Mánudagur, 11. febrúar 2008
Nú er nóg komið...
Farsinn í borginni er fyrir löngu kominn út fyrir allan þjófabálk. Blaðamannafundurinn í Valhöll var óskiljanlegur skrípaleikur. Einhver þarf að segja Vilhjálmi að það er ekki nóg að sitja undir málverkinu af Bjarna Benediktssyni til að vera leiðtogi og borgarstjóri. Einhver þarf að segja starfsmönnum Sjálfstæðisflokksins að þessi framkoma við fjölmiðlana er í besta falli viðvaningsleg og í versta falli skemmandi fyrir orðspor og málstað flokksins.
Svo er komið nóg af hringingum ofan úr Vegmúla í Reyni Traustason. Fyrst lak þaðan nafn Guðfinnu Bjarnadóttur sem borgarstjóraefni eins og Hjörtur Guðmundsson hefur sýnt fram á. Nú hef ég ekkert út á Guðfinnu að setja, en henni og Sjálfstæðisflokknum yrði enginn greiði gerður með því að kalla inn umboðslausan borgarstjóra. Það var ástæða og tilgangur með prófkjöri, við völdum lista. Hanna Birna var ekki bara í öðru sæti heldur fékk hún langflest atkvæði allra, hún fékk fleiri atkvæði en Vilhjálmur og Gísli í heildina og hún fékk tvöfalt fleiri atkvæði í annað sætið en Júlíus Vífill. 85% kjósenda í prófkjörinu greiddu Hönnu atkvæði og tæplega 6 af tíu settu hana í annað sætið. Að ganga framhjá henni væri að ganga framhjá vilja sjálfstæðismanna.
Nýjasta sendingin sem svo lekur ofan úr úr ráðuneyti heilbrigðis er dæmalaus árás á varaformann flokksins á DV.is. Ég er algjörlega hættur að skilja hvað þetta fólk er að hugsa.
Einn af mörgum kostum varaformannsins er sá að hún hefur verið hafin yfir þessa svokölluðu arma, hún sótti stuðning yfir allan flokkinn, um allt land. Ef þessir armar mótast á afstöðu manna til slagsins um 2. sætið í Reykjavík haustið 2006, þá var það þó þannig að í hennar nánasta stuðningshóp var fólk sem síðar studdi Guðlaug og fólk sem studdi Björn. Þorgerður er ekki hluti af þeim átökum. Að draga hana svo inn í pólitískt harakiri fyrrverandi borgarstjóra er smekklaust og óþolandi.
Það er eins og menn hafi áttað sig á því að holan sem þeir voru að grafa var orðin of djúp til að þeir kæmust uppúr henni. Því reyna þeir að draga aðra niður í hana til sín.
Er það markmið þessa fólks að skemma flokkinn? Trúir það því að þau geti sabóterað flokkinn mánuðum eða árum saman og látið svo eins og ekkert sé?
Hvaðan gott kemur og hvaðan vont kemur, er geymt en ekki gleymt...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2008 kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)