Miðvikudagur, 19. september 2007
Barónsbúð
Þeir eiga þakkir skildar Samson-feðgar. Þeir eru einir síns liðs að bjarga miðbænum. Allt tal stjórnmálamanna í gegnum tíðina hvað eigi að gera hefur reynst innantómt þvaður. Muna menn ekki eftir skilgreiningu fyrrverandi borgarstjóra á því að miðbærinn er upplifunarsamfélag? Ég skrapp heim um daginn og þvílík upplifun, miðbærinn er viðurstyggilega skítugur. Núverandi meirihluta hefur algjörlega mistekist að taka til, það eru tyggjóklessur allsstaðar , ég gekk fram á þrjú hálftóm (eða hálffull) bjórglös á Laugarveginum á mánudagseftirmiðdegi.
Ég fór að velta því fyrir mér hvernig það passar að hér í D.C. býr hálf milljón manna og 8 milljónir á því sem kalla mætti höfuðborgarsvæðið en á höfuðborgarsvæði Íslands búa tæp 200 þús. manns. Samt er miðborg höfuðborgar Bandaríkjanna snyrtileg og hrein. Þar eru starfmenn borgarinnar á ferli og passa uppá að allt sé snyrtilegt, en það sem meira er það dettur engum í hug að hrækja út úr sér tyggjóklessu á gangstéttina.
Mér fannst það virkilega sorglegt að sjá hvernig borgin leit út. Það eru ekki nema 6 mánuðir síðan við fluttum úr miðbænum til Ameríku og kannski var þetta svona slæmt þá líka. En það var sjokk að koma heim í skítinn. Það eru gettó hér í Ameríku sem eru snyrtilegri en miðbærinn.
Núverandi meirihluti þarf að bretta upp ermarnar, þetta snýst ekki um opnunartíma veitingastaða eða reykingarbann heldur virðingu fyrir öðru fólki og eignum þeirra. Þar þarf borgin að sýna fordæmi og taka til heima hjá sér.
Mér finnst hugmynd Samson feðga er frábær þó ekki væri nema fyrir það að konan mín (arkitektinn) fékk sömu hugmynd fyrir nokkrum árum. Við ræddum hana í þaula og það sem okkur fannst vera erfiðasta úrlausnarefnið var að koma bílaumferð með eðlilegum hætti inn í mollið. Okkur datt ekki í hug að fara yfir Hverfisgötu heldur vildum byggja 3-4 hæða moll á Laugavegi 77 og á bílastæðinu á bak við. Þetta náði aldrei langt, mig minnir að ég hafi sett fram hugmyndina í einhverjum miðborgarhópi hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem hún hefur lagst í dá í prófarkalestri. Góðar hugmyndir deyja hinsvegar ekki og eflaust hafa einhverjir fengið þessa hugmynd bæði á undan og eftir konunni datt þetta í hug í fjölskyldugöngutúr á laugardagsmorgni.
En hugmyndir mega sín lítils þó ef ekkert er gert með þær og þar eru Samson-feðgar að reynst borginni dýrmætir. Eitt það besta við þessa hugmynd er hún verður að veruleika ef borgin gerir ekki annað en að spila með. Maður trúir því að þetta gerist. Ef stjórnmálamaður setti fram þessa hugmynd þá hefði maður enga trú á því að þetta yrði að veruleika, a.m.k. ekki fyrr en borgarstjórinn verður gráhærður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.