Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Merkilegt.

Það er ótrúleg stefnubreyting frá því sem var fyrir Heimdall, að aðalfundur skuli samþykkja að fulltrúar Heimdallar á þing Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldið verður á næsta ári, skildu valdir á félagsfundi en ekki af stjórn félagsins.  Þetta er ein merkilegasta ungliðapólitíkur frétt sem ég hef séð í langa hríð. Slagurinn um Heimdall snýst mikið til um þetta fulltrúaval. Erla Ósk vinnur slaginn og losar sig svo strax við sitt helsta valdatól. Merkilegt, ég átti eitt sinn samtal við Kjartan Gunnarsson (maður á auðvitað ekki að segja frá prívat samtölum en ég er viss um að hann uni mér þetta.) þar sem hann lagði til þessa lausn, til að leysa Heimdall undan helju sífelldra átaka. Mér finnst Erla maður að meiri að hafa lagt í þetta.

Merkilegt. 


mbl.is Aðalfundi Heimdallar lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um árásir...

Það er skrítið komment í bloggi Össurar í gær (sem andriki.is segir hann hafa af örlæti sínu kennt við keppinautana í formannskjöri Samfylkingarinar, www.ossur.hexia.net.)

Einhvern veginn setur Guðna sig jafnan í þannig stöðu í Framsókn að formenn taka ekki mark á honum. Hvorki Jón né forveri hans Halldór telja skipta máli að tala við hann. Menn geta pælt í af hverju. Sjálfur er ég of kurteis til að skrifa það svart á hvítu. Guðni hefur þó tilfinningagreindina í lagi og honum sárnar að vera settur í öllum málum út á frerann einsog flöskubrot.

Er það bara ég eða er hann að segja landbúnaðarráðherra vitgrannan? Það er oft gaman að Össuri og ósvífni hans en er þetta ekki fulllangt gengið? Hann segist of kurteis til að skrifa það svart á hvítu en undir rós segir hann Guðna heimskan! 

 

 


Ómakleg árás

Arnar Þór Stefánsson lögfræðingur, ræðst á formann Sjálfstæðisflokksins með frekar ómaklegum hætti á Deiglunni í gær. Í grein sem hann kallar "Að þekkja sinn vitjunartíma í pólitík" gerir hann kröfu um að þeir þingmenn sem komu inn á þing 1991 eða fyrr þekki sinn vitjunartíma, standi upp og hætti.

Höfundur þessa pistilis er þeirrar skoðunar að almennt séð séu 16 ár á þingi feykinógur tími til setu þar. Á þeim tíma geti þingmenn, þó einkum stjórnarþingmenn, komið mörgu því til leiðar sem þeir hafa sannfæringu fyrir, að minnsta kosti meginlínum í þeirri sannfæringu. Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem komu inn á þing árið 1991 eða fyrr hafa til að mynda haft öll tækifæri í þessum efnum og nýtt þau reyndar býsna vel. Nú er hins vegar að mati pistilshöfundar komið að leiðarlokum.

Þarna er ómaklega vegið að formanni Sjálfstæðisflokksins en hann hefur eins og allir þekkja, setið lengst sjálfstæðismanna sem hyggjast sitja áfram. Geir kom inn á þing 1987. Af stjórnarþingmönnum hafa einungis hann, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir setið síðan þá. Nú má vera að Arnar sé að beina orðum sínum að Guðna og Valgerði en þar sem hann kvartar undan því að þurfa að kjósa þaulsetið fólk í prófkjörum, þá held ég að hann sé að beina þessari ósk sinni til eigin flokksmanna. Þar hittir hann fastast fyrir formann flokksins. En Arnari finnst ekki nóg að velta formanninum. Hann vill líka slá af fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, samgönguráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá vill hann losna við fyrrverandi umhverfisráðherra og formann samgöngunefndar útaf þingi. Arnar er ekki að boða endurnýjun heldur hallarbyltingu!

Það er erfitt að segja hver ásetningur Arnars er. Arnar er úr Mosfellssveit og því er Brútusarlag hans gegn þingmanni heimabæjarins eftirtektarvert. 

Lokaorð greinar Arnars eru:

Þaulseta er ekki göfug hvort sem er í veislum eða á Alþingi. Það er almenn kurteisi að standa upp úr sætum sínum fyrir nýju fólki þegar menn hafa setið að borðum alltof lengi. Þessari kurteisi er almennt ekki fyrir að fara í nægjanlegum mæli hjá þeim þingmönnum sem komu inn á Alþingi vorið 1991 eða fyrr. Að þekkja sinn vitjunartíma er góður eiginleiki í pólitík sem öðru.

Það væri sniðugt fyrir Arnar að senda grein sína beint á viðkomandi aðila í stað þess að vega að þeim á vefnum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu inn á þing 1991 eða fyrr eru: Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Geir H. Haarde, Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður A. Þórðardóttir, og Sturla Böðvarsson.

Krafa Arnars nú, er líka krafa um að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hætti afskiptum af pólitík eftir 8 ár, þá verður hún fimmtug. Guðlaugur Þór, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári  hætti á þingi ekki síðar en eftir 12 ár en þá verða þeir tveir fyrrnefndu um fimmtugt og Sigurður 45 ára, öllsömul greinilega "over the hill".

Það er ekki árafjöldinn sem ræður erindi manna heldur spurningin hvort viðkomandi stjórnmálamaður hafi sýn og markmið, hvort hann eigi hugsjónir og hugmyndir sem eiga erindi inn í sali alþingis. Það má vera að einhverjir þingmenn missi erindi sitt á 16 árum en sumir missa það enn fyrr. Það er sérstaklega sárt að sjá menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera málsvarar einkaframtaks og frjálshyggju ausa úr sjóðum almennings um leið og þeir komast í aðstöðu til þess. Svoleiðis stjórnmálamenn missa erindi sitt strax og þeir svíkja hugsjónir sínar og þurfa engin 16 ár til.


Ljómandi gott framboð

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að UBK er komin í framboð. Ég er viss um að eftirspurnin verði nægjanleg til að hún nái markmiðinu.  Við Unnur vorum starfmenns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í þingkosningunum 1999 og ég hef þekkt hana síðan þá. Hún er traust og dugleg, við áttum ekki samleið innan Sus en fyrir því hin einfalda ástæða að við völdum okkur ólíka vini.

Það er alltaf gott að sjá gott fólk taka slaginn. 

Ég ætla að spá því að sveitastjórinn og sýslumannsfrúin nái sæti sínu og verði fyrsti varaþingmaður kjördæmisins næsta kjörtímabil. Ef hún dettur ekki inn á tímabilinu þá verði hún kjörin á þing árið 2011.

Þið lásuð það hér, UBK verður annar eða þriðji þingmaður sjálfstæðisflokksins 2011 og ráðherra 2015!  


mbl.is Unnur Brá Konráðsdóttir sækist eftir 5. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atli Gíslason hrl.

Ég veit ekki alveg hvað er með þann mann. Í frétt FBl í morgun þar sem fjallað er um meint og mögulega hryðjuverkamenn kemur hann með skrítnustu kenningu dagsins.

"Atli Gíslason hrl. segir að almenningur sé virkastur til eftirlits með málum af þessu tagi og engin þörf sé fyrir sérstaka öryggisdeild."

Hann var gestur í Pressuni í sumar ásamt mér þar sem hann hélt því fram að 11. september hefðu verið viðbrögð við árásarstríði Bandaríkjanna í Afganistan! Atli hefur einfalda sýn, allt er Bandaríkjamönnum að kenna, alltaf og allir þeir sem ljá máls á aukinni löggæslu og öryggismálum eru fasistar.  

Ef við útvíkkum tilvitnaða kenningu Atla  þá er engin þörf á lögreglu heldur, því almenningur er virkastur til eftirlits. Það er kannski þannig í hugarheim Atla að best er almenningur fylgist alltaf með öllu. En ég vil frekar að sérþjálfað fólk gæti öryggis. Ég held reyndar að þetta sé allt rökrétt hjá lögmanninum, stjórnmálin sem hann stundar eru svona öfundarpólitík sem byggist á því að passa alltaf að næsti maður sé örugglega ekki með meira en hinn.  Þegar maður eyðir ævinni í að fylgjast með nágrönnunum þá er skrefið yfir í öryggisgæslu almmennings ekki langt.

 

Kannski er Atli bara gluggagægir?


Ansans ári

Fyrsti aðalfundur Hd. í áraraðir sem ég mæti ekki á og hann er sá langfjölmennasti. Um leið og ég hætti í félaginu þá flykkist að fólk. Eru þetta skilaboð?

 

Ég vonaði að Heiðrún hefði þetta, þekki hana vel og finnst mikið til koma.  690 atkvæði er góður árangur, fyrir 4 árum var mikill fundur haldinn þar sem manni fannst nóg um þar mættu í heildina  rúmlega 700 manns. En þetta dugði ekki til.

Erla Ósk sem vann slaginn er ágæt, hún hefur starfað lengi meðal ungra Sjálfstæðismanna og ég hef mjög lítið upp á hana að klaga, finnst helst hún ekki vönd að vinum en það er smekksatriði. 

Þetta var vonandi síðasti Hd. slagurinn sem ég hef einhver afskipti af. Sjáum til.

 


mbl.is Erla Ósk kjörin formaður Heimdallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

sækist líka eftir eftir örðu sætinu

Ég held að það þurfi að skoða eitthvað meira hjá NFS en reksturinn. Þessi frétt á visi punkt is er mögnuð.

Sækist eftir 2. sæti

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, sem skipar sjötta sæti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, ætlar að sækjast eftir öðru sæti á listanum[öðru en hann var í, já], fyrir þingkosningarnar í vor. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem verið hefur í þriðja sæti, sækist líka eftir eftir örðu sætinu, þar sem Davíð Oddsson er ekki lengur í fyrsta sæti og Geir H. Haarde hefur flust upp í það. Ríkissjónvarpið greindi frá áformum Guðlaugs í gærkvöldi og í farmhaldi af því segir Björn á heimasíðu sinni að það sé engin nýlunda að fleiri sækist eftir sama sæti og hann í prófkjöri. Hinsvegar hafi hann ekki boðið sig fram gegn neinum samflokksmanna sinna, enda telji hann samstöðu innan flokka best fallna til sigurs.

 

Skítt með óskammfeilni frambjóðandans, vanþekking blaðamannsins á íslensku máli og stafsetningu er sláandi.

Þessi frétt varpar auðvitað ljósi á það afhverju Gulli Þór varð að fá stjórnarformennsku í Orkuveitunni, þótt ekki væri í nema eitt ár. Hann er núna búinn að gefa 100 milljóninr af okkar peningum í háskólasjóð, því til viðbótar er búið að lofa hálfu prósenti af tekjum OR árlega. Skítt með hlutverk Orkuveitunnar, það er prófkjör og þetta er gott fyrir ímyndina.  Ég verð að vona að árið klárist hratt og hann komist ekki í stærri sjóði síðar. Við höfum ekki efni á því. Það var gott að losna við Alfreð, verra að fá í staðinn Gulfreð.


Tilviljun?

blat framboð

Inni á fyrri myndinni er starfsmaður markaðssviðs Landsbankans í framboði. Á þeirri síðari eru afurðir sama markaðssviðs. Er það tilviljun að settið er alveg eins? Kannski, kannski ekki. Maður veit ekki.

Kannski á maður ekki að benda á svona tilviljanir, þetta verður örugglega flokkað sem skítkast eða eitthvað álíka. A.m.k. mjög ómálefnalegt. 


Fleiri myndir

Ljómandi gott framboð og flott heimasíða

og svo vonum við að eftirspurnin verði í samræmi við gott framboð. Heimasíðan er flott. www.dallurinn .is

Mér líst mjög vel á Heiðrúnu hún er frábær. Ákkúrat manneskjan til að rífa dallinn upp úr þeim doða og áhugaleysi sem hefur einkennt félagið undanfarið ár.


mbl.is Heiðrún Lind gefur kost á sér til formennsku í Heimdalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta Thai matinn...

ChickenBasil

sem ég hef fengið í langan tíma er að finna á Lynhálsi 4. Þar er nýr Thai staður sem hefur verið opinn í tæpar tvær vikur. Hann er ekki í alfaraleið fyrir siðmenntað fólk en við hjónin vorum að sækja blöndunartæki þarna uppeftir um hádegisbilið þegar við römbuðum þangað inn. Nafnið á staðnum er stolið úr mér, Thai-eitthvað! En maturinn var alveg til fyrirmyndar, hráefnið, sérstaklega grænmetið var ferskt og gott, sósurnar ekki of sætar eða þykkar eins og oft hættir til. Liz fékk sér kjúkling í basil og ég kjúkling með kasjúhnetum. Kjúklingurinn í rétti Liz var kurlaður sem var spes en mjög gott. Myndin er mjög lík réttinum sem við fengum. 

Svo var verðið til fyrirmyndar, réttir af matseðli voru flestir ef ekki allir undir 1000 kr. Það er svo hressandi að geta keypt sér mat fyrir tvo og borga minna en 2000 krónur fyrir.

Ef bensínið heldur áfram að lækka þá gæti það borgað sig að gera sér aftur ferð þangað uppeftir.  Ég ætla amk. að reyna að tímasetja framtíðarferðir þangað uppeftir við matmálstíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband