Laugardagur, 13. október 2007
Ég er ekki Þorsteinn...
DéVaff föstudagsins birti merkilega (með ó fyrir framan) fréttaskýringu um atburði síðustu dag. Þar sem ég er nefndur á nafn í þessari fabúleringu Trausta Hafsteinssonar finn ég mig knúinn til að leiðrétta nokkur lykilatriði í greininni er varða mig.
- Ég er ekki fyrrverandi aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar. Sá heitir Þorsteinn Davíðsson. Það er reyndar vísbending um skelfilegan vanþekkingu á efninu að klikka á svona grundvallaratriði. Starf mitt í ráðuneytinu var ekki pólitísks eðlis heldur að mestu tæknilegs.
- TH segir frá skrifum mínum hér og segir svo flestir viðmælenda telja ljóst að þau skrif séu runnin undan rifjum ráðherra. Flestir viðmælenda - plís þetta er svo gömul leið til að breiða yfir ótraustar heimildir að það er broslegt að hún skuli notuð hér. Hafi Trausti haft heimildarmann hljóta þeir að hafa hist á vínbar og viðmælandinn að vanda ekki verið allsgáður.
- Höfundur textans skrifar einnig að ég fullyrði að Björn Ingi hafi hótað slitum á meirihlutasamstarfinu og vilji að meirihlutinn taki upp samstarf við VG. Hvað í ósköpunum skiptir máli hvað einhver maður út í Ameríku vill og vill ekki? Ég dró þá ályktun af ræðu Björns Inga að hann væri að hóta slitum, ég bloggaði það á meðan fundinum stóð:
Bingi eyðir nokkuð miklum tíma í að gagnrýna Sjalla.
Er Björn Ingi að fara að slíta samstarfinu?
Um kvöldið dró ég svo saman ályktanir mínar af atburðum dagsins í blogginu Villi lifir - bálreiðir borgarfulltrúar, þar sagði:
Bingi er að þreifa fyrir sér með að taka upp samstarf við minnihlutann eða amk að hóta því.Þessa ályktun byggði ég á eingöngu á ræðu Björns Inga og viðtölum við hann og aðra borgarfulltrúa á Rúv og Stöð2. Það er allt og sumt. Kannski hefði ég átt að skrifa ÉG HELD AÐ fyrir framan hverja setningu. En þar sem ég er að skrifa fyrir Íslendinga datt mér ekki í hug að ég þyrfti að setja leiðbeingar eða svona amerískan disclamer við hverja færslu. (Þær ályktanir sem dregnar verða af þessum orðum eru á ábyrgð þess sem dregur þær. Nema annað komi skýrt fram eru þessi orð skoðanir síðuhaldara.)Síðan í lok bloggsins sagði ég:
Best væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að slíta samstarfinu, Villi hætti og tekið yrði upp samstarf við VG.
Svandís Svavarsdóttir er heiðarleg og viðræðuhæf á meðan Bingi og Dagur hafa bara annan af fyrrnefndum kostum og ekki þann sama.Þetta mín skoðun og ályktun af framgöngu fólks í fjölmiðlum þessa daga. (Nema kommentið um Dag, hann hef ég þekkt í rúm 15 ár og froðusnakkið og dellan er alls ekki ný tilhneiging hjá drengnum.) Ég hef skipt um skoðun á Svandísi, ég var búinn að gleyma því að hún er dóttir föður síns og það er engu treystandi sem þaðan kemur.
Til lesenda DV vil ég beina því að mikilvægi mitt í atburðarás undanfarinna daga er hér stórlega ofmetið. Hér sit ég í henni Ameríku, fjórum stundum á eftir Íslandi og höfundurinn textans álítur mig einhvern örlagavald! Hann ætti að snúa sér að leikgerð og vísindaskáldskap, þar liggja hæfileikar hans.
Ég skal upplýsa það hér að frá því að ég yfirgaf landið og dómsmálaráðuneytið hef ég einu sinni skipst á orðum við Björn Bjarnason. Það var þegar ég skrapp heim með litlum fyrirvara í lok ágúst, ég kíkti við í ráðuneytinu til að kasta kveðju á fyrrverandi kollega og hitti þá ráðherra fyrir tilviljun. Samskipti okkar stóðu í ca. 30 sekúndur og verður best lýst sem kurteisishjal. Það eru öll samskipti okkar í hartnær 8 mánuði með tölvupóst, síma, bréfum og bréfdúfum.
Að síðustu þykir mér það leitt ef einhverjir hafi lesið þessa síðu á röngum forsendum. Til að lesa skoðanir Björns Bjarnasonar er best að fara á heimasíðu hans www.bjorn.is. Hann hefur hingað til þótt fullfær um að koma skoðunum sínum á framfæri, ég minnist þess meira að segja að einn fjölmiðlamaður hafi hætt að lesa síðuna vegna meintrar óvægni ráðherra. Það er ekki stíll dómsmálaráðherra að koma aftan að mönnum eða vega úr launsátri. Ég hefði haldið að hvaða blaðamaður með lágmarksreynslu ætti að vera búinn að gera sér það ljóst.
Ég segi þetta hér, ekki af því að ég vilji ekki vera spyrtur við dómsmálaráðherra, heldur af því að ég vil ekki að hann hafi óþægindi af því að einhverjir telji mín orð frá honum komin.
Mín orð eru mín og satt að segja er þetta orðið soldið þreytt og lummó.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.