Frelsið er yndislegt...

Það er undarleg frelsistilfinning sem fylgir því að vera búinn að taka ákvörðun um að hætta í starfi. Ég er búinn að starfa í dómsmálaráðuneytinu í fjögur og hálft ár og nú er nóg komið. Ég ætla að hverfa úr ráðuneytinu um áramót eða í janúar eftir því hvernig stendur á í stærsta verkefni mínu, rafvæðingu og flutningum Löbbans. Ráðuneytið er skemmtilegur vinnustaður með frábæru og mjög dedikeruðu fólki.  Þegar það fer saman við atorkusaman og frábæran ráðherra þá er hægt að flytja fjöll. Það hefur ótrúlega margt breyst á þessum tíma og það er búið að sá fræjum enn frekari framþróunar. Þess er óskandi að Björn fái til þess umboð að halda áfram. Mér er til efs að nokkur annar stjórnmálamaður hefði haft dug og þor í að gera þær breytingar á málefnum lögreglunnar sem hafa verið gera, fækkun umdæma osfrv. Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þá efast ég um að hingað væri komin þyrla og fleiri á leiðinni ef einhver annar hefði haldið á málum. Það væri kannski búið að skipa þverfaglega og þverpólitíska nefnd sem engu skilaði. Starfsumhverfi lögreglunnar hefur breyst til hins betra,verkefni sýslumanna orðin fjölbreyttari og ýmsar réttarbætur komnar í gegn. Öryggismálum sjómanna er borgið þökk sé Birni. Er einhverjum öðrum ráðherra betur treystandi til að tryggja öryggi lands og þjóðar í kjölfar breytinga á varnamálunum?

Á síðasta þingi fóru flest öll mál dómsmálaráðherra í gegn, enginn annar ráðherra náði viðlíka árangri. Mér finnst það morgunljóst að maðurinn er öflugasti stjórnmálamaður sem við eigum núna. 

Vinstri menn vita það líka og þess vegna hamast þeir gegn honum eins og naut í flagi, syndin er að sumir sjálfstæðismenn taka þátt í aðförinni. Þeir sem ekkert eiga nema metnaðinn vilja ryðja þeim út sem geta.

Sjálfstæðisflokkurinn yrði veikur og aumur flokkur ef hugsjónalausir og valdagírugir menn sem ekkert hafa fram að færa nema eigin metorðagirnd stæðu einir í stafni. Á því fleyi þigg ég ekki far. 

Kjósendur hafa ekki alltaf séð í gegnum innihaldslausa potara fyrr en seint og um síðir.  Það má vera að Albertsgenið lifi enn í flokknum. 

-------- 

Ég er að hætta í ráðuneytinu af einni ástæðu. Ég skulda konunni minni búsetu á hennar heimaslóðum, við töluðum um 2 til 3 ár hérna þegar hún kom hingað til lands fyrir rúmum 6 árum, það er ég búinn að svíkja margoft.  Við værum vísast farin ef fjölgun væri ekki yfirvofandi, það er betra að klára slík mál hérlendis. Það heillar að búa í stærra samfélagi, innan um mergð manna. Það er sjarmerandi tilhugsun að ganga niður götu og vera fullviss um að maður hitti ekki vini, vandamenn eða einhverja samferðamenn eru ekki lengur í símaskránni. Það heillar að búa í samfélagi þar sem einstaklingnum er frekar treyst til að fara með eigin mál. Að þurfa ekki að vera kominn upp á náð og miskun ríkisins þegar öl er verslað. Mér finnst það magnað að forsjáin sé enn svona kjánaleg.  Sænskir og danskir hægri menn vita að þeir hafa skamma stund til stefnu og því fara þeir í framkvæmdir, en, to og tre. Flokkurinn er búinn að vera í ríkisstjórn í óratíð en enn er svo margt ógert. Það er eins og hræðslan um að missa völdin geri suma stjórnmálamenn stjarfklofa.

Vegna þess að ég er búinn að gefa upp um fyrirætlanir mínar um starfslok, er ég hættur að geyma skoðanir mínar fyrir mig og vinaspjall yfir krús. Þess vegna bloga ég, slétt sama um hvað þér finnst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband