Lausn á leikskólavandanum skiptir öllu

Þessi grein birtist í prentmogganum í gær. Ég birti hana einnig hér til vörslu og einnig til fá athugasemdir ef einhverjum svo sýnist að gera. 

-------------- 

Lætin vegna myndunar nýs meirihluta í borginni eru vonandi í rénun og við getum farið að líta á það sem skiptir máli, stjórnun borgarinnar. Þrátt fyrir ánægju með að stjarfastjórn Dags sé horfin er hamingjan með nýja meirihlutann ekki hrein og tær. Næstu mánuðir skipta öllu máli um hvernig honum reiðir af, þótt tvö og hálft ár sé til næstu kosninga munu næstu mánuðir ráða miklu. Það hve fljótur nýi meirihlutinn er að ná vopnum sínum og hvaða árangri hann nær á fyrstu starfsdögum sínum mun ráða miklu fyrir síðasta starfsárið.

Með ákvörðun í Laugavegsmálinu er tónninn gefinn og á fleiri sviðum en forystumenn nýja meirihlutans átta sig á. Stóra málið sem brennur á barnafólki í borginni eru leikskólamálin. Þau eru langmikilvægasta úrlausnarefni nýja meirihlutans. Það er tómt mál að tala um verndun húsa, almenningssamgöngur og mislæg gatnamót ef fólk getur ekki unnið vegna þess að börnin komast ekki á leikskóla eða eru send heim um miðjan dag.

Önnur mál eru aukaatriði. Ef nýi meirihlutinn getur leyst leikskólamálin á næstu 6 mánuðum þá á hann von í næstu kosningum. Kjósendur eru ekki fífl. Þeir muna eftir því að komast ekki út á vinnumarkað eftir fæðingarorlof vegna skorts á leikskólaplássi, vinir og vandamenn muna líka. Þeir muna eftir því að þurfa að fara ítrekað heim úr vinnu vegna manneklu.

Leikskólamálin léku stórt hlutverk þegar Sjálfstæðisflokkurinn tapaði kosningunum 1994, þá voru arkitektar nýja samstarfsins, þeir Ólafur, Vilhjálmur og Kjartan allir á lista Sjálfstæðisflokksins. Þeim ætti því að vera í fersku minni hve mikilvægur þessi málaflokkur er.

Á meðan ástandið er eins og það er þá er hugmyndin um gjaldfrjálsan leikskóla merkingarlaust blaður, önnur mál skipta meiru. Það þarf að fjölga leikskólakennurum og einkareknum leikskólum, það mun hins vegar kosta peninga. 500 milljónirnar sem fóru í húsin á Laugavegi hefðu komið sér vel. Vonandi tekur nýr borgarstjóri betur á málunum en þeir sem á undan honum gengu.

Birt í prentmogganum 3. febrúar 2008 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Ég las þessa grein hjá þér og klippti hana út. Ég ætla að fá að vitna í hana síðar. Þetta er allt 100% rétt hjá þér. það eru alltof margir sem gleyma mikilvægi grunnþjónustu í Reykjavík.

Halla Rut , 4.2.2008 kl. 14:26

2 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Tek undir með þér í þessari grein. Samfélagið okkar er sett saman úr mörgum mismunandi tannhjólum, misstórum og mismikilvægum. En ef eitt tannhjólið virkar ekki þá virkar vélin ekki.

Keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn!

Magnús V. Skúlason, 4.2.2008 kl. 15:24

3 identicon

Heyr, heyr ef það eru ekki til peningar í leikskólamálin þá eru ekki til peningar í neitt annað, hvað þá gamla hundakofa á Laugaveginum.

Ég hef oft velt fyrir mér þessum loforðum um ókeypis leikskóla, hvers vegna er ekki hægt að halda gjaldinu óbreyttu og láta féð (sem borgin má greinilega missa af) renna til leikskólakennara.
Ég hef nefnilega ekki heyrt háværar raddir frá foreldrum leikskólabarna að heimta frítt pláss.

Ég veit að ég er fullkomlega sáttur við að greiða 22.000 kr. á mán fyrir þessa þjónustu, ég vil bara að hún sé í lagi.

Steinn

Steinn Sig (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 15:47

4 identicon

Sammála ykkur Það er alger óþarfi að hafa frítt leikskólapláss þvílíka vitleysan. Væri nær að hafa  ódýrara fyrir alla ef peningur er til (sem ég held nú ekki) Eins þarf að hætta að troða börnum endalaust inn á leikskólana til þess eins að bæjarstjórnir geti státað að tómum biðlistum í sínu bæjarfélagi.  Fólk er hreinlega löngu búið að gefast upp á þessu starfi þar sem álagið er gífurlegt og fólk að vinna með blessuðum börnunum sem ættu svo innilega að vera að gera eitthvað allt allt annað. Leikskólakennarar sem slíkir eru svo sem ekkert mjög illa staddir þó að gaman væri að vera með mun hærri laun og svipuð þeim sem gerist í öðrum löndum en aftur þurfa leikskólar á ófaglærðu fólki að halda og það helst ekki í þessari annars krefjandi vinnu á þeim launum sem það hefur  í dag.  Væri gaman að sjá ráðamenn lifa á undir 100.000 á mánuði í útbörguðum launum.  í Ljósi þess hve allt er dýrt í dag.Ég er leikskólakennari með sterkar skoðanir á leikskólakerfinu og reynsluna af að vinna undir slíku álagi og vitleysu.

 OG ég ætla nú ekki að fara út í þá sálma með kofana á Laugarveginum það er nú fáránlegt að ekki megi rífa þessa löngu ónýtu bjálka.  Vááá´hvað þetta er mikil vitleysa að fara svona með skattpeningana okkar.

Óskin (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 20:37

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það sem gerir málið flókið er að það verður að myndast sátt um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leikskólakennarar fái verulega launahækkun án þess að hún birtist í hærri kröfum annarra hópa í komandi kjarasamningum.  

Ástæða þess að ASÍ vill stutta samninga er sú að í haust eru kjarasamningar kennara og leikskólakennara lausir og stjórnmálamenn tala nú fjálglega um það hvað þurfi að hækka þessa hópa mikið, s.b. Þorgerður Katrín í vikunni á fundinum í Valhöll.  Hin félögin vilja síðan koma eftir ár og biðja um það sama.

Það sem gerir þetta flókið er að verði þessir hópar hækkaðir eins og þörf er á koma aðrir og biðja um það sama, ófaglærðar umönnunarstéttir, hjúkrunarfræðingar, löggan og fleiri hópar.  Samanlagt þúsundir og jafnvel tugþúsundir manna sem mun hafa veruleg áhrif á verðbólgu og eyðileggja hækkun leikskólakennaranna.

Önnur spurning er hvort t.d. starfsmat Reykjavíkurborgar sé þar með þegar sprungið ef hætta á að greiða hópum eftir starfsmatsstigum og hækka einn eða tvo hópa mikið meira en aðra.  Kannski.  Það voru þá ekki langir lífdagar.

Verkalýðshreyfingin verður að stíga fram og segja, "Ok, við hin bíðum og hækkum lítið í þessum samningum til þess að hleypa þessum tiltekna hópi/hópum framfyrir okkur".  Slíkt hefur hins vegar ekkert gerst.  Verkalýðshreyfingin er þvert á móti að bíða eftir að geta stokkið á bráðina.  Á meðan svo er mun ekkert af viti gerast í þessum málum.  Því miður.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.2.2008 kl. 23:05

6 Smámynd: Halla Rut

Það þarf að verða þjóðarsátt um hækkun launa til starfsfólks á leikskólum.

Halla Rut , 5.2.2008 kl. 01:33

7 Smámynd: Elías Theódórsson

Af hverju eiga heimavinnandi foreldrar að sitja eftir með engin laun fyrir að ala upp sín börn án leikskóla? Ef ég el mín börn sjálfur fæ ég ekkert fyrir en ef ég ræð mig á leikskóla og tek börnin með kostar það samfélagið nokkrar miljónir á ári!

Elías Theódórsson, 5.2.2008 kl. 10:33

8 identicon

Veit athugasemdafólk á þessari síðu að heildartekjur grunnskólakennara t.d. í Reykjavík, á ári,  er ca. 300 þúsund lægra en leikskólakennara? Er einhver tilbúinn að hrekja þetta?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:25

9 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

Launahækkun leikskólakennara er ekki töfralausn, það þarf fleiri leikskóla sérstaklega þarf fleiri einkarekna leikskóla. Eins þarf að auðvelda dagmæðrum að bjóða þjónustu sína. Það eru þrjár dagmæður í 101 og þar af tvær saman, þannig að staðir í 101 eru tveir. Það eru mjög takmarkaðir valkostir fyrir foreldra á svæðinu.

Hugmyndir um að leyfa fyrirtækjum að reka leikskóla fyrir starfsmenn eru mjög góðar og líklegar til að leysa hluta vandans. Vinstri menn hafa að vísu allt á hornum sér varðandi þá hugmynd enda koma afturhaldskommatilhneigingar Samfylkingarinnar alltaf í ljós á endanum. 

Friðjón R. Friðjónsson, 5.2.2008 kl. 11:41

10 identicon

Heitir þetta málefnaleg umræða Friðjón. Heitir þetta að taka andstæðinginn út með afturhurðinni og helst að hrækja. Hér á Akureyri er Hólmasól sem er rekin í anda Hjallastefnunnar. Láttu af svona Heimdallarstælum. Þú þarft þess ekki enda margt annað gott í þér.

Það er ekkert sem bannar einkarekna leikskóla. Hvorki samkvæmt núverandi lögum eða frumvarpi. Sjálfur tók ég þátt í einum slíkum í Árbæ forðum. Hvaða hugmyndir telur þú að muni auðvelda dagmæðrum að auðvelda þjónustu sína? Það væri fróðlegt að vita. Hver er töfralausn fyrir leikskólakennara? Einkareknir leikskólar? Gerir þú þá ráð fyrir að kjör þeirra séu þar hærri? Hverjir borga það?

Þú værir svo vænn að svara þessu enda tel ég að ég hafi sett þessar spurningar fram á málefnalegan hátt án þess að uppnefna neinn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:59

11 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

Gísli
Ég er að vísa til viðbragða samfylkingarfólks hér í Reykjavík við nýjum hugmyndum í leikskólamálum. Ef hugmyndin er ekki bara meira og meira skattfé þá þykja þær arfavondar. Hraktist Margrét Pála ekki til Garðabæjar því hún fékk engan hljómgrunn fyrir hugmyndir sínar í Reykjavík í tíð R-listans?

Hvað dagmæður varðar þá má rýmka reglugerð félagsmálaráðuneytisins um daggæslu barna í heimahúsum. Bann nema í undantekningartilvikum við því að dagmæður leigi sér aðstöðu undir þjónustuna mætti til dæmis afnema. Eins er reglan um að einungis tveir dagforeldrar megi starfa saman en ekki fleiri íþyngjandi og án raka. 

Ég hef ekki töfralausn fyrir leikskólakennara og ég veit að það er ekkert sem bannar einkarekna leikskóla, hitt veit ég að R-listinn beitti sér gegn einkareknum leikskólum ef leikskóli í eigu borgarinnar var í nágrenninu. Það hef ég frá rekstraaðila leikskóla sem hætti fyrir nokkrum árum. Um leið og borgarleikskóli var komið í hverfið varð allt viðmót borgarinnar annað og erfiðara.

Hvað kjör á einkareknum skólum varðar þá er það ekkert víst að kjör kennarana yrðu betri en það þyðir ekki að það megi ekki reyna. Reyndar minnir mig að í umræðunni um leikskólavandann fyrir 2 árum þegar Steinunn Valdís var borgarstjóri þá hafi eiknareknu skólarnir verið betur mannaðir.

Ég borga um 70 þús krónur á mánuði fyrir leikskóla dóttur minnar hér úti og mér finnst þeim peningum mjög vel varið. Við fáum daglega miða með yfirliti yfir hvað dóttir okkar gerði þann daginn. Vikulega berst okkur svo tölvupóstur um það sem hefur verið í gangi í vikunni og hvað er framundan. Hún er 4 og hálfs og hún er að verða læs, hún kann að telja og leggja saman. Hún lærir um ókunn lönd og menningu þeirra og mennigu Bandaríkjanna og sögu.  Við borgum og fáum eitthvað fyrir peninginn. Við vitum vel hvað hún er að gera í skólanum allan daginn. Heima fannst mér tilhenigingin til að skutla krökkunum út til að leika klukkustundum saman í sandkassanum alltof rík. 

Friðjón R. Friðjónsson, 5.2.2008 kl. 14:23

12 Smámynd: Elías Theódórsson

Aukið frelsi í leikskólamálum er nauðsynlegt. Einnig ætti að umbuna heimavinnandi foreldrum sem nota ekki leikskóla.

Elías Theódórsson, 5.2.2008 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband