Sunnudagur, 22. apríl 2007
Karnabær kemur ekki aftur
Það er merkilegt að sitja hér vestur í Vostúni og lesa um Eldsvoðann, það snýr einhvern veginn allt öfugt þegar maður horfir heim. Í skipulagi Reykjavíkur er Kópavogsbúinn Jón Snæhólm pottur og panna, en hvar er Hanna?
Til stendur að eyða tæplega 500 milljónum af almannafé í að kaupa lóðir, byggingarétt og byggingar, til hvers? Hvað á að koma inn í endurbyggðu húsin? Hvaða rekstur er sæmandi? Ekki verður það dansklúbbur, sjoppa og skyndibitastaður, borgin er ekki að eyða öllu þessu fé til þess. Hvað á að koma inn í húsin, fyrst var húsið í Austurstræti 22 íbúðarhús, svo einhvern tíma síðar fangelsi og svo prestaskóli. Kannski mætti gefa BDSM klúbbnum efri hæðina þar sem fangelsið var, þá væri farið nokkuð nálægt upprunalegu horfi.
Við hvað á svo borgarstjórinn þegar hann segist vilja koma götumyndinni í sem upprunalegast horf? Á að rífa upp hellurnar? Kannski vill hann bara fá húsin í það horf sem hann man? Mitt upprunalega horf er Karnabær þar sem Pravda var og svo allskonar rekstur í Lækjargötu, það var bókabúð syðst á götuhæðinni, þar voru alltaf götuskilti sem auglýstu Ný dönsk blöð og einhvern tíma heyrði ég skiltið hafi gefið hljómsveitinni nafnið.
Nú skal ekki misskilja mig sem ákafan talsmann þess að rífa allt gamalt (ég tengist Austurstræti 22 þeim böndum að hafa átt þar mörg ógleymanleg blakkát fyrir 12 árum eða svo og þykir vænt um húsið) en þessi fortíðardýrkun sem hefur leitt okkur í þá vitleysu að byggja Disney hús við elstu götu bæjarins, falsaða sögu. Hér vestra tröllríður þessi hugsun heilu borgunum. Öll hús skulu byggt í uppdiktuðum nýlendustíl, ég minnist þess að hafa heyrt sögu arkitekts sem er þekktur og vinsæll, hann stóð í málaferlum við bæjaryfirvöld um að fá að byggja hús úr 20. öldinni, enga fimleika eða vitleysisgang, bara stílhrein formfagurt hús.
Ef húsin eru ónýt þá eru þau ónýt og fráleitt fyrir borgarstjóra (sem tók víst ekki við góðu búi fyrir ári) að nota 500 milljónir í nostalgíu.
Ég vona bara að einhver hnippi í Villa og segi honum að þótt hann byggi húsið þá kemur Karnabær ekki aftur og jafnvel þótt hann endurbyggi alla borgina í sem næst upprunalegu horfi þá koma gömlu dagarnir ekki aftur.