Laugardagur, 4. ágúst 2007
Skífan - Þú skuldar
Það er að rifjast upp fyrir mér hvað afritunarvörn er mikill þjófnaður. Vegna útilegu er ég orðinn meiri neytandi íslenskrar tónlistar en áður og var að setja inn á tölvuna nokkra gamla og góða diska sem ég hef ekki hlustað á lengi þegar ég lenti á XXX Rottweiler - Þú skuldar. Sá diskur er þeim kostum búinn að það er ekki hægt að spila hann í tölvum, mig minnir að vísu að það hafi verið til einhver fiff til að redda því en ég nenni ekki að spá í það.
Inn í umslaginu er skrifað að vilji maður hlusta á diskinn í tölvu þá eigi maður að fara inn á slóðina http://www.skifan.is/download og slá inn lykilorð sem er aftan á umslaginu. Slóðin er auðvitað dauð núna þannig að ég sit líklega eftir með sárt ennið og þó..
Ég sótti aldrei þessa tónlist á sínum tíma og lít svo á að Skífan er að svíkja samning með því að hafa slóðina ekki uppi.
Hver er skylda Skífunnar til að standa við þennan samning sem þeir gera við sína viðskiptavini? Ég veit að hér vestra gæti ég farið með þá beint inn í dómssal og náð amk fram vörunni sem ég keypti ef ekki líka skaðabótum vegna sálræns skaða.
En ég er forvitinn, hver er skylda Skífunnar samkvæmt íslenskum lögum til að standa við loforð sem þetta? NB því eru engin tímatakmörk.
Hver er staðan með alla þessa diska sem Skífan seldi með afritunarvörn? Verður fólk að sætta sig við það að geta einungis spilað tónlistina sem það keypti einungis í geislaspilara af ákv. tegund.
Ég held að svar Skífunnar verði að benda mér á að kaupa tónlistina öðru sinni á tonlist.is
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)