Hjá Demókrötum:
Obama, Edwards og Hillary eru í sérflokki, aðrir frambjóðendur skipta ekki máli nema að litlu leyti. Stuðningsmenn Obama eru yngri og karlkyns en Hillary nýtur stuðnings eldra fólks og kvenna, Edwards nýtur þess að stuðningsmenn hans hafa frekar tekið þátt áður og eru taldir líklegri til að mæta á kjörstað. Reglurnar í Iowa eru þannig að ef frambjóðandi nær ekki 15% þá eiga stuðningsmenn þess frambjóðanda sér annan valkost. Það mun frekar nýtast Obama og Edwards, því Hillary er einskins annar valkostur. Dennis Kucinich hefur hvatt sína stuðningsmenn (alla þrjá!) til að styðja Obama sem annan valkost og orðrómur er um einhverskonar samning milli Obama og Joe Biden, framboð beggja þverneita auðvitað. Des Moines Register sem þykir vera með áreiðanlegustu kannanirnar í Iowa birti á gamlárdag könnun þar sem Obama var með 32%, Hillary 25% og Edwards 24%.
Það er mjög mikilvægt fyrir Obama að vinna og fyrir Edwards að vera í tveim efstu sætunum, Hillary þolir að lenda í því þriðja þótt það yrði mikið áfall fyrir hana. Þau munu þó öll halda áfram út janúar nema eitthver þeirra verði fyrir afhroði í einhverjum þeirra fylkja sem kosið er í jan. Fylkin eru eftirtalin: Iowa, New Hampshire, Michigan, Nevada, Suður Karólína og Flórída.
Ég spái því að Chris Dodd hætti eftir daginn í dag og kannski Joe Biden það veltur á því hvar í röðinni þeir enda, Bill Richardson hangir líklega fram til 19. Jan þegar kosið verður í Nevada, en hann er fylkisstjóri í nágrannafylkinu New Mexico. Það veit enginn hve lengi Kucinich þráast við.
Hjá Repúblikunum:
Huckabee og Romney slást um fyrsta sætið, Romney lýsti því þó yfir fyrr í dag að annað sætið væri ásættanlegt fyrir hann. Sigur er nauðsynlegur fyrir Huckabee. Slagurinn um þriðja sætið er milli Thompson og John McCain, þriðja væri gott fyrir McCain en er naðusynlegt fyrir Thompson. Ron Paul gæti náð fjórða sæti en líklega endar hann fimmti og svo Rudy Giuliani og Duncan Hunter. Rudy tekur ekki þátt í Iowa. Að öllum líkindum grisjar Iowa ekki hópinn hjá Repúblikunum að neinu ráði, kannski hættir Thompson ef hann nær ekki þriðja sætinu.
Það eru spennandi klukkustundir og dagar fyrir dyrum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.