Mánudagur, 13. nóvember 2006
Ósammála formanninum
Það er ekki oft sem ég er ósammála formanni Sjálfstæðisflokksins en í þetta skipti verð ég að deila við hann. Það má vera að Árni njóti traust flokksforystunnar, en hann mun ekki njóta trausts umtalsverðs hluta Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki nóg að segja, hann vann í prófkjöri og þar með er það búið mál. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn semsagt ekkert um það að segja hver er í framboði fyrir hann? Í reglum flokksins er gert ráð fyrir þeim varnagla að kjördæmisráð þurfi að samþykkja listann. Ég vil ekki sjá að kjördæmisráð Suðurkjördæmis samþykki þennan lista. Forysta Sjálfstæðisflokksins er á villigötum í málinu, það má vera að Árni hafi tekið út sína refsingu en hann hefur ekki sýnt neina iðrun né virðist manni að hann telji sig hafa gert eitthvað rangt! Fyrir utan að nást.
Nú er það þannig að atkvæði mitt í Reykjavík hefur áhrif til í öðrum kjördæmum, það nýtist til uppbótarsætis, við það hætta framboðsmál í öðru kjördæmi að verða einkamál þess kjördæmis. Í síðustu kosningum var atkvæði mitt greitt í Reykjavíkurkjördæmi norður lagt á vogarskálarnar til að koma inn Bjarna Benediktsyni í SV-kjördæmi og Birgi Ármannssyni í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Að sama skapi urðu atkvæði greidd Frjálslynda flokknum og Margréti Sverrisdótttur í Reykjavíkurkjördæmi Suður til þess að koma Sigurjóni Þórðarsyni inn á þing. (Slæm skipti fyrir kjósendur frjálslyndra!) Þess vegna er það ekki einkamál kjördæma hverja þeir velja á lista hjá sér eða hvernig staðið er að málum. Hvort sem menn velja glæpamenn eða fjölskyldumeðlimi.
D: Árni nýtur trausts flokksforystunnar
Geir Haarde forsætisráðherra segir Árna Johnsen njóta fyllsta trausts forystu Sjálfstæðisflokksins eftir að Árni hlaut annað sæti á framboðslistanum í suðurkjördæmi og öruggt þingsæti.
Geir var gestur Morgunvaktarinnar á Rás eitt í morgun og fjallaði þar um úrslit í prófkjörum flokksins. Árni Johnsen lenti í öðru sæti í prófkjöri flokksins í suðurkjördæmi. Geir sagði Árna njóta trausts flokksforystunnar þrátt fyrir fyrri brot í trúnaðarstörfum sínum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)