Blogið virkar!

Ég má til með að gera smá hlé á síðasta heila vinnudeginum til að henda þessu inn.

Í morgun barst mér þessi póstur frá Icelandair, ég tek mér það bessaleyfi að birta hann:

Kæri Friðjón,

Bestu þakkir fyrir tölvupóstinn sem barst til þjónustueftirlits Icelandair varðandi skatta og gjöld. Við biðjumst velvirðingar á því hve dregist hefur
að svara þér.

Hjálagt sendi ég svar frá Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingarfulltrúa Icelandair, við fyrirspurn þinni.

Með kveðju,
Rut Júlíusdóttir
Þjónustueftirliti


Hækkun á þessum lið "Skattar og gjöld" á undanförnum misserum á sér þá einföldu skýringu að Icelandair, líkt og önnur flugfélög brugðust við
tvöföldun eldsneytisverðs með því að leggja eldsneytisgjöld á hvern seldan farseðil. Búist var við því að um tímabundna hækkun væri að ræða og því var þessi kostnaður ekki settur beint inn í farmiðaverðið heldur haldið sér. Nú tæpum tveimur árum síðar eru engin merki þess að eldsneytisverð lækki og verði aftur það sem það var.

Því er löndunum í kringum okkur, líkt og hér á landi, vaxandi þrýstingur á að skattar og "gjöld" (charges, surcharges) verði felld inn í það verð sem birtist fyrst viðskiptavinum flugfélaga og ferðaskrifstofa á netsíðum þeirra. Sá háttur sem hefur verið hafður á undanfarin misseri er að birta fyrst fargjald án slíkra gjalda, en láta það bætast við á síðari stigum. Af samkeppnisástæðum hafa flugfélög og ferðaskrifstofur fylgt fordæmi hvers annars, uns þessi hefð virðist hafa skapast. Þetta fyrirkomulag er á undanhaldi. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa tekið fyrir það nú þegar, og í Skandinavíu gáfu yfirvöld fyrirmæli um að þessir liðir skyldu felldir inn í það heildarfargjald sem birtist fyrst neytendum á vefsvæðum þann 1. janúar
sl..

Við hjá Icelandair fögnum þessum skýru fyrirmælum frá yfirvöldum í þessum löndum og förum að þeim í einu og öllu. Á Íslandi ber fyrirtækjum samkvæmt íslenskum lögum að tilgreina hvarvetna, svosem í sölukerfum og í auglýsingum heildarverð keyptrar þjónustu og því höfum við lagt til að samkeppnisyfirvöld hér á landi fari að dæmi yfirvalda í nágrannalöndunum og gefi ákveðin fyrirmæli til allra markaðsaðila hér um birtingu heildarverðs á netinu með vísan til þessara laga. Icelandair mundi fagna slíkum fyrirmælum og fara að þeim, svo fremi sem allir markaðsaðilar séu
jafnsettir.

Við teljum að með þessum hætti vinnist það sem að er stefnt - neytendur fá nákvæmari og betri upplýsingar, fyrirbærið "gjöld" verður í raun að innanhúsmáli hjá hverju fyrirtæki því það birtist aldrei neytandanum sem sér liður,  og markaðsaðilar eru jafnsettir - og þetta væri hægt að gera strax.

Takk fyrir svarið, jákvæð viðhorf þarna í orðum Guðjóns, en það er bara eitt lítið en. Heldur einhver að ég hefði ekki fengið þetta svar ef kvörtun mín hefði ekki birst á forsíðu mbl.is? 

Ok kannski eru en-in fleiri. 

Guðjón gefur í skyn að skattar og gjöld hafi verið jafn há á leið frá USA en hafi nú verið felld inn í verðið. Það má vera ég ætla samt að biðja mágkonu mína um að senda mér upplýsingar um samsetningu fargjalds og "skatta og gjalda" síðustu 3-4 skipti sem hún kom hingað í heimsókn. Sjáum hvað setur.

Svo læðist að mér ein hugsun það er 20% afsláttur af farmiðum barna 2-11 ára, með því að hafa  eldsneytisgjaldið fyrir utan  farmiðagjaldið  þá sparar flugfélagið sér 20% af eldsneytisgjaldshækkuninni. Það gæti verið dágóð upphæð þegar á heildana er litið.

Að síðustu þá er þessi yfirlýsing um Icelandair um að þeir myndu glaðir birta rétt verð ef ríkið færi fram á það og aðrir gerðu það líka. Minnir þetta ekki á stjórnmálaflokk sem heimtar að opnun bókhalds stjórnmálaflokka en neitar að gera það sjálfur fyrr en aðrir hafa verið skyldaðir til þess.  Svar mitt til Guðjóns er þá: Gjör rétt - þol ei órétt.


Er fólk fífl? III

í framhaldi af orðum gærdagsins og ýmsum athugasemdum sem gerðar voru þá velti ég fyrir mér einu máli í viðbót varðandi markaðssetningu Icelandair á netinu.

Hvernig er  bókunarvél flugferða hjá icelandair.is undanskilin reglum um verðmerkingar? Í reglum um verðmerkingar nr. 580/1998 (PDF-skjal) er skýrt kveðið á um að skylt er að verðmerkja vöru og þjónustu með söluverði og ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram.

Aðferð Icelandair að sýna verð fyrir "skatta og gjöld" í bókunarvél sinni er ekki ósvipuð þeirri ef verslun sýndi verðmerkingar úti í glugga án virðisaukaskatts, síðan þegar þú ert búinn að velja þér vöru á verði X þá færðu að vita við kassann að verðið er þetta 50% hærra vegna "skatta og gjalda". Spyrjir þú hvers vegna og hvað felist í "sköttum og gjöldum" segist sá á kassanum ekert vita. En þér sé velkomið að senda tölvupóst, póstinum verður ekki svarað.

Árið 2003 féll dómur í Hæstarétti þar sem að grunni var verslunareigandi hér í borg var dæmdur til sektar fyrir ófullnægjandi verðmerkingar. Má vefverslun eins og bókunarvél Icelandair vera með ófullnægjandi verðmerkingar?

Og ef Icelandair ber því fyrir sig að þetta verði að vera svona vegna einhverra reglna eða mekkanísma í bókunarvél eða einhvers þess háttar þá má spyrja hversvegna Expedia og orbitz geta boðið upp á verð á flugum með Icelandair með "sköttum og gjöldum" inniföldum?

 

PS.
Einihvernveginn held ég að vildarpunktarnir mínir muni þurrkast út vegna undanfarna daga. Errm


Bloggfærslur 31. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband