrael um blóðbaðið!

Staðreyndin er að við horfum upp á tvær hreyfingar ofbeldismanna berjast um yfirráð yfir völdum, landi, fólki og síðast en ekki síst aðgangi að fjármagni.


Mogginn segir okkur frá því að Fatah handtaki Hamas-liða og AP segir frá því að Hamas sé að sigra og stundi opinberar aftökur á Fatah liðum.

Farið hefur fé betra. Vonandi klára þeir hvorn annann og úr öskustónni rísi fólk sem hafni ofbeldinu.

Ef Hamas sigrar og gengur til bols og höfuðs á Fatah, vilja menn þá enn viðurkenna stjórnina?
Vinstri menn dá svo sem jafn slæma og verri morðingja.


mbl.is Tugir Hamas-liða handteknir á Vesturbakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rudy vinnur Hillary

LA Times-Bloomberg könnun kom út í kvöld þar sem fram kom að Rudy er enn efstur af Repúblikunum og Hillary efst demókratamegin. Ef þau hlytu útnefninguna þá myndi Rudy hinsvegar sigra kosningarnar með rúmum 10%. Hillary nær ekki forystu á neinn frambjóðanda repúblikana umfram skekkjumörk. Obama myndi hinsvegar sigra Giuliani, Romney eða McCain nokkuð örugglega. Hvernig sem fer þá verður þetta áhugaverðir 6 mánuðir sem eru framundan.

úr ræðu Giuliani sl. fimmtudagskvöld. 





Engin helv. umræðustjórnmál

Rudy Giuliani var a ferðinni hér í nágrenninu sl. fimmtudag og hélt fjáröflunarsamkomu á Hard Rock Café í DC. Ég var svo heppinn að vinur minn sem er að safna fé fyrir frambjóðandann, bauð mér með sér. Þetta var heljarinnar samkoma, u.þ.b. 400 manns samankomin til að sjá einn mann og hlusta á hann í nokkrar mínútur. Sumir fengu að vísu að hitta hann og fengu mynd með sér af með frambjóðandanum, en fyrir það borguðu viðkomandi tæplega 150 þús. kr. Ég var ekki í þeim hópi. Hins vegar var ég svo heppinn að standa fyrir framan pallinn (sviðið) þegar hann kom inn og hélt ræðuna, ég hefði getað snýtt mér á hann, svo nálægt var hann.

Allir sem ég hitti þarna voru þreyttir á núverandi stjórnvöldum, (ath. þetta voru allt repúblikanar í höfuðborginni !) og langaði í eitthvað annað. Giuliani er eins ólíkur núverandi forseta og frekast verður unnt innan repúblikanaflokksins. Það var sérstaklega áhugavert að tala við stelpu sem lagði á það áherslu að Rudy er Pro-Choice, eða fylgjandi rétti kvenna til fóstureyðinga, það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún vinnur í höfuðstöðvum Repúblikanaflokksins.

Stjórnmálin hér eru nefnilega ekki eins einföld eins og sú mynd sem oft er dregin upp í íslenskum fjölmiðlum.

Ræða Giuliani var mjög áhugaverð, hann er góður ræðumaður og mjög spontant, kann að hugsa standandi, mjög ólíkur forsetanum. Tvö meginstef voru í ræðunni, hvernig hann vildi að Bandaríkin héldu áfram að vera land tækifæranna og að kakan eigi að stækka öllum til hagsbóta. Hitt stefið var hvernig frambjóðendur demókrata virðast helst vilja ræða um öll mál þar til enga ákvörðun er að taka og hvernig demókratarnir telja að mikilvægt sé að tala við alla þá sem vilja drepa sem flesta bandaríkjamenn og vesturlandabúa yfirleitt. Hann spurði salinn: Þegar þú stendur frammi fyrir fólk sem hefur ítrekað lýst því yfir að það vilji drepa þig, hvað gerir þú? Býður því til sætis og rökræðir kosti og lesti drápsins á þér eða býst til varnar?

Ég veit ekki af hverju vinstri menn telja sig geta rökrætt alla til niðurstöðu sem þeim þóknast, það tókst ekki með núverandi forseta, af hverju ættu forsetar annarra ríkja að verða tilkippilegri?

Það er ein leiðinlegasta mýta íslenskrar umfjöllunar um bandarísk stjórnmál að þau séu svo langt til hægri að demókratar eru eins og hægri menn á Íslandi og íslenskir hægri menn verða að vinstri mönnum hér. Stjórnmálin eru miklu flóknari en svo, þetta tveggja flokka kerfi gerir það að verkum að innan beggja rúmast ótrúlega ólík sjónarmið. Það eru mjög sterk öfl innan demókrataflokksins sem eru hreint út sagt sósíalísk, en þar eru líka öfl sem myndu sóma sér í hvaða evrópska hægri flokki sem er.

Ég veit amk. hvern ég myndi kjósa á næsta ári ef ég gæti kosið.




Samt við munum skjóta þeim, rebba fyrir rass

Það er svo óendanlega notarlegt að sitja úti í garði, fast að miðnætti og hlusta á Deleríum Búbónis á rás 1 á netinu. Viðar Eggertsson hefur sett saman frábæran þátt um þetta skemmtilega verk þeirra Jóns Múla og Jónasar sem unun er að hlusta á.

Við frumburðurinn höfum verið að hlusta á Gling Gló í bílnum undanfarnar vikur, Titilagið og svo titillinn að ofan vekja sérstaka lukku í 3-4 ára markhópnum. Ég á örugglega eftir að spila þáttinn hans Viðars fyrir hana einhvern tíma næstu daga.

Djassinn er sannarlega kærkomin tilbreyting frá Latabæjar júrótrashinu. Sú stutta er reyndar mikið fyrir djass, hún hlustaði af andakt á Ragnheiði Gröndal syngja nokkrar slagara og popplög í djassaðiri útgáfu fyrir þegar hún(frumburðurinn þ.e.a.s.) var ekki orðin þriggja ára. Þar söng Ragnheiður m.a. lagið Jolene djassað sem varð svo til þess að lagið í upprunalegu útgáfunni varð vinsælasta lagið á heimilinu, 199 spilanir í mínu Itunes! Djass, kántrý, hún fílar dívur.

Ósköp væri gaman fyrir okkur útlendingana ef þættir og efni útvarpsins lifðu lengur en þessar 2 vikur á netinu. Í raun ætti útvarpið að gera allt efni sitt aðgangilegt á netinu. STEF veitir afslátt af höfundarréttargjöldunum af efni á netinu þannig að það ætti ekki að verða of dýrt.




Einari Oddi skipt út

Ég sá það á alþingisvefnum og hafði reyndar heyrt af því að Kristján Þór Júlíusson fengi stöðu varaformanns fjárlaganefndar. Þetta eru engar fréttir Hux var búinn að segja frá þessu fyrir nokkru. Ég trúði því reyndar ekki fyrr en á reyndi því Einar Oddur Kristjánsson hafði sinnt því embætti í 8 ár með miklum sóma og oft verið mjög öflugur málsvari skattgreiðenda.

Nú er forysta Sjálfstæðisflokksins búin að senda tveim þingmönnum NV kjördæmis skýr skilaboð: Ykkar er ekki þörf.  Einar Oddur er lækkaður í tign og Sturla fær tvö ár til að undirbúa brottför. Einar Kristinn hlýtur að vera farinn að horfa yfir öxlina á sér, því það er bara tímaspursmál hvenær kemur að honum.

Hvernig stendur á þessu?  Hefur forystan eða einhverjir nákomnir henni, sérstakan áhuga á breytingum í kjördæminu? Þarf að rýma til?

Fordæmi?

Eru einhver fordæmi fyrir því að borgarstjóri setjist í stjórn orkufyrirtækis í eigu borgarinnar? Ég man ekki eftir því í svipinn.

Er svona rólegt hjá Gamla góða Villa? Eða mikið að gera hjá hinum 13 borgarfulltrúunum og varaborgarfulltrúunum?





mbl.is Ný stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kjörin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjómannadagurinn

er skemmtilegur dagur, væri ekki best að breyta 1. maí í sambærilega skemmtun?

Til dæmis mætti halda verkalýðsdaginn fyrsta mánudag í maí með fjölskyldudagskrá og óhollum mat. Svo mætti klára daginn á symbólískri flugeldasýningu (mikill hávaði - ekkert innihald) og stórri bálför sem yrði að sjálfsögðu nefnd verðbólgubálið.


Það var gott að sjá fjórðu þyrlu gæslunnar koma til landsins þessa helgi, það á vel við. Ætli íþróttafréttaritarar Blaðisins fjalli um málið?



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband