Forgarður vítis

Ég hef kynnst forgarði helvítis og hann er amerísk ríkisstofnun.

Í morgun var fyrsti sumarleikskóladagur Karitas eldri dóttur minnar og þegar ég var búinn að skila henni af mér, brunaði ég í burtu frá skólanum sönglandi "Ég er frjáls...", Helena, sú yngri var nær draumalandinu en vöku í aftursætinu. Ég held að allir foreldrar átti sig á tilfinningu minni, ég átti tíma fyrir mig.

Ég ætlaði að nota fyrsta morguninn í það að skjótast á eina ríkisskrifstofu og skila inn umsókn minni um kennitölu, (social security no.) svo ætlaði ég að taka því rólega á meðan sú yngri svæfi.

Þegar ég kom á staðinn enn í söngskapi var búið að vera opið í hálftíma og um 40 manns biðu eftir afgreiðslu í einhverri þeirra þriggja lúga sem þarna voru. Brosið fraus og ég fór að raula "Dánarfregnir og jarðafarir". Ég fékk númerið 10, í afgreiðslu var 97 og B242, D430 og M125, sem fór eftir því hvert erindið væri, allt mjög gegnsætt og skiljanlegt, eða þannig.

Þá hófst biðin, eftir tæpa klukkustund var komið að númeri 99, þegar allt í einu var kallað á númer 18 og svo 17 og svo 32. Ég fylltist örvæntingu, allir sem voru að bíða með B, D, og M númer þegar ég kom, voru farnir. Lítið barn byrjaði að gráta og eftir um 5 mínútur var þeim kippt fram fyrir röðina. Ég hugsaði um að klípa Helenu, sem var vöknuð og skildi ekkert í því hvar hún var stödd á átta mánaða afmælisdaginn sinn, þannig kæmist ég kannski framfyrir eins og múslimaparið með litla barnið. Þá var verið að afgreiða númer 7 þannig að ég ákvað frekar að bíða.

Eftir rúmlega tveggja klukkustunda bið var númer 10 svo kallað og ég fékk að skila inn umsókninni. Þegar kennitalan er komin eftir um 2 vikur þarf ég svo að heimsækja þá ríkisstofnun sem versta orðsporið hefur á sér, DMV eða Umferðastofu. Til að tryggja bílinn okkar þurfum við bæði að hafa amerísk ökuskírteini, til að fá ökuskírteini þarf kennitölu.

Konan mín, Liz þurfti að njóta þjónustu DMV í mars til að skipta yfir í amerískt skírteini, svo við gætum leigt sendiferðabíl þegar búslóðin okkar kom. Það tók 4 klukkustundir en á þeim tíma skráði hún sig, tók skriflegt og verklegt bílpróf. Ég bíð spenntur eftir þeim kafla, ég ætla að taka með mér þykka bók.

----------
Þessi færsla birtist bæði á moggabloggi og eyjunni .

Bloggfærslur 26. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband