Laugardagsþátturinn

Laugardagsþátturinn á morgun kl. 13 verður m.a. tilkeinkaður umfjöllun um bandarísk stjórnmál. Ég legg þar eitt eða tvö orð í belg. Vonandi verður þetta áhugaverður þáttur.

 

lk_monkeyback_500


Lausnin er fundin... ísl-enskt hugvit.

Í framhaldi af síðasta fýlukasti yfir ofbeldi höfundarréttarhafa gagnvart viðskiptavinum sínum fékk ég póst frá gömlum kunningja sem búsettur er í London. 

streamburstHann hefur ásamt félögum sínum í fyrirtækinu Streamburst búið til nýja tegund afritunarvarnar sem þeir kalla "Forensic DRM"  Þar eru engar læsingar á efninu sem þeir selja en þeir setja ósýnilegt "vatnsmerki" á hljóð og myndrásir sem tengir kaupandann við efnið. Þá  birtist í upphafi myndskráa  5 sekúndna skilaboð um hver keypti skránna.

Þeir treysta kaupandanum til að fara skynsamlega með efnið, en ef 100 þúsund eintök birtast einhverstaðar á netinu þá er hægt að sjá hver keypti skránna í upphafi.

Þetta er nákvæmlega það sem maður vill sjá. Málin hafa aðeins skánað að mér skilst heima með því að tónlist.is er farin að selja óvarið efni. Áður var fyrirkomulagið þannig að ég gat ekki deilt tónlist sem ég keypti með konunni minni! Þannig er það enn víða.

Hér má sjá grein um Streamburst sem segir sögu þeirra.

Ég hef engan áhuga á stolnu P2P efni, prófaði Napster á sínum tíma en ef ég fæ að kaupa efni á heiðarlegan hátt þá kýs ég það eins og flestir gera. En það er óþolandi að höfundarétthafar skuli alltaf koma fram við mann sem viðskiptaóvin.

Ég hef enga samúð með STEF og SH, þær peningamyllur velta hundruð milljóna sem berast svo ekki til þeirra sem helst eiga það skilið.

 

PS. 
Að lokum verð ég aftur að benda á Söngva af sviði á Rás 1, snilldarþættir í umsjón Viðars Eggertssonar.


Skífan - Þú skuldar

Það er að rifjast upp fyrir mér hvað afritunarvörn er mikill þjófnaður. Vegna útilegu er ég orðinn meiri neytandi íslenskrar tónlistar en áður og var að setja inn á tölvuna nokkra gamla og góða diska sem ég hef ekki hlustað á lengi þegar ég lenti á XXX Rottweiler - Þú skuldar. Sá diskur er þeim kostum búinn að það er ekki hægt að spila hann í tölvum, mig minnir að vísu að það hafi verið til einhver fiff til að redda því en ég nenni ekki að spá í það.

Inn í umslaginu er skrifað að vilji maður hlusta á diskinn í tölvu þá eigi maður að fara inn á slóðina http://www.skifan.is/download og slá inn lykilorð sem er aftan á umslaginu. Slóðin er auðvitað dauð núna þannig að ég sit líklega eftir með sárt ennið og þó.. 

Ég sótti aldrei þessa tónlist á sínum tíma og lít svo á að Skífan er að svíkja samning með því að hafa slóðina ekki uppi. 

Hver er skylda Skífunnar til að standa við þennan samning sem þeir gera við sína viðskiptavini? Ég veit að hér vestra gæti ég farið með þá beint inn í dómssal og náð amk fram vörunni sem ég keypti ef ekki líka skaðabótum vegna sálræns skaða.

En ég er forvitinn, hver er skylda Skífunnar samkvæmt íslenskum lögum til að standa við loforð sem þetta? NB því eru engin tímatakmörk. 

Hver er staðan með alla þessa diska sem Skífan seldi með afritunarvörn? Verður fólk að sætta sig við það að geta einungis spilað tónlistina sem það keypti einungis í geislaspilara af ákv. tegund.

Ég held að svar Skífunnar verði að benda mér á að kaupa tónlistina öðru sinni á tonlist.is


Til hvers eru menn í pólitík?

Hvað segir maður um þingmann sem er fyrsti flutningsmaður 16 frumvarpa á síðasta kjörtímabili og þar af 4 sinnum um sama málefni? Á hverju þingi lagði hann fram frumvarp um þetta hugðarefni sitt, það er fjórðung allra frumvarpa sem þingmaðurinn hefur lagt fram í eigin nafni.

Er ekki hægt að segja óhikað, að málið sé viðkomandi þingmanni hjartans mál?

En hvað á maður svo að halda, ef sami þingmaður verður ráðherra og lætur það verða eitt sitt fyrsta verk að gefa það út að hann ætli ekki að beita sér fyrir viðkomandi máli?

Er rökrétt að draga þá ályktun stjórnmálamaðurinn hugsjónalaus eiginhagsmunapotari sem er bara í pólitík fyrir eigið egó?

 

Hér vestra eru bíla- og tryggingasalar taldir meðal síðustu sorta. Þeir vita kannski eitthvað meira en margur heldur, þessir kanar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband