Föstudagur, 14. ágúst 2009
Hver er skaðinn af lekanum?
Hver er raunverulegur skaði af lekanum?
Það eina sem Steingrímur nefnir í viðtali við stuðningsmann sinn, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, á mbl.is er að þeir hefðu viljað stjórna umræðunni! Það er erfitt að sjá hvernig trúnaðarskjalið sem lak í gærkvöld skaðar hagsmuni Íslands meira en yfirlýsingar ráðamanna um að við verðum að borga fyrir Icesave. Þegar hlustað er á Steingrím er gott að hafa eftirfarandi í huga:
Steingrímur Joð sagði þingi og þjóð ósatt þegar hann sagði á miðvikudegi að engin sátt í Icesave væri í sjónmáli, næsta föstudag var skrifað undir.
Hvað hafa mörg skjöl komið fram alveg óvart, eftir að öll skjöl Icesave-málsins hafa átt að vera fram komin?
Þessi stormur í fingurbjörg er allur hugarsmíð fréttastofu Rúv sem gengur hart fram við að verja ríkisstjórnina.
Þeim hefur tekist að snúa umræðunni frá fáránlegum fyrirvörum yfir í eitthvað allt annað!
Smjörklípa, hvað?
Loksins erum við sannarlega með RÍKIS-fréttir.
Fimmtudagur, 23. júlí 2009
Ekki hótun...
Ég rakst á sjónvarpsþátt áðan hér í USA hvers sögusvið var trailerpark og fólkið sem býr þar.
Það skal viðurkennast að það fór ekki mikið fyrir mannlegri reisn.
Ein eiginkonan, barin eins og harðfiskur en fyrirgaf allt. Hann er góður maður, Ég ögraði honum Hann ætlaði ekki að lemja mig
Svo las ég útskýringar Össurar á símtalinu við kollega sinn Verhagen.
Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort sé í meiri sjálfsblekkingu.
Mánudagur, 20. júlí 2009
Pass er sögn
Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir viðbrögðum við hjásetu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Sannarlega hefði ég valið að hún hefði kosið gegn tillögu ríkisstjórnarinnar en hún færði rök fyrir afstöðu sinni og hefur rétt á henni. Hjáseta á þingi er ekki afstöðuleysi. Hér má til dæmis sjá hjásetur Péturs H. Blöndal, Ingibjargar Sólrúnar og Steingríms Joð, svo þrír skoðanalausir þingmenn séu nefndir.
Varaformaðurinn studdi tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og var því í engu í andstöðu við samþykktir landsfundar.
Það sem mér finnst umhugsunarvert er ákveðið óþol sumra Sjálfstæðismanna gagnvart afstöðu varaformannsins og sem sjá má í bloggum og athugasemdum á netinu.
Mínir ágætu flokksfélagar ættu að fara mjög varlega að gera afstöðu gagnvart ESB að prófsteini í Sjálfstæðismennsku Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða mónótónískur eins máls flokkur, einhverskonar spegilmynd Samfylkingarinnar.
Vítin eru ótalmörg til að varast. Hér í Virginíu-ríki er stutt síðan Repúblikanar réðu öllu sem máli skiptir og menn þar innan dyra tóku upp á því að skilgreina hvað væri raunverulegur Repúblikani. Skemmst er frá því að segja að demókratar eiga nú báða öldungadeildarþingmenn ríkisins, helming þingmanna ríkisins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, meirihluta í öldungadeild ríkisþingsins, eru í sókn í hinni þingdeild ríkisþingsins og vantar lítið upp á að ná meirihluta og demókrati hefur vermt ríkisstjórastólinn frá árinu 2000. Samt þráast Repúblikanar við og segja að hinn eða þessi séu ekki raunverulegir repúblikanar því þeir styðja rétt kvenna til fóstureyðinga.
Repúblikanar hér í Virginínu hafa dæmt sig til áhrifaleysis á altari rétttrúnaðar. Það væri afleitt ef sjálfstæðismenn legðu á sömu braut.
Það var styrkur Davíðs Oddssonar sem formanns að hann gætti að ólíkum hagsmunum í Sjálfstæðisflokknum. Mér er t.d. mjög minnisstætt atvik á landsfundi fyrir nokkrum árum þegar við sem þá vorum í Sus vorum við það að ná í lið með okkur, meirihlutar salarins í atkvæðagreiðslu um landbúnaðarmál. Davíð stóð þá upp og talaði gegn hugmyndum okkar frjálshyggjumanna og þar við sat. Orð þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins vógu nokkuð mikið þyngra í rökræðunni en okkar ungliðanna. Hann vissi að flokkurinn er meira en einsmálsflokkur og ef hann á að dafna og halda áfram að vera hreyfiafl íslenskra stjórnmála, þarf hann að rúma ólík sjónarmið. Bæði frjálshyggjumanna og miðsæknari hægrimanna.
Ég hvika hvergi í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB. En varaformaður Sjálfstæðisflokksins var kosinn með yfirburðum á landsfundi fyrir tæpum 4 mánuðum. Það hefur ekkert gerst sem gefur tilefni til að breyta því.
Bridge-spilarar vita að pass er sögn sem getur haft strategíska merkingu.
Sjálfstæðismenn ættu að einbeita sér að andstæðingum flokksins og þeim voða sem þeir stefna þjóðinni í með Iceslave-lausn Svavars Gestssonar.
-----------
Eftir langt hlé er ég að skoða það að virkja aftur moggablogið. Það mistókst augljóslega að halda úti tveimur bloggum. Nákvæmlega hvernig ég geri það ætla ég að finna út úr á næstunni.
mbk
Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Af hverju er Rúv svona lélegt?
ég er búinn að vera að reyna að fylgjast með útvarpinu í gegnum podcast eða hlaðvarp eins og rúv er að reyna að kalla fyrirbærið líka.
Rúv segist bjóða upp á daglegar uppfærslur af þáttum eins og hádegisfréttum, morgunvaktinni og Speglinum. Fréttirnar detta nú alltaf inn að lokum, morgunvaktinni er mjög vel viðhaldið en Spegillinn er í tómu rugli. Síðasti þátturinn sem er á vefnum er frá 30. október.
Af örðum þáttum má nefna þátt eins og Vikulokin sem var síðast uppfærður 26. september.
Að auki virðist efnið detta inn með tilviljanakenndum hætt, ég skil ekki verklagið að baki.
Með podcasti ætti allt efni rúv bæði útvarp og sjónvarp, að vera til og eins langt og heimildir ná.
Þessi stofnun er soldið eftirá.